Þann 20. september stendur Samkeppniseftirlitið fyrir opnum fundi um samkeppnisaðstæður á íslenska eldsneytismarkaðnum. Fundurinn er liður í svokallaðri markaðsrannsókn sem nú stendur yfir, en með honum er kallað eftir umræðu um eldsneytismarkaðinn, hvað megi betur fara og hvort eða hvaða úrræði séu í boði.
Til grundvallar umræðunni liggur annars vegar frummat Samkeppniseftirlitsins sem birt var í sérstakri frummatsskýrslu í desember á síðasta ári. Hins vegar byggir umræðan á sjónarmiðum hagsmunaaðila sem aflað var í framhaldi af útgáfu skýrslunnar. Frummatið og framkomin sjónarmið eru aðgengileg á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.
Til þess að markaðir virki sem best fyrir samfélagið
Markaðsrannsóknin á eldsneytismarkaðnum er sú fyrsta sem Samkeppniseftirlitið framkvæmir, en hún byggir á nýlegri lagaheimild. Lagaheimildin gerir Samkeppniseftirlitinu kleift að grípa til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða raskar samkeppni, jafnvel þótt fyrirtækin sem starfa á markaðnum hafi ekki orðið uppvís að lagabrotum.
Þetta úrræði er mikilvægt, því augljóst er að samkeppnishindranir geta stafað af margs konar aðstæðum á markaði, öðrum en lögbrotum. Ýmsar aðstæður sem tengjast eiginleikum viðkomandi markaðar, skipulagi hans eða uppbyggingu fyrirtækja, geta hindrað samkeppni og þar með skaðað skilvirkni á markaðnum og hagsmuni samfélagsins.
Með lagaheimildinni setti löggjafinn hagsmuni almennings í forgrunn. Almenningur eigi rétt á því að markaðir virki sem best fyrir samfélagið.
Beiting þessa úrræðis er hins vegar ekki vandalaus. Ríkar skyldur eru lagðar á Samkeppniseftirlitið að sýna fram á samkeppnishindranir og að velja rétt úrræði þegar nauðsyn krefur. Með þetta í huga hefur eftirlitið kappkostað að laða fram sjónarmið og upplýsingar sem að gagni geta komið. Þannig hefur öllum verið gefið tækifæri til að fylgjast náið með framgangi rannsóknarinnar og leggja orð í belg.
Fundurinn sem nú stendur fyrir dyrum er lokaáfangi í öflun sjónarmiða vegna rannsóknarinnar. Í kjölfar hans mun Samkeppniseftirlitið taka afstöðu til þess hvort til staðar séu aðstæður eða háttsemi sem skaði samkeppni og þá hvort ráðast þurfi í aðgerðir til að ryðja þeim úr vegi.
Höfundur er forstjóri Samkeppniseftirlitsins.