Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, ákvað að svara greinarkorni mínu og formanns Félags kjúklingabænda um upprunamerkingar sem birtist í Kjarnanum sl. þriðjudag. Lítið fór fyrir málefnalegri umræðu í grein Ólafs, en reynt var að krafsa yfir málefnaskortinn með skætingi og skattyrðum í garð greinarhöfunda. Eftir standa efnisatriði greinar okkar óhögguð. Greinarhöfundum var satt að segja hálfskemmt yfir tilraunum til að gera okkur tortryggilega með því að uppnefna okkur forkólfa íslenskrar iðnaðarframleiðslu á kjúklinga- og svínakjöti og fulltrúa skemmubúskaparins. Endurspegla þessi ummæli afstöðu Félags atvinnurekenda til búgreina sem standa undir rúmlega helmingi allrar kjötframleiðslu í landinu? Ólafur vitnar í ESB-reglur og umhverfi í grein sinni og hann ætti því að vita að kjúklinga- og svínarækt er þar flokkuð sem landbúnaður. Auðvitað er freistandi að svara skætingi með skætingi, en við erum öll fullorðið fólk, eða hvað?
Þörf á innflutningi
Íslenskir svínabændur gera sér fulla grein fyrir að innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn eftir vissum vöruliðum. Innflutt svínakjöt er um 20% alls þess svínakjöts sem við neytum og hefur margfaldast á liðnum árum. Okkar athugasemdir varðandi frumvarp til staðfestingar viðskiptasamningi með landbúnaðarafurðir við ESB hafa fyrst og fremst snúið að hraklegum vinnubrögðum við hann, algerum skorti á hagsmunamati og eftiráskýringum um markmið með samningunum. Þetta breytir engu um þá von okkar að aukin festa færist á innflutning, með auknu fæðuöryggi, aukinni fjölbreytni og vissu framleiðenda fyrir því í hvaða umhverfi þeir starfa.
Neytendur vilja vita uppruna
Eitt baráttumála íslensks landbúnaðar hefur verið að tryggt sé að ekki sé flutt inn kjöt sem er framleitt við lakari kringumstæður en gerðar eru kröfur um í íslenskum landbúnaði, því annars erum við ekki í samkeppni á sömu forsendum. Evrópulönd eru komin mislangt í innleiðingu sinni á samhæfðum reglum um velferð og aðbúnað dýra. Þessar kröfur hafa, svo því sé haldið til haga, verið uppfylltar með ríkulegum ríkisstuðningi í flestum löndum í kringum okkur. Samskonar stuðning má finna í nýjum búvörusamningi, en þá eingöngu til kúabænda.
Sýnt hefur verið fram á bresti í reglum ESB um upprunamerkingar, þeir eru ekki uppfinning svínabænda. Við, og reyndar rúm 88% Íslendinga samkvæmt nýlegri könnun Gallup, teljum upprunamerkingar afar mikilvægar og að nauðsynlegt sé að ganga mun lengra en nú er gert til að gera neytendum ljóst hvaða vöru það er að meðhöndla.
Ólafur kemur gjarnan fram sem talsmaður neytenda, þegar það hentar honum og málstað innflytjendanna sem hann starfar fyrir. Sem slíkur ætti hann að hafa meiri áhyggjur af málum er varða upprunamerkingar. Staðreyndin er sú að ekki einu sinni starfsfólk Matvælastofnunar getur sagt til um upprunaland þess hráa kjúklingakjöts sem flutt er til landsins frá Danmörku. Í nýlegri frétt RÚV getur fulltrúi stofnunarinnar ekki svarað því hvort upprunaland kjúklingakjötsins sé Danmörk eða hvort það komi frá landi utan Evrópu. Þetta getur einfaldlega ekki verið sú staða sem við ætlum okkur að vera í.
Er lægsti samnefnarinn nóg?
Íslendingar eru í þeirri kjörstöðu að búa við heilbrigðan landbúnað þar sem ekki þarf að vera í óvissu um lyfjanotkun og heilbrigði. Nauðsynlegt er að sömu reglur gildi um það kjöt sem við flytjum inn, þess vegna skiptir uppruninn máli og þá raunverulegur uppruni, ekki hvaðan kjötið fór í gám á leið til Íslands. Slíkar kröfur hafa FA kallað tæknilega viðskiptahindrun og virðist sú skoðun ríkjandi að við eigum að miða okkur við lægsta samnefnara. Við erum hins vegar þeirrar skoðunar að það sé ekkert tæknilegt við það að vilja að það kjöt sem íslenskum neytendum stendur til boða sé heilbrigt, bæði innlent og innflutt, og uppruni þess liggi ljós fyrir. Það er kannski skiljanleg afstaða hjá samtökum innflytjenda, en þá er ekki á sama tíma hægt að segjast bera hagsmuni neytenda fyrst og fremst fyrir brjósti.
Það er gott að skiptast á skoðunum um málefni líðandi stundar. Slík skoðanaskipti eru forsenda framþróunar og velsældar. Uppnefni og skætingur gerir lítið til að örva slík skoðanaskipti. Í því samhengi gerði umrædd grein framkvæmdastjóra FA fátt til að þroska umræðuna. Ég óska framkvæmdastjóra og félagsmönnum FA góðra stunda.
Höfundur er formaður Svínaræktarfélags Íslands.