Miklar umbreytingar eru að eiga sér stað í alþjóðlega orkuiðnaðinum um þessar mundir. Þetta á bæði við um miklar fjárfestingar sem farið hefur verið í á sviði endurnýjanlegrar orku í Evrópu og Norður-Ameríku sem og opnun nýrra orkumarkaða í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Sem dæmi má nefna jókst raforkuvinnsla frá sólarpanelum um 34% í heiminum á síðasta ári, uppsett vindafl jókst um 63.000 MW og talið er að um 12.500 MW af jarðhitavirkjunum séu á teikniborðinu. Það jafngildir um 18-19 földu uppsettu afli jarðhitavirkjanna á Íslandi (GEA). Þrátt fyrir mikla uppbyggingu eru einungis um 14% frumorkuvinnslu heimsins frá endurnýjanlegum orkugjöfum (IEA) svo enn er mikið svigrúm til að þróa nýjar aðferðir til að bæta í á því sviði.
Íslendingar eru svo sannarlega í athyglisverðri stöðu þegar kemur að reynslu og þekkingu á endurnýjanlegum orkugjöfum, bæði hvað varðar rannsóknir og nýtingu. Eftirspurn eftir íslenskri raforku hefur einnig aukist mikið á undanförnum árum og því er enn mikilvægara en áður að auka nýsköpun í þeim geira. Þannig skapast tækifæri til að bæta nýtingu auðlindanna og vinna að nýjum hugmyndum tengdum þjónustu og framleiðslu.
Orkuöflun fyrir stóriðju og almenna notendur undanfarna áratugi hefur skapað mikilvægan grunn. Öflugt net virkjana sem tengdar eru saman með flutningskerfi hafa skapað tækifæri fyrir uppbyggingu á minni iðnaði sem krefst hágæða orku. Jafnfram er hægt að hámarka orkunýtingu og þróa nýjar orkuafurðir með samspili virkjana, orkugjafa og notenda, svo sem með uppsetningu á varmadælum til húshitunar, samspili raforkuvinnslu og ferðamennsku og jarðvarmanýtingar og þróunar á verðmætum líftækniafurðum, svo örfá dæmi séu nefnd. Þessi þróun hefur skapað nýja þekkingu og reynslu sem getur reynst verðmæt fyrir þjóðarbúið og á alþjóðlegum vettvangi.
Í haust verður Startup Energy Reykjavík (SER) viðskiptahraðallinn haldinn í þriðja sinn. Hraðallinn veitir sprotafyrirtækjum í orkutengdum iðnaði fjármögnun og hjálp við áframhaldandi þróun viðskiptahugmynda sinna. Fyrstu tvö skiptin gengu ákaflega vel en þau 14 fyrirtæki sem tóku þátt hafa samanlagt hlotið tæplega milljarð króna í fjármögnun.
Eitt þeirra er fyrirtækið Loki Geothermal en í framhaldinu hlaut það styrk úr Tækniþróunarsjóði til þróunar nýrrar tegundar höfuðloka fyrir háhitaborholur og aðferða til að betrumbæta eldri loka. Hraðallinn hefur hjálpað félaginu mikið við að móta viðskiptahugmynd sína, koma því í samband við aðila innan iðnaðarins og veita því aðgang að frekara fjármagni. Ég hvet því alla sem vilja vera hluti af þessu áhugaverða breytingaskeiði orkuiðnaðarins til að sækja um í Startup Energy Reykjavík fyrir 14. ágúst 2016.
Höfundur er framkvæmdastjóri Loka Geothermal.