Fréttaskýring Kjarnans um að útlán lífeyrissjóða til heimila hafi margfaldast á fyrri hluta ársins 2016 vakti athygli um helgina, en þeir hafa markvisst sótt inn á íbúðalánamarkaðinn undanfarið ár. Sjóðirnir lánuðu rúmlega 38 milljarða króna til íslenskra heimila á tímabilinu, en lánuðu tæplega fimm milljarða króna til þeirra á sama tíma í fyrra. Útlánin hafa því tæplega áttfaldast. Ástæðan er einföld. Sjóðirnir hófu að bjóða upp á betri vexti en viðskiptabankarnir og lægri lántökukostnað. Þeir hófu líka að lána allt að 75 prósent af verði íbúða, á meðan að „stóru“ íbúðarlán bankanna eru aðeins upp að 70 prósent. Viðskiptavinir þeirra sem þurfa meira lánsfé þurfa þá að taka hattalán á mun verri kjörum ofan á „stóra“ lánið. Þá hófu lífeyrissjóðirnir að lána óverðtryggð, þótt vinsældir þeirra lána hafi ekki gefið helstu lýðskrumurum afnáms verðtrygginga mikinn byr undir vængi. Þrjár af hverjum fjórum krónum sem lífeyrissjóðirnir lána eru verðtryggðar.
Samandregið þá er lífeyrissjóðirnir einfaldlega að bjóða mun betri kjör en bankarnir, sem hafa barmað sér yfir því að samkeppnisstaða þeirra sé gerð skökk með stjórnvaldsaðgerðum. Þeir þurfi t.d. að eiga mun meira eigið fé en lífeyrissjóðir, sem sé dýrt, og að greiða sérstaka bankaskatta sem þeir þurfi þá að velta yfir á viðskiptavini sína í formi lakari vaxtakjara. Þá fylgir því vafalaust mikill kostnaður að vera með um 3.400 starfsmenn (samanlagður fjöldi þeirra sem vinnur í Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum) á háum meðallaunum við að koma innlánum viðskiptavina sinna - sem eru uppistaðan í fjármögnun íslensku viðskiptabankanna - í vinnu fyrir sig. Aukin áhersla lífeyrissjóðanna á íbúðalánamarkað hefur því klárlega haft áhrif á útlán viðskiptabankanna.
Allir stóru bankarnir þrír - Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn - eru að minnsta kosti í orði til sölu. Fyrir liggur að fáir innlendir aðilar geta keypt þá fyrir eigið fé. Raunar eru bara tveir hópar sem hafa getu til þess, lífeyrissjóðir landsins og forrík stétt útgerðarmanna. Aðrir þyrftu að taka stór lán til að kaupa banka. Sú leið var reynd í síðustu einkavæðingu og endaði með ósköpum. Hún verður því vart farin aftur. Erfitt er að sjá að erlendir aðilar myndu vilja kaupa íslensku bankana út frá viðskiptalegum forsendum þótt slíkur áhugi sé oft trommaður upp.