Ójöfnuður milli kynslóða hefur aukist. Þannig hefur staða ungs fólks versnað í íslensku samfélagi í samanburði við kynslóðirnar á undan, einkum vegna tveggja þátta: ráðstöfunartekjur fólks á aldrinum 20-35 ára hafa dregist saman í samanburði við fyrri kynslóðir og erfiðara er fyrir ungt fólk að kaupa sé fasteign.
Staðan er frekar einföld á húsnæðismarkaði. Annað hvort býrðu í leiguhúsnæði, sem er bæði óöruggt og alltof dýrt eins og ástandið er á leigumarkaði eða þú færð hjálp frá foreldrum til að eiga fyrir afborgun af íbúð. Ég þekki enga manneskju sem hefur náð að spara fyrir útborgun í íbúð við fyrstu íbúðarkaup í núverandi umhverfi, án hjálpar fjölskyldu eða foreldra. Vandi ungs fólks varðandi húsnæði snýst aðallega um vandann við að safna fyrir útborgun þegar fasteignaverð er svo hátt sem raun ber vitni en ekki um að geta ekki greitt af húsnæðisláni, eins og nýbirt skýrsla um kynslóðareikninga sýnir fram á.
Það er óþolandi í svo ríku samfélagi að til sé slíkur aðstöðumunur og við gerum ekkert í því. Fyrir okkur í Samfylkingunni er þetta býsna einfaldur bissness. Það er að endingu kostnaðarsamara fyrir samfélagið að fólk búi ekki við öruggan húsnæðiskost eða hafi þak yfir höfuðið heldur en að bjóða upp á núverandi aðstæður og gera ekkert. Þá er staðreynd að fólk sem býr allajafna við lægri tekjur t.d. kennarar og hjúkrunarfræðingar, hefur takmarkaðri tekjumöguleikar en ýmsir aðrir hópar. Það er vond stefnumörkun sem leiðir til þess að færri velja sér þau störf sem eru jafn samfélagslega mikilvæg vegna þess eins að ekki er hægt að lifa mannssæmandi lífi. Hér á hið opinbera að koma inn og sporna við. Við eigum alltaf að hugsa til þess að tryggja aukin jöfnuð þ.e. að vera bæta kjör þeirra og aðstöðu sem fyrir margar sakir hafa lægri tekjur en þeirra sem hafa hærri og þurfa ekki viðlíka hjálp.
Forskot á fasteignamarkaði
Okkar andsvar við þessari öfugþróun byggir á því að veita þeim sem eru að verða undir í kynslóðalotterínu forskot til fasteignakaupa. Þannig fá íbúðarkaupendur styrk til þess að brúa afborgun í íbúð, en styrkurinn er fyrirframgreiðsla vaxtabóta. Hjón eða sambúðarfólk geta að hámarki fengið 3 milljónir króna. Einstæðir foreldrar 2. 5 milljónir og einstaklingar 2 milljónir. Á móti kemur að fólk sem tekur styrkinn afsalar sér rétti til vaxtabóta í 5 ár. Úrræðið kemur til framkvæmda strax, enda þörf á að koma til móts við þennan hóp strax . Leiðin er almenn og valkvæð þ.e að hægt er að fá vaxtabætur áfram frekar en styrk. Þá gagnast hún betur út á landsbyggðinni þar sem fasteignaverð er lægra og því er öflug byggðastefna tryggð með úrræðinu. Þá eru eigna- og tekjutengingar inni, svo það sé tryggt að það sé ekki að veita fólki sem á miklar eignir forskot á markaði sem það í raun þarf ekki. Rétturinn til vaxtabóta stæði þó alltaf eftir, ef fólk á annað borð rétt á þeim.
Á undanförnum árum hefur stuðningur í formi vaxtabóta minnkað gríðarlega, þar sem skerðingarmörk tekna og eigna hafa ekki breyst í samræmi við launaþróun og fasteignaverð. Þessu viljum við snúa við. Þá er aðgerðin ekki kostnaðarsöm en kostnaður sem leggst á ríkissjóð er óverulegur. Fer eftir því hversu margir nýta sér úrræðið en reikna má að þetta sé dýrast á fyrstu árum eftir að aðgerðin er satt á laggirnar en jafni sig út þegar fram líða stundir.
Samfylkingin er flokkur sem berst fyrir jöfnum tækifærum í samfélaginu óháð efnahag. Við teljum að það sé hlutverk stjórnvalda að tryggja, við mótun efnahagsstefnu, að ein kynslóð verði ekki undir í kynslóðalotterínu. Þannig eigi slík inngrip ríkisins að miða að því að jafna leikinn og hjálpa frekar þeim hópum sem hallar á.
Höfundur er í öðru sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.