Hvað ætlar ný ríkisstjórn að gera í loftslagsmálum?

Birna Sigrún Hallsdóttir & Hrafnhildur Bragadóttir
Auglýsing

Í síðustu viku fullgilti Ísland Parísarsamninginn um loftslagsmál og skipaði sér þannig í hóp ríkja sem tryggja að samningurinn taki gildi, en það gerist að líkindum innan fáeinna mánaða. Markmið Parísarsamningsins er að halda hlýnun jarðar vel innan við 2°C miðað við upphaf iðnbyltingar, og helst innan við 1,5°C. Til að stuðla að þessu markmiði hafa íslensk stjórnvöld lýst því yfir að þau muni, í samstarfi við Evrópusambandið, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir 2030, miðað við 1990.

Losun frá stóriðju heldur áfram að aukast

En hvað þarf Ísland að gera til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í kjölfar fullgildingar Parísarsamningsins? Það liggur beint við að líta fyrst til stóriðjunnar sem er völd að rúmlega 40% af útblæstri gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Síðustu ár hafa stóriðjufyrirtæki hérlendis heyrt undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir, en kerfið nær yfir um 45% losunar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Markmið viðskiptakerfisins er að minnka samanlagða losun fyrirtækja í kerfinu um 43% fyrir 2030, miðað við 2005.

Losun frá stóriðju hér á landi hefur meira en tvöfaldast frá 2005 og er útlit fyrir frekari aukningu á næstu árum vegna áforma um uppbyggingu í kísiliðnaði. Stóriðjan mun áfram heyra undir viðskiptakerfið, en 43% samdráttarmarkmið kerfisins á Evrópuvísu setur þróun stóriðju á Íslandi þó ekki skorður þar sem losunarheimildum er úthlutað beint til fyrirtækja án tillits til þess hvar þau eru staðsett. Losun frá stóriðju getur því aukist innan íslenskrar lögsögu svo lengi sem fyrirtæki geta útvegað sér gildar losunarheimildir. Þetta gætu stjórnvöld þó að sjálfsögðu haft áhrif á með nýjum áherslum í atvinnuuppbyggingu.

Auglýsing

Markmið Íslands í öðrum geirum

Ísland mun einnig taka þátt í samstarfi ríkja Evrópusambandsins við að draga úr losun í geirum utan viðskiptakerfisins, m.a. frá samgöngum, landbúnaði og meðhöndlun úrgangs. Evrópusambandið stefnir að 30% minnkun losunar í þessum geirum fyrir 2030, miðað við 2005. Sambandið deilir losunarmarkmiðum milli aðildarríkja í samræmi við efnahagsaðstæður þeirra og hefur nú lagt fram tillögu um hlutdeild hvers aðildarríkis fram til 2030. Ríkin sem fengu úthlutað þyngstu skuldbindingunum þurfa að draga úr losun um allt að 40% miðað við 2005. Til stendur að semja um hlut Íslands, en ekki er ástæða til að ætla annað en að Íslandi verði skipað í hóp með ríkjum sem taka á sig mestar byrðar.

Það er því útlit fyrir að samkomulagið við Evrópusambandið muni skylda Ísland til að takmarka verulega losun frá m.a. samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi og meðhöndlun úrgangs. Í tillögu að aðgerðaáætlun um orkuskipti sem ríkisstjórnin kynnti nýlega kemur fram að stefnt sé að því að 30% af orkunotkun í vegasamgöngum og 10% af orkunotkun í sjávarútvegi byggist á endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2030. Verkefni eru auk þess hafin á vegum stjórnvalda í öðrum málaflokkum. Þetta eru skref í rétta átt en engu að síður er ljóst að þörf er á mun meiri og metnaðarfyllri aðgerðum til að standa við væntanlega hlutdeild Íslands í markmiði Evrópusambandsins.

