Ég hef sjaldan séð hina dagfarsprúðu samstarfsmenn mína í Stjórnarráðinu jafn undrandi og eftir lestur á leiðara Þórðar Snæs Júlíussonar í Kjarnanum sl. föstudag þar sem því er haldið blákalt fram að ríkisstjórnin hafi blekkt almenning með kynningu á Fyrstu fasteign. Hafa þeir þó haft ærin tilefni til að undrast á kjörtímabilinu eftir úttektir Þórðar Snæs og félaga þar sem tilgangurinn helgar meðalið og „lækin“ hrannast upp meðal fylgitamra. Aðspurður taldi ég það þjóna takmörkuðum tilgangi að svara rangfærslunum því það myndi að líkindum frekar leiða til áframhaldandi skætings en afsökunarbeiðni. En ásakanir um blekkingar gagnvart almenningi eru svo alvarlegar að ekki er annar kostur en að bregðast við. Því skulu tínd til nokkur atriði.
„Blekking“ nr. 1
Þórður Snær nefnir þrjú dæmi því til stuðnings að kynning ríkisstjórnarinnar hafi verið blekkjandi. Í fyrsta lagi að ekki séu réttar forsendur lagðar til grundvallar útreikningi á lífeyri og því beri að gjalda varhug við niðurstöðunni. Því er til að svara að kynningin byggir á þeirri stöðu sem ungt fólk stendur frammi fyrir við kaup á fyrstu fasteign að gefnum þeim samningum um lífeyrisréttindi sem samið hefur verið um á vinnumarkaði. Eins og fram kemur í kynningunni er gefin sú forsenda að laun þróist yfir starfsævina með svipuðum hætti og heildarlaun einstaklinga samkvæmt skattframtölum. Þetta er almennt dæmi um þá stöðu sem ungt fólk stendur frammi fyrir að gefnum bestu forsendum en staða og launaþróun einstakra manna yfir ævina getur að sjálfsögðu reynst önnur. Þetta dæmi og forsendur þess eru fengnar að láni frá Gunnari Baldvinssyni, framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins og fyrrverandi formanns Landssamtaka lífeyrissjóða, en hann hefur haldið því fram að hækkun lífeyrisiðgjalda hafi minnkað þörfina fyrir viðbótarsparnað til eftirlaunaáranna og alveg sérstaklega fyrir yngstu aldurshópana.
„Blekking“ nr. 2
Þórður Snær heldur því fram að ríkisstjórnin blekki með því að halda því fram að 14 þúsund manns kunni að nýta sér úrræðið en greiningar bendi á þann möguleika að færri nýti sér það. Fyrr í vikunni þurfti ég að setja ofan í við Þórð Snæ út af þessum meinta blekkingarleik. Í kynningunni er greint frá að áætlanir geri ráð fyrir að um 14 þúsund manns muni nýta úrræðið í fyrstu. Sú áætlun byggir á grunntilviki ráðgjafafyrirtækisins Analytica um líklegustu niðurstöðu að fengnu tölfræðimati á nýtingu séreignarsparnaðar eftir tekjum. Þrjú fráviksdæmi frá grunndæminu er að finna í frumvarpi um Fyrstu fasteign. Þar sem Fyrsta fasteign er varanlegt úrræði mun á hverju ári bætast við fjölda þeirra sem getur nýtt sér úrræðið. Samband íslenskra sveitarfélaga virðist komast að svipaðri niðurstöðu og Analytica um vænta nýtingu úrræðisins í greiningu sinni um framtíðartekjutap sveitarfélaganna en Kjarninn hefur samviskusamlega bent lesendum sínum á mikið tekjutap sveitarfélaga af Fyrstu fasteign. Er hægt að halda því fram að fáir muni taka þátt í úrræðinu en um leið að það hafi mikil áhrif á fjárhag hins opinbera?
„Blekking“ nr. 3
Þórður segir framsetningu kynningar stjórnvalda villandi því fyrirhugað bann við veitingu verðtryggðra jafngreiðslulána sé ekkert bann því undanþágur séu það víðtækar að 75% lántaka séu undanþegnir banninu. Í mati á áhrifum frumvarps um hámarkslengd verðtryggðra jafngreiðslulána er greint frá líklegum áhrifum undanþága á lántaka. Samanlagt má gera ráð fyrir að 40%-75% lántaka falli undir undanþágur. Ekkert grunndæmi um líklegustu niðurstöðu er sett fram og því villandi framsetning hjá Þórði að halda því fram að 75% lántaka séu undanþegnir banni. Markmið frumvarpsins er að stemma stigu við þeirri hættu sem felst í verðtryggðum langtímafasteignalánum með jafngreiðslufyrirkomulagi. Greint er frá því í frumvarpinu að bein áhrif þess, án tillits til annarra aðgerða stjórnvalda, væntinga eða ytri aðstæðna, sé að líkindum takmörkuð. Hins vegar muni áhrif frumvarpsins fara eftir samspili þess við frumvarp um Fyrstu fasteign. Kynning stjórnvalda í Hörpu fjallaði aðeins um Fyrstu fasteign en ekki um hámarkslengd verðtryggðra jafngreiðslulána. Engar blekkingar er hér að finna frekar en í fyrri dæmum heldur aðeins gnægð gagnlegra upplýsinga um kosti og galla einstakra lánaforma.
