Það hefur löngum verið ljóst að við búum við afleita raforkusamninga sem tryggja álverum og stóriðju rafmagn langt undir markaðsvirði. Á grundvelli samninga sem gerðir voru í tíð núverandi stjórnarflokka nýtur erlenda stóriðjan umtalsverðra ívilnana fram yfir aðra. Þessir samningar voru og eru hneisa þar sem ekki er gætt hagsmuna íslensks samfélags eða framtíðarkynslóða og náttúruvernd er víða kastað fyrir róða við orkuöflun. Því miður hefur auk þess verið látið viðgangast að þessi alþjóðlegu stórfyrirtæki komi sér undan því að greiða eðlilega skatta af starfsemi sinni hérlendis. Rétt eins og það fólk sem opinberað var með Panamaskjölunum á vordögum.
Skýrt dæmi um þetta er fyrirtækið Alcoa, en samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2015 greiddi fyrirtækið ekki eina einustu krónu í tekjuskatt á Íslandi árinu þrátt fyrir að velta rúmlega 90 milljörðum króna. Skýringin er sú að bókfærðar skuldir fyrirtækisins eru metnar hærri en eignir þess hér á landi. Raunar hefur fyrirtækið aldrei greitt fyrirtækjaskatt á Íslandi enda ekki skilað hagnaði hér. Alcoa á Íslandi hefur hins vegar greitt móðurfélagi sínu í Lúxemborg tæplega 57 milljarða kr. í vexti frá byggingu álversins í Reyðarfirði.
Fram hefur komið í fjölmiðlum að Indriði Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, telur allar líkur á að Alcoa beiti þessari aðferð í þeim eina tilgangi að koma fjármunum frá starfsemi álversins án þess að þurfa að greiða skatta af rekstrarhagnaði fyrirtækisins á Íslandi. Indriði skefur ekkert af því og tekur svo djúpt í árinni í viðtali við Stundina í júní 2015 að segja um þennan gjörning: „Þetta er bara tilbúið tap.“
Í vikunni var svokölluð þunn eiginfjármögnun rædd á Alþingi að frumkvæði formanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs en hún lagði fram frumvarp þar um á árinu 2013. Frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyrir að erlendar fyrirtækjasamstæður geti bókfært tap en greitt svokallaða vexti til móðurfyrirtækja og komið sér þannig undan því að greiða eðlilegt skattahlutfall þess ríkis sem þær starfa í. Rétt eins og Alcoa á Íslandi.
Fjármálaráðherra fór í mikla vörn í umræðunum í þinginu á dögunum um þessa sjálfsögðu skattlagningu á risastór iðnfyrirtæki. Ráðherrann segir að verið sé að skoða þessi mál í fjármálaráðuneytinu. En spurningin er sú fyrir hvern fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur verið að spila varnarleik? Ef honum er í raun og veru svo mikið í mun að láta erlend stóriðjufyrirtæki borga viðunandi tekjuskatt í ríkissjóð okkar allra, af hverju hefur hann þá ekki lagt fram frumvarp um það? Af hverju stafar þetta aðgerðaleysi og hvað hefur það kostað okkur hin? Hvort eru ráðherrar hægristjórnarinnar að vinna fyrir almenning í landinu eða alþjóðleg álfyrirtæki og fjármagnið?
Staðreyndin er sú að það er ekkert því til fyrirstöðu að girt sé fyrir undanskot þessara fyrirtækja með almennum hætti. Vandinn er bara sá að sitjandi ríkisstjórn treystir sér ekki til þess og almenningur treystir henni ekki til þess heldur. Nú er kominn tími á breytingar. Látum verkin tala og tryggjum að alþjóðleg stórfyrirtæki greiði skatta á Íslandi eins og önnur fyrirtæki.
Höfundur er þingflokksformaður VG