Það er nokkuð ljóst að eitt stærsta hagsmunamál mannkyns til skemmri og lengri tíma er umhverfisvernd. Þótt Donald Trump haldi öðru fram er þetta nokkuð óumdeilt. Áherslur í stjórnmálum endurspegla þetta samt ekki. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið er enn veigaminnsta ráðuneytið og málefnum umhverfis gefinn lítill tími í umræðum í aðdraganda kosninga.
Síðustu 13 ár hef ég starfað með alþjóðlegum dýravelferðarsamtökum á Íslandi og í Noregi. Á þessum tíma hafa óyggjandi upplýsingar komið fram um að mesta magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti verður til vegna verksmiðjuframleiðslu á dýraafurðum. Gríðarstórir skógar hafa verið ruddir til að stunda nautgriparækt og búfénaður er fluttur langar vegalengdir á risastórum flutningabílum til slátrunar. Gasið sem nautgripir heimsins senda út í andrúmsloftið er meiriháttar vandamál.
Frá síðustu aldamótum hefur kjúklinganeysla á Vesturlöndum fimmfaldast. Undir lok tuttugustu aldar var kjúklingur að jafnaði í matinn einu sinni í viku en nú er hann borðaður að meðaltali 5 sinnum í viku. Verðið hefur hlutfallslega lækkað en fyrir vikið er milljörðum dýra boðið upp á algjörlega óviðunandi aðstæður í miklum þrengslum þar sem þau sjá aldrei sólarljósið á sinni skammvinnu ævi. Allt til að skyndimaturinn sé sem ódýrastur. Er þetta raunverulega hollt? Hvað með öll sýklalyfin?
Á þessari öld hafa líka komið fram áreiðanlegar upplýsingar um að hvalir séu mikilvægir lífríki sjávar en ekki afætur eins og sumir hér á landi hafa viljað meina. Þegar þeir deyja náttúrulegum dauðdaga þá verður til gríðarlegt magn næringarefna og einnig með daglegum úrgangi þeirra. Þegar þeir kafa róta risastórir skrokkar hvala upp öðrum næringarefnum af botni sjávar og í neðri lögum hafdjúpsins sem nýtast fiskum og öðrum lífverum en sem annars hreyfðust ekki.
Dýravernd er umhverfisvernd og mikið hagsmunamál alls mannkyns. Brýnt er að Ísland setji sér háleit markmið um dýravelferð og umhverfisvernd. Með því að vinna markvisst að því að öll matvælaframleiðsla sem hefur að gera með dýraafurðir verði vistvæn á Íslandi innan 15 ára, mundum við leggja okkar að mörkum og verða fyrirmynd annarra ríkja. Á þessum sama tíma ættum við líka að vinna að því að allavega 75% bílaflotans og fiskiskipaflotans verði rafvæddur. Ban Ki Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði réttilega á Arctic Circle ráðstefnunni nýverið að margt hefði tekist vel á Íslandi en að við Íslendingar gætum gert betur. Og við eigum að gera svo miklu betur þegar velferð dýra, manna og umhverfis er annars vegar.
Höfundur skipar 4. sæti á lista VG í Suðvestur kjördæmi.