Nú þegar fer að líða að þinglokum er enn til umræðu að gera verulegar breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) og hafa formenn nokkurra hagsmunahreyfinga háskóla- og framhaldsskólanema afhent þingmönnum áskorun þess efnis að frumvarpið verði afgreitt strax. Fjölmargir aðilar, til að mynda stéttarfélög, stúdentahreyfingar, Háskóli Íslands og aðrir háskólar, hafa hins vegar bent á alvarlega galla frumvarpsins og þær neikvæðu afleiðingar sem það mun koma til með að hafa á ákveðna hópa nemenda, verði frumvarpið samþykkt óbreytt.
Bent hefur verið á í umsögnum og greiningum ofangreindra aðila að þó nokkrir hópar eru líklegir til að koma verr út verði frumvarpið samþykkt miðað við núgildandi lánasjóðskerfi. Skortur er á greiningum sem taka mið af stöðu þessara hópa og benda má á að greiningarnar sem taldar eru styðja nýtt lánasjóðskerfi, til að mynda greiningar Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Stúdentaráðs Háskóla Íslands, byggja í sumum tilvikum á ónógum eða villandi upplýsingum um umrædda hópa.
Áætla má að þeir hópar sem verða fyrir skerðingu, verði frumvarpið að lögum, séu 1) nemendur sem lenda á milli lánasjóðskerfa, 2) nemendur sem hafa hærri framfærsluþörf og taka þar af leiðandi hærri lán en aðrir, til að mynda barnafólk, 3) einstaklingar með lág laun að loknu námi, 4) nemendur í löngu námi og 5) nemendur sem stunda eða hyggja á nám erlendis.
Ástæður þess að ofangreindir hópar koma verr út úr nýju lánasjóðskerfi eru útlistaðar hér fyrir neðan:
- Nemendur sem fengið hafa námslán samkvæmt núgildandi lögum um LÍN og hyggjast taka lán áfram í nýju kerfi verður almennt ekki gert kleift að borga af lánum sínum á þeim kjörum sem þeim stóð til boða í gamla kerfinu, það er með tekjutengdum afborgunum á 1% vöxtum. Þessum nemendum stendur til boða að borga annað hvort af báðum lánum samtímis, taki þeir lán í gamla og nýja kerfinu, eða að færa skuldabréf úr gamla kerfinu yfir í hið nýja. Fyrri valmöguleikinn felur í sér tvöfaldar afborganir en seinni valmöguleikinn felur í sér þreföldun á upphaflegri vaxtaprósentu auk afnámi tekjutengdra afborgana. Hér er því um að ræða verulegan forsendubrest fyrir umrædda nemendur verði frumvarpið að lögum.
- Einstaklingar með barn eða börn á framfæri hafa hærri framfærsluþörf en aðrir og taka því að öllum líkindum hærri námslán. Í greiningu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem fylgir frumvarpinu er því haldið fram að barnafólk komi betur út úr nýju námslánakerfi. Útreikningarnir sem eru notaðir til stuðnings þeirri fullyrðingu gera hins vegar ráð fyrir því að nemendur með börn á framfærslu fullnýti ekki lántökuréttinn sinn, heldur nái upp í framfærsluviðmið Lánasjóðsins með meðlagi, barnabótum og húsnæðisbótum. Ekki er gert ráð fyrir að nemendur í þessari stöðu taki full námslán. Það er þó ólíklegt að flestir nemendur taki lægri lán en þeir þurfa, þó þau fari fram yfir framfærsluviðmið LÍN að viðbættum bótum.
- Í boðuðu námslánakerfi er tekjutenging afnumin. Þetta gæti leitt til þess að greiðslubyrði þyngist hjá tekjulágum og á fyrstu árum afborgana á meðan tekjur eru hugsanlega lægri en seinna á starfsævinni. Benda má á að í greiningu Stúdentaráðs er tekið mið af meðallaunum við útreikninga á afborgunum í núverandi lánasjóðskerfi, en fæstir fá meðallaun. Ekki er hægt að notast við slíka útreikninga þegar meta á fjölda þeirra sem koma fjárhagslega betur eða verr út úr nýju lánasjóðskerfi.
- Lánshæfum einingum fækkað í 420 ECTS. Lán byrja að safna vöxtum við lántöku í nýju kerfi, ólíkt núverandi kerfi þar sem lán byrja að safna vöxtum við endurgreiðslu lána. Lán þeirra sem eru í löngu námi safna því vöxtum lengur en lán þeirra sem eru í stuttu námi.
- Samkvæmt frumvarpinu verða innleiddar verulegar breytingar á námslánakerfinu sem munu bitna verulega á þeim sem hyggja á að stunda nám erlendis og skerðir rétt námsmanna til að stunda nám óháð efnahag. Auk þeirra sem áður hafa verið nefndar má hér nefna takmarkanir vegna a) hámark námsaðstoðar, b) námslanda og námsgráða og c) aldurstengingar:
- Samkvæmt frumvarpinu verður að hámarki veitt námsaðstoð fyrir fjárhæð kr. 18.000.000.-. Þetta mun leiða til þess að færri námsmenn sjái sér fært að stunda nám erlendis þar sem það hefur nánast undantekningarlaust í för með sér hærri framfærsluþörf og hærri skólagjöld en hér heima.
- Samkvæmt frumvarpinu er opnað fyrir það að stjórn LÍN hafi frjálst mat til að takmarka veitta námsaðstoð eftir námslöndum og námsgráðum.
- Námsmenn erlendis eru oft og tíðum eldri en þeir sem stunda nám sitt hér heima. Þá er alþekkt að námsmenn byrji síðar að stunda nám sitt erlendis eftir að hafa verið á vinnumarkaði í nokkur ár með þeim tilgangi að bæta við þekkingu sína. Þetta leiðir til þess að endurgreiðslubyrðin verði þyngri þar sem lántakendur þurfa ljúka að greiða námslán sín fyrir 67 ára aldurinn.
Undirritaðir aðilar taka undir með öðrum stúdentahreyfingum um að breytinga er þörf á Lánasjóðskerfi íslenskra námsmanna. Samstaða virðist vera á meðal hagsmunafélaga og stjórnmálaafla um það að æskilegt sé að innleiða styrkjakerfi inn í námslánakerfi Íslendinga. Breytingar sem koma til með að bitna á ákveðnum hópum námsmanna eru hins vegar ekki eitthvað sem við getum fallist á. Námsmannahreyfingar eiga að gæta hagsmuna allra félagsmanna sinna, ekki hluta þeirra. Af þessum ástæðum, ásamt öðrum sem koma fram í umsögnum ofangreindra hagsmunafélaga, leggjumst við gegn því að frumvarp Mennta- og menningarmálaráðherra til laga um námslán og námsstyrki verði að lögum.
Agnes Ársælsdóttir, formaður Nemendafélags BA nema í myndlist við Listaháskóla Íslands
Alma Ágústsdóttir, meðlimur í Stúdentaráði Háskóla Íslands
Brynja Helgadóttir, meðlimur í Stúdentaráði Háskóla Íslands
Dagur Skírnir Óðinsson, stjórnarmaður SÍNE
Elinóra Guðmundsdóttir, meðlimur í Stúdentaráði Háskóla Íslands
Elísabet Brynjarsdóttir, meðlimur í Stúdentaráði Háskóla Íslands
Eydís Blöndal, meðlimur í Stúdentaráði Háskóla Íslands
Hjördís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SÍNE
Ingvar Þór Björnsson, meðlimur í Stúdentaráði Háskóla Íslands
Jóhann Gunnar Þórarinsson, stjórnarformaður SÍNE
Málfríður Guðný Kolbeinsdóttir, meðlimur í Stúdentaráði Háskóla Íslands
Nanna Hermannsdóttir, meðlimur í Stúdentaráði Háskóla Íslands
Ragna Sigurðardóttir, meðlimur í Stúdentaráði Háskóla Íslands
Ragnar Auðun Árnason, meðlimur í Stúdentaráði Háskóla Íslands
Sandra Rún Jónsdóttir, formaður Nemendafélags Tónlistardeildar Listaháskóla Íslands
Sigríður Helgadóttir, meðlimur í Stúdentaráði Háskóla Íslands
Sólveig Dóra Hafsteinsdóttir, varaformaður Nemendafélags Hönnunnar- og Arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands
Þórður Jóhannsson, meistaranemi og stjórnarmaður SÍNE