Ólafur Stephensen, framkvæmdarstjóri Félags atvinnurekenda (FA), hefur undanfarið tjáð sig mikið um búvörusamninginn og fundið honum flest til foráttu. Um stórt og mikið mál er að ræða og eðlilegt að skoðanir séu skiptar um ýmsa þætti þess. Það er hins vegar miður að Félag atvinnurekenda skuli leggjast gegn því að neytendur verði upplýstir um uppruna þess kjöts sem þeir kaupa sér út í búð.
Fram kom hjá Ólafi í fyrrnefndu viðtali, að hann telur að krafa um upprunamerkingu innfluttra landbúnaðarvara sé ,,tæknileg[a] viðskiptahindrun“. Það er sérkennileg afstaða, ekki síst ef haft er í huga. að fram hefur komið hjá Ólafi að hann telji sig bera hag neytenda fyrir brjósti. Höfum í huga að Ólafur er framkvæmdastjóri samtaka fyrirtækja sem flytja inn kjöt. Niðurfellingar tolla á þeim innflutningi eru augljóslega hagsmunamál þeirra fyrirtækja.
Ólafur hélt því fram, í umræddu viðtali, að um innflutt kjöt giltu nákvæmlega sömu reglur og það innlenda. Þarna má gera ráð fyrir að Ólafur viti betur. Staðreyndin er sú, að óvissa ríkir um uppruna stórs hluta þess kjöts sem íslensk fyrirtæki flytja inn. Til að mynda, er flutt inn mikið af kjúklingakjöti frá Danmörku, en dönsk fyrirtæki kaupa stóran hluta þess kjúklingakjöts frá Tælandi og þar gilda allt aðrar reglur en í Evrópusambandinu. Hvorki dönsk né íslensk innflutningsfyrirtæki þurfa að geta þess að hluti kjötsins sé upprunninn í Tælandi.
Nýleg könnun Gallup sýnir að 88% Íslendinga vilja að upplýsingar um uppruna kjöts séu sýnilegar á umbúðum. Sama könnun sýnir einnig að 82% Íslendinga vill frekar íslenskt kjöt en erlent. Við hljótum að geta náð samstöðu um að berjast fyrir því að íslenskir neytendur hafi val um hvort þeir vilji landbúnaðarafurðir sem koma frá löndum þar sem lyfjanotkun er mun meiri en hér á landi, eða vilji innlenda framleiðslu. Leiðin að því er að uppruna kjötsins sé alltaf getið á umbúðum.
Félag atvinnurekenda virðist ekki vilja að neytendur hafi þetta val, að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um hvaðan kjötið sem þeir velja að neyta er upprunnið. Sú afstaða byggir kannski á ótta við að ef slíkar upplýsingar lægju fyrir myndu þeir frekar velja kjöt sem þeir eru öruggir um að framleitt sé undir ströngum reglum um lyfjanotkun. Sú afstaða byggir tæpast á hagsmunum neytenda, frekar á hagsmunum innflutningsfyrirtækjanna sem Ólafur Stephensen vinnur fyrir.
Við skorum á Félag atvinnurekenda og framkvæmdarstjóra þess, Ólaf Stephensen, að útskýra hvernig það getur verið slæmt, að getið sé uppruna þeirra landbúnaðarvara sem íslenskum neytendum stendur til boða. Raunverulegs uppruna en ekki síðasta viðkomustaðar kjötsins áður en það kom til Íslands.
Höfundar eru formenn Svínaræktarfélags Íslands og Félags Kjúklingabænda.