Allar upplýsingar aðgengilegar
Það er hvorki sanngjörn né eðlileg nálgun hjá Þórði að halda því fram að ríkisstjórnin hafi blekkt almenning með kynningunni í Hörpu. Ríkisstjórnin hefur lagt sig í líma við að kynna stærstu mál sín af myndarskap og veita sem víðtækastar upplýsingar. Engin sérstök ástæða er til að kalla vel undirbúna upplýsingafundi glanskynningar og því síður skiptir það máli að kynnirinn á upplýsingafundinum hafi verið djúpraddaður. Það hefði verið nær fyrir Þórð að mæta á fundinn, hlýða á kynninguna og nýta sér tækifæri til að spyrja þá sérfræðinga um málið sem þar voru tiltækir eins og margir fjölmiðlamenn gerðu. Hefði það án efa nýst lesendum hans betur.
Eftir kynningarfundinn hefur verið lögð mikil áhersla á að kynna málið sem best og gera gögn þess aðgengileg. Á sérstöku vefsvæði um Fyrstu fasteign er að finna glærukynningu stjórnvalda, upptöku af upplýsingafundi, fréttatilkynningu, ,,spurt og svarað“ um helstu mál sem brenna á væntanlegum notendum Fyrstu fasteignar og frumvörpin tvö sem ríkisstjórnin lagði fram í vikunni. Allt eru þetta mikilvægar upplýsingar sem ástæða er til að almenningur hafi greiðan aðgang að. Tugir manna hafa lagt nótt við nýtan sumardag á síðustu vikum til að gera þetta efni sem best úr garði og aðgengilegt almenningi.
Fyrstu fasteign er ætlað að koma til móts við fyrstu íbúðakaupendur. Ungt fólk stendur frammi fyrir takmörkuðu framboði af minni eignum, hærra verði minna eigna og strangara greiðslumati. Fyrstu fasteign er ætla að aðstoða mjög stóran hóp við að taka fyrstu skrefin. Aðgerðin nýtist best millitekjufólki. Ríkisstjórnin hefur einnig gripið til margvíslegra ráðstafana á húsnæðismarkaði til að tryggja hag leigjenda og aðgang tekjulægra fólks að félagslegu húsnæði.
Þórði er að sjálfsögðu frjálst að hafa sína skoðun á aðgerðum ríkisstjórnarinnar þó þær séu á skjön við álit flestra hagfræðinga sem gefið hafa álit sitt á þeim. Þórður telur til að mynda sjálfgefið að Fyrsta fasteign muni hækka húsnæðisverð. Analytica telur að húsnæðisþróunin ráðist af mannfjöldaþróun og fjölskylduformum. Til skamms tíma geti nýting séreignarsparnaðar til húsnæðiskaupa á grunni skattfrelsis flýtt fyrir því að fólk eignist eigið húsnæði sem ella hefði búið á leigumarkaði. Ólíklegt sé að sú þróun valdi uppnámi á fasteignamarkaði en hún gæti þó valdið verðhækkun til skamms tíma. Það þarf því sérstaklega að huga að skammtímaáhrifum Fyrstu fasteignar. Verðbólguspár Kjarnans hafa ekki reynst vel og er ástæða til að hvetja lesendur til að skoða verðbólguþróun síðustu þriggja ára samhliða lestri á tugum greina í Kjarnanum um væntanlega óðaverðbólgu í kjölfar leiðréttingar verðtryggðra fasteignalána.
Það er sérstaklega mikilvægt að huga að framboði húsnæðis og þá einkum minni og ódýrari eigna. Ríkisstjórnin hefur lagt sitt á vogarskálarnar til þess með umfangsmikilli breytingu á byggingarreglugerð og lögum um byggingu félagslegs húsnæðis. Mikil og góð samstaða ríkti um breytingar á byggingarreglugerð og munu þær vafalaust leiða til meira framboðs minni eigna og ódýrari íbúða. Hér þurfa sveitarfélögin hins vegar að taka sér taki. Hvernig væri til dæmis að hlaða upp í fréttaskýringu á húsnæðismálum og lóðamálum í Reykjavík?