Að minnsta kosti fjórtán flugfélög ætla að fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli í vetur. Áfangastaðirnir eru 58, sem er metfjöldi yfir vetrartímann, að því er fram kom í fréttum RÚV í gær.
Líklegt er talið að einhverjir áfangastaðir muni bætast við fyrir veturinn. Þessi staða er ótrúleg, sé aðeins horft nokkur ár aftur í tímann, og óhætt að segja að Ísland sé komið rækilega á kortið hjá ferðamönnum í heiminum og flugfélögum sem þjónusta þá.
Vonandi mun vel ganga að byggja upp þjónustuna á flugvellinum í Keflavík, með þeim uppbyggingaráformum sem þegar eru komin af stað. Vöxturinn í ferðaþjónustunni virðist ætla að halda áfram á næstunni, sem ýtir enn frekar á nauðsyn þess að byggja upp góða innviði í landinu fyrir þennan vöxt.