Reykjavík er rúmlega 120.000 manna borg. Í stjórn borgarinnar skipa jafnaðarmenn meirihluta.
Fyrir meirihlutann ætti „Leigukort“ (Interaktieven mietenkarte) yfir miðsvæði Berlín að vera umhugsunarefni. Í Berlín búa vel á fjórðu miljón manns og árleg mannfjölgun skiptir tugum þúsunda. Eru því ekki öfugmæli að leiguíbúðir eru skv. kortinu yfir línuna upp undir helmingi ódýrari í Berlín (íbúafjöldi ca 3.5 milljónir) en Reykjavík með sína 121.000 íbúa? Ef loftmyndir af Berlín eru bornar saman við höfuðborgarsvæðið, er vandséð að skortur á landrými skýri þennan mikla mun á húsnæðiskostnaði.
Leigukort Berlínar er á sinn hátt kort yfir allt sem er að í reykvískum húsnæðismálum. Ef samsvarandi kort væri gert yfir Reykjavík sýndi það líklega að mestu leyti hótel eða skammtímavistun fyrir ferðamenn. Í Berlín var skammtímaleiga íbúða til ferðamanna bönnuð í maí á þessu ári. Ekkert bólar á þannig ráðstöfun í Reykjavík.
Um síðustu borgarstjórnarkosningar blogguðu borgarfulltrúarnir Dagur B Eggertsson og Hjálmar Sveinsson oft um húsnæðismál.
Dagur vísaði þá oft í nýja húsnæðisstefnu borgarinnar frá 2011. Þar var lykilorðið „Bland í borg“ sem átti að tryggja félagslega blöndun íbúa í borginni. Fyrirmyndin mun vera frá Berlín. Þar sér borgarstjórnin til að venjulegt fólk hafi ráð á að búa innan borgarmarkanna. Líka í miðborginni.
Á Eyjubloggi sínu segist Hjálmar Sveinsson elska Berlín. Og Reykjavík.
Úr bloggi hans á Eyjunni í janúar 2014 :
„Nýja húsnæðisstefnan kveður á um að byggðar verði 2500 til 3000 nýjar leigu- og búseturéttaríbúðir í Reykjavík næstu 3 – 5 árin. Gert er ráð fyrir samvinnu við traust húsnæðis og byggingarsamvinnufélög og verkalýðshreyfinguna. Hluti af því verkefni er hönnun svokallaðra Reykjavíkurhúsa, hagkvæmra fjölbýlishúsa þar sem félagsleg blöndun er tryggð. Stefnt er að byggingu 400 til 800 íbúða í 15 – 30 húsum á næstu 3 til 5 árum.“
Hvernig gengur svo með „Bland í borg“ jafnaðarmanna í borgarstjórn? Er „Brask í borg“ betri lýsing á húsnæðismálum borgarinnar í dag?
Sömu borgarfulltrúar tjáðu sig einnig um kosti byggðaþéttingar fyrir síðustu kosningar. Í kjölfarið fylgdi töluverð umræða um byggðaþéttingu í fjölmiðlum. Eitt gleymdist þó í þeirri umræðu: Með hverju á að þétta byggðina? Tuttugu hæða íbúðaturnum með 200 miljón króna íbúðum? Glerkössum í æpandi ósamræmi við umhverfið? Á allt þetta að ganga yfir á vakt jafnaðarmanna? Sem elska Berlín og byggðaþéttingu?
Spyr sá sem ekki veit.