Meint forskot Íslands í loftslagsmálum

Miðað við hve stórt verkefni blasir við Íslandi er athyglisvert hversu oft vísað er til þess í stjórnmálaumræðu að Ísland sé í fararbroddi í loftslagsmálum og hafi forskot á önnur ríki vegna endurnýjanlegs uppruna raforku og orku til húshitunar hérlendis. Umhverfisráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, hefur t.d. lýst því yfir í tengslum við Parísarsamninginn að Ísland hafi „risavaxið forskot þegar kemur að því að vinna gegn loftslagsbreytingum“.

En hefur Ísland raunverulega forskot í því sameiginlega verkefni ríkja heims að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda? Þrátt fyrir gnægð loftslagsvænna orkugjafa á Íslandi er heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á hvern einstakling óvíða meiri. Árið 2012 var losun á hvern Íslending sú 6. hæsta í OECD-löndunum, og ljóst er að Ísland væri ofar á þeim lista ef losun frá landnotkun væri tekin með í reikninginn. Losun frá Íslandi jókst um rúmlega fjórðung frá 1990 til 2014, en losun í Evrópusambandinu dróst saman um tæplega fjórðung á sama tímabili.

Þá er losun frá framræstum mýrum og annarri landnotkun gríðarleg, og telst nettólosunin yfir 11 milljón tonn á ári samkvæmt nýjustu tölum. Það magn jafngildir um fimmtungi af árlegri heildarlosun Svíþjóðar. Losun frá framræstum mýrum var ekki lögð til grundvallar skuldbindingum Íslands samkvæmt Kýótó-bókuninni og er óvíst hvort og í hvaða mæli endurheimt votlendis verður viðurkennd sem mótvægisaðgerð í samstarfinu við Evrópusambandið. Eðlilegast væri að Ísland setti sér sérstakt markmið um minnkun losunar frá landnotkun, m.a. framræstum mýrum, óháð sameiginlegu markmiði með Evrópusambandinu.

Grunntónninn í Parísarsamningnum er að sérhvert ríki skuli grípa til allra mögulegra aðgerða, hvar sem er í hagkerfinu, til að afstýra sameiginlegu neyðarástandi jarðarbúa. Það lifir ekkert land á fornri frægð í loftslagsmálum og þótt Ísland hafi náð markverðum árangri við hitaveituvæðingu á síðustu öld ætti nálgun Íslands ekki að byggja á því að Ísland hafi sérstakt forskot á önnur ríki. Tölur um losun frá öðrum geirum en orkuframleiðslu sýna svo ekki verður um villst að Ísland á mikið verk fyrir höndum.

Mikilvægt hagsmunamál fyrir Ísland

En hvers vegna ættu ríkið og atvinnulífið að ráðast í kostnaðarsamar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda? Stundum hefur helst mátt heyra á ráðamönnum þjóðarinnar að í loftslagsbreytingum af mannavöldum felist tækifæri fyrir Ísland; hér megi með hækkandi hitastigi framleiða matvæli í stórum stíl og að með bráðnun íss á Norðurheimskautinu opnist siglingaleiðir og þar með tækifæri til að reisa umskipunarhöfn til að þjónusta starfsemi sem myndi tengjast auknum skipaflutningum nálægt Íslands ströndum.

Á síðustu árum hafa afleiðingar aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda og loftslagsbreytinga fyrir Ísland hins vegar verið að koma betur í ljós og leikur nú enginn vafi á því að hagsmunir Íslendinga eru gríðarmiklir. Sem dæmi má nefna að jöklar munu bráðna, sem mun hugsanlega til skamms tíma auka orkugetu vatnsaflsvirkjana, en er til lengri tíma grafalvarlegt fyrir orkuvinnslu hérlendis. Þá eiga fáar þjóðir jafnmikið undir hreinleika og verndun hafsins og Íslendingar, en nú er vitað að súrnun sjávar vegna losunar koldíoxíðs getur haft alvarleg áhrif á lífríki hafsins og fiskveiðar í íslenskri lögsögu. Talið er að höfin hafi tekið upp um þriðjung af öllu því koldíoxíði sem losað hefur verið í andrúmsloftið af mannavöldum frá iðnbyltingu. Nýverið hefur sjónum einnig verið beint að öllum þeim varma sem hafið hefur tekið við, en hafið tók við meira en 90% af þeirri varmaorku sem aukin gróðurhúsaáhrif ollu frá 1970-2010. Sá eiginleiki hafsins að taka upp koldíoxíð og varma hefur fórnarkostnað í för með sér. Erfitt er að spá nákvæmlega fyrir um samtvinnuð áhrif súrnunar og varmasöfnunar sjávar, en meðal líklegra afleiðinga er lækkandi súrefnisstyrkur, hækkun sjávarborðs, breytingar á hringrás sjávar og breytingar á frumframleiðslu og vistkerfum sjávar.

Það er sannarlega kominn tími til að hrinda af stað raunverulegu átaki til að vernda þessa hagsmuni og sýna á sama tíma ábyrgð gagnvart hnattrænum afleiðingum loftslagsbreytinga. Sá tími er liðinn að stjórnmálamenn geti fyrst og fremst lagt áherslu á hagsmuni Íslands af því að halda áfram að auka losun. Markvissar og áhrifaríkar aðgerðir til að draga úr losun eru gríðarmikið hagsmunamál fyrir bæði almenning og atvinnulíf á Íslandi og þótt sumar þeirra séu dýrar er ljóst að kostnaðurinn verður umtalsvert minni en af því að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga.

Endirinn á upphafinu – aðgerða er þörf ekki síðar en núna

Parísarsamningnum hefur verið lýst með vísun í þessi fleygu orð Churchill eftir sigur bandamanna í síðari bardaganum við El Alamein árið 1942: „Þetta er ekki endirinn. Þetta er ekki einu sinni upphafið á endinum. En kannski er þetta endirinn á upphafinu.“

Parísarsamningurinn markar þáttaskil í samvinnu ríkja í loftslagsmálum. Hann endurspeglar fordæmalausa samstöðu ríkja heims til að takast á við fordæmalaust vandamál. Ríki heims, jafnvel þau sem hafa verið treg til að viðurkenna loftslagsvandann, hafa loksins sammælst um að því verði ekki frestað lengur að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir aðra orkugjafa og rjúfa að fullu tengslin milli hagvaxtar og losunar gróðurhúsalofttegunda. Ísland hefur mikla möguleika til að draga úr losun og er vegna hreinnar ímyndar sinnar í góðri aðstöðu til að hafa áhrif á önnur ríki. Þeir sem taka við stjórnartaumunum á Íslandi að loknum kosningum eftir fáeinar vikur verða að bretta upp ermarnar og setja raunverulegan kraft í aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Með því getur Ísland sýnt öðrum ríkjum að alvara sé bak við loforð landsins á alþjóðavettvangi og um leið gefið til kynna til hvers Ísland ætlast af öðrum ríkjum. Þegar haft er í huga hversu mikla hagsmuni er um að tefla fyrir Ísland, að ónefndum alvarleika málsins í hnattrænu samhengi, er ljóst að flokkar sem bjóða sig fram til Alþingis þurfa að hafa bæði skýra stefnu í loftslagsmálum og áætlun um hvernig henni verður hrint í framkvæmd. Kjósendur eiga að gera kröfu um það.

Höfundar starfa hjá Environice – Umhverfisráðgjöf Íslands.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svona mun Sigurboginn líta út fram til 3. október
Sigurboginn klæddur í 25 þúsund fermetra plastklæði
Fyrsta stóra verkefni Christo og Jeanne-Claude hefur litið dagsins ljós eftir andlát Christo. Það hefur verið lengi í undirbúningi en um þúsund manns koma að uppsetningunni og kostnaður nemur rúmum tveimur milljörðum króna.
Kjarninn 18. september 2021
Ragnar Þór Ingólfsson
Land tækifæranna, fyrir útvalda!
Kjarninn 18. september 2021
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None