Það eru líklega ekki mörg sem kannast við nafnið Alfred Wassard í dag. Að minnsta kosti ekki á Íslandi. Þessi Alfred hefur þó haft meiri áhrif á Íslendinga en margan grunar, ekki síst á það fólk sem hefur verið svo gæfusamt að ganga upp og niður Strikið í Kaupmannahöfn. Það hefur nefnilega ekki alltaf verið svo einfalt.
Allt til ársins 1962 gátu ökumenn í Kaupmannahöfn ekið um Strikið. Þetta kann að hljóma fáránlega, ég veit. Wassard, sem sat þá í borgarstjórn fyrir Íhaldsflokkinn (Konservative Folkeparti (já, hann var íhaldssamur í þokkabót), tók þá ákvörðun um að gera Strikið að bíllausri götu. Fyrst í tilraunaskyni til tveggja ára. Það er skemmst frá því að segja að Wassard fékk að launum tugi morðhótana frá reiðum ökumönnum. Hugsið ykkur, fyrir að opna Strikið fyrir gangandi vegfarendum!
Alfed lét ekki deigan síga. Ákvörðunin um bíllaust Strik stóð. Hún var gerð varanleg árið 1964 og lagði grunninn að þeim óskapnaði að algengasta tungumál sem er talað á götunni í dag er íslenska. Mikið hvað lífið getur verið fyndið.
Hér er það fullyrt, að ekki nokkrum einasta manni, ekki nokkurri einustu konu, ekki nokkru einasta barni, dytti í hug að breyta þessari ákvörðun í dag. Og hugsið ykkur, meira að segja Karl Johans gate í Osló, það undurfagra breiðstræti sem liggur að konungshöllinni, var einnig, allt fram á 10. áratug síðustu aldar, bílagata. Það fólk sem til þekkir er sammála um að það væri gersamlega ómögulegt í dag. Það er varla að hægt sé að troða á götuna fleiri mannverum á meðalþriðjudagseftirmiðdegi, hvað þá heilum bíl/um.
En eins og fortíðin hljómar ótrúleg þá hljómaði framtíðin einnig furðulega, jú, í fortíðinni. Hugmyndin um helstu götur þessara sögufrægu borga, algerlega bíllausar. Hvað voru borgaryfirvöld að hugsa? Eftir á að hyggja er þó yfirgnæfandi meirihluti þjóðanna beggja sem styðja þessa tilhögun í dag. Nú hafa borgaryfirvöld í Osló meira að segja bætt í. Þar verður öll miðborgin, ég endurtek: öll miðborgin, algerlega bíllaus, fyrir árið 2019.
Þessi viðvaningslega sögustund er til að útskýra í stuttu máli að bíll, eða bílar, geta aldrei verið grunnurinn að lífsgæðum. Allar rannsóknir benda reyndar til þess að fólk sem ekur bíl eigi sínar verstu stundir á hverjum degi innan bílsins. Tími sem fer í að vera föst/fastur í umferð er heldur ekki tími sem er varið. Það er tími sem er eytt.
Að þessu sögðu er rétt að taka fram, að fólk gæti auðvitað þurft á bíl að halda. Margt fólk kýs einfaldlega að aka. Finnst það jafnvel gaman. En um leið er rétt að muna að bíll er ekki mannréttindi. Bíll er lúxus. Og þannig væri æskilegt að meðhöndla bíla. Förum sparlega með þá. Bjóðum fólki far, sé þess kostur. Nýtum rýmið betur. Um þessar mundir er meðalfjöldi í einkabíl í Reykjavík 1,1 einstaklingur. Það er ökumaður og 0,1 farþegi. Hugsið um það, næst þegar þið eruð föst í umferð.
Enn bergmála mótmæli frá tímum Wassards, fólk trúir því einfaldlega ekki að það sé grundvöllur fyrir nokkurs konar tilveru innan borgarumhverfis án bíls. Íbúar Kaupmannahafnar eru hins vegar til vitnis, íbúar Oslóar, íbúar Amsterdam, Parísar, New York, Stokkhólms, Berlínar... listinn er mun lengri; það er vel hægt að lifa í borg án bíls. Það mengar minna, það veitir ykkur bestu stundir dagsins að ganga, hjóla, lesa í strætó eða lest, það er ódýrara, svo svo miklu ódýrara. Það er miklu betra! Og munið, ökumenn, að með hverjum hjólamanni/hverri hjólakonu í umferðinni, fækkar um einn bíl. Takið þeirri þróun fagnandi, þá er meira pláss fyrir ykkur.
Í dag er Alþjóðlegi bíllausi dagurinn. Til hamingju öll!
Hér er að lokum atriði úr klassísku kvikmyndinni Office Space eftir Mike Judge (1999). Þið vitið. Þið vitið.