Það eru mikil gleðitíðindi að Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um fullgildingu Parísarsamkomulagsins um aðgerðir í loftslagsmálum. Parísarsamkomulagið er enda mikið fagnaðarefni fyrir heimsbyggðina alla. Tiltekinn hóp ríkja þarf til að fullgilda samninginn svo það var því afar mikilvægt að ríkisstjórnin kom loks með fullgildinguna til umfjöllunar í þinginu. Stjórnarflokkarnir höfðu legið undir ámæli frá okkur þingmönnum í Vinstri grænum fyrir að hraða ekki þeirri vinnu sem mest sem mátti, enda er fram undan vinna um framkvæmd samningsins í samvinnu við Evrópusambandið og Noreg.
Fullgilding Parísarsamkomulagsins er svo sannarlega spor í rétta átt í loftlagsmálum. Stefna íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum verður að vera skýr og í takt við alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Við í þingflokki Vinstri grænna höfum kallað eftir skýrari stefnu núverandi ríkisstjórnar í loftslagsmálum en sannast sagna hafa ekki borist mjög afgerandi svör. Það er bagalegt því gríðarlega mikilvægt er fyrir alla stjórnmálaflokka að svara spurningunni um stefnu Íslands í loftslagsmálum svo kjósendur geti gert upp hug sinn þegar kemur að áherslum um umhverfis- og loftlagsmál.
Mikilvægt er að horfa á loftslagsmálin í samhengi við alla aðra málaflokka. Þau eiga að vera yfir og allt um kring í allri opinberri ákvarðanatöku. Sum ríki hafa meira að segja stofnað sérstakt loftslagsráðuneyti, því að loftslagsmálin varða ekki bara umhverfismálin í hefðbundnum skilningi heldur koma þau ekki síður að orkumálum, samgöngumálum og því sem skiptir máli í daglegu lífi fólks og neysluháttum samfélagsins. Þannig eiga loftslagsmál alltaf að vera; alltumlykjandi og tengjast öllum hliðum samfélagsins. Ég hef t.d. spurt innanríkisráðherra um loftslagsmarkmið samgönguáætlunar. Ég hef líka kallað eftir svörum landbúnaðarráðherra um hvort búvörusamningar séu gerðir með loftslagsmarkmið Parísarsamkomulagsins til viðmiðunar og hef líka kallað eftir svörum hjá umhverfisráðherra hver loftslagsmarkmiðin séu hjá núverandi ríkisstjórn í tengslum við landbúnaðinn, sjávarútveginn, ferðaþjónustuna, nýsköpunarfyrirtæki og aðra aðila.
Stofnun loftlagsráðs
Raunveruleg loftslagsáætlun, hvort sem það er sóknaráætlun eða aðgerðaáætlun sem við eigum reyndar til frá árinu 2010, þarf að vera yfir áætlun sem fangar nánast öll svið samfélagsins. En það er ekki nóg. Ef við ætlum að ná að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, getur það ekki verið einskorðað við eina tiltekna áætlun eða aðgerðapunkta. Við þurfum að flétta loftslagsmarkmiðum inn í öll mál þvert á ráðuneyti og málaflokka. Ein leið til þess er að stofna loftslagsráð. Ráð sem hefur það meginhlutverk að gera alvöru ráðstafanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, hafi skilgreind verkefni þar um og sé samráðsvettvangur þeirra sem hafa bæði beina og óbeina aðkomu að málaflokknum. Tillaga okkar þingflokks um stofnun slíks ráðs var samþykkt í þinginu fyrr á þessu ári.
Gerum enn betur en Parísarsamkomulagið
Því miður eru áhöld um að Parísarsamkomulagið eitt og sér muni ná markmiðum um að halda hlýnun andrúmsloftsins undir tveimur gráðum. Fullyrt hefur verið, m.a. af hálfu Climate Action Network, að Parísarsamkomulagið í núverandi mynd þýði í raun og veru hlýnun sem er nær 2,7°. Ef rétt reynist er það einfaldlega of mikið. Fullyrt hefur verið af vísindafólki að 1,5° hlýnun sé í raun og veru það sem heimurinn þolir, hvort sem það er mannskepnan sjálf eða aðrir þættir vistkerfanna.
Í ljósi þessa voru sett sérstök ákvæði í Parísarsamkomulagið um að endurskoða markmiðin reglulega. Að samkomulagið sem slíkt væri ekki nægilega öflugt til að ná þessum markmiðum. Við erum að horfa á algerar hamfarir í loftslagsmálum og grafalvarlega stöðu í hlýnun jarðar þar sem erfitt verður að snúa við. Ábyrgðin er mikil og einna mest hjá okkur í hinum iðnvædda hluta heimsins. Aðildarríki loftslagssamningsins þurfa þá að gera enn betur en við höfum verið að tala um. Að vera metnaðarfull og ábyrg fyrir kynslóðir nútímans og framtíðar, þýðir að stíga skref sem eru ennþá stærri en áður hafa verið nefnd. Hér á Íslandi þurfum við að stefna að því að Ísland verði kolefnishlutlaust og draga mun meira úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er hægt ef raunverulegur vilji er fyrir hendi.
Eitt af því jákvæðasta á síðasta kjörtímabili var þegar þingheimur samþykkti með öllum greiddum atkvæðum þingsályktunartillögu um grænt hagkerfi. Að þróun hagkerfisins yrði með grænum og fjölbreyttum hætti. Að efnahagslegur vöxtur verði ekki á kostnað náttúruauðlinda eða náttúrugæða sem við verðum að standa vörð um til framtíðar. Það olli því miklum vonbrigðum að við ríkisstjórnarskiptin 2013 voru þessar tillögur eitt af því fyrsta sem slegið var út af borðinu. Ekki er hægt að víkjast undan því að taka upp áætlunina um grænt hagkerfi aftur.
Ef við ætlum að deila kjörum á þessari jörð til framtíðar verðum við að gæta að því í hvívetna að efnahagslegur vöxtur sé ekki ágengur. Ég mun leggja áherslu á það og vonandi verða fleiri samferða í að taka upp græna þráðinn og þróa íslenskt hagkerfi að grænu hagkerfi til framtíðar. Hefðbundin hagvaxtarhyggja leiðir til aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda. Fleiri mælikvörðum þarf að beita á hagsæld og gott samfélag. Einsleitir mælikvarðar eiga að heyra sögunni til.
Með innleiðingu græns hagkerfis, stofnun loftlagsráðs og að fella loftslagsmarkmiðin inn í allar opinberar ákvarðanir og stefna ótrauð að kolefnishlutlausu samfélagi, til viðbótar við Parísarsamkomulagið, leggjum við enn þyngri lóð á vogarskálarnar til að draga varanlega úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Það eru skýr skref til framtíðar.
Höfundur er þingflokksformaður VG.