Á dögunum samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um að taka reglur um evrópsk fjármálaeftirlit upp í EES samninginn. Þetta stærsta mál í 22 ára sögu EES samningsins rataði dulítið í fréttir vegna þess að enn og aftur þarf að toga og teygja stjórnarskránna til þess að Ísland geti tekið þátt í í EES samtarfinu. Vitaskuld er það galið að skuli ekki hafa tekist að endurskoða stjórnarskrá og skjóta styrkari rótum undir EES samninginn – að ekki sé talað um alþjóðasamstarf almennt. Að í hvert skipti sem EES samningurinn þróast inn á ný svið þurfi her lögspekinga til að freista þess að finna nýjum reglum stað innan óskýrra hugmynda um ólögfestar meginreglur stjórnskipanarinnar.
Þetta mál er þó ekki síður merkilegt fyrir þær sakir að í því kristallast að gömlu stjórnmálaflokkarnir skila auðu í Evrópumálum. Núverandi stjórnarflokkar freistuðu þess að loka á umræður um Evrópusamvinnu með því að senda bréf til Brussel með óskýru orðalagi um – í besta falli – frestun á viðræðum um aðild að ESB. Í staðinn skyldi Evrópustefna stjórnarinnar grundvallast á EES samningnum. Samt er það svo að stjórnin hefur haldið á því máli með hangandi hendi og státar af einum versta árangri í sögu EES með tilheyrandi innleiðingarhalla og metfjölda samningsbrotamála fyrir EFTA dómstólnum. Utanríkismálanefnd eyddi til dæmis ríflega tveimur árum í að velta fyrir sér hvort taka mætti gerðir um vistvæna hönnun heimilistækja upp í EES samninginn, líkt og að það væri grundvallaratriði í utanríkisstefnu landsins að hér fengjust óvistvænar ryksugur.
Í umræðum um evrópsk fjármálaeftirlit á Alþingi bar svo við að ákveðnir fulltrúar Samfylkingar, sem hingað til hefur státað af því að vera Evrópusinnaður flokkur, töluðu niður EES samstarfið og ekki síst Eftirlitsstofnun EFTA. Allt í einu var sem Eftirlitsstofnun EFTA væri útsendari erlends valds þar sem stjórnarmenn skipaðir af öðrum EFTA ríkjum væru þar beinlínis til þess að skaða íslenska hagsmuni. Þessum aðilum á þó að vera fyllilega ljóst að það er grundvallarforsenda EES samningsins að komið sé á fót sjálfstæðri eftirlitsstofnun og dómstól hvers hlutverk er fyrst og fremst að tryggja rétta innleiðingu og framkvæmd EES reglna, einnig á Íslandi. Stjórnarmenn í Eftirlitsstofnun EFTA eiga þannig að gæta sjálfstæðis og hlutleysis í störfum sínum og skiptir þá engu um hverjir skipa þá til starfans. Enginn stjórnarandstöðuflokkanna virtist í þessum umræðum heldur átta sig á því að hefði Alþingi synjað því að taka umræddar reglur upp í EES samninginn væri EES samstarfinu sjálfu stefnt í hættu, enda er það ekki svo að menn geti valið og hafnað að vild hvaða hlutum samningsins sé fylgt hér á landi. Enn síður var til umfjöllunar að styrking fjármálaeftirlits með þátttöku í Evrópusamstarfi gæti hugsanlega orðið borgurum þessa lands til góðs.
Viðreisn leggur áherslu á að Ísland sé virkur og ábyrgur þátttakandi í alþjóðasamstarfi. Að því er varðar Evrópu er ljóst að Evrópusamstarf og aðgangur Íslands að innri markaðinum byggir á EES samningnum eins og sakir standa. Það er mikilvægt að stjórnvöld tryggi að borgarar þessa lands fái notið þeirra kosta sem EES samningurinn felur í sér með því að uppfylla samningsskyldur sínar á hverjum tíma. Að sama skapi á hvorki að tala samninginn sjálfan eða samstarfsþjóðir okkar innan EFTA niður. Hins vegar er það svo að eftir því sem EES samningurinn breytist og þróast verður spurningin um fulla aðild að ESB meira aðkallandi. Það þurfa einfaldlega allir kostir að vera uppi á borðum. Þess vegna viljum við að þjóðin fái að kjósa um áframhald aðildarviðræðna við ESB þannig að þjóðin sjálf geti metið hvort full aðild að sambandinu sé betri kostur til framtíðar. Við treystum okkur í þá vegferð með þjóðinni.
Höfundur situr í 3. sæti á framboðslista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.