Norska blaðið VG sagði fyrir skömmu sögu af sérleyfum til laxeldis í sjó, sem áttu að gagnast litlum eldisfyrirtækjum, en komust í hendur hinna stóru. Það voru tveir nafngreindir Íslendingar, feðgar, sem sérleyfi fengu árið 2009 og seldu nýlega með gríðarlegum hagnaði. Málið minnir nokkuð á íslenska kvótamálið og sýnir ljóslega þá miklu fjármuni, sem verða til í laxeldi við útgáfu laxeldisleyfa.
Blaðið segir, að það hafi verið stór dagur fyrir Nordland-fylki, þegar það fékk tvö sérleyfi til að hefja laxeldi í sjó. VG birtir mynd úr Helgelands Blad, þar sem ráðamenn fylkisins afhenda íslensku feðgunum blóm og allir eru með bros á vör. Það hafði lengi verið barist fyrir þessum leyfum og nú myndi laxinn færa sveitarfélaginu fé og störf.
Árið 2009 veittu stjórnvöld 65 leyfi til eldis á laxi, urriða og regnbogasilungi í Noregi. VG gerði úttekt á framvindu mála í þeim byggðarlögum, sem leyfin fengu. 20 af 65 leyfum, eða 30%, eru nú í eigu annarra félaga en leyfin fengu. Mikill meirihluti er kominn í eigu stóru eldisfyrirtækjanna. Sjö af leyfunum voru þegar seld risafyrirtækjunum Norway Royal Salmon og Salmar. Í dag eru 31 af þessum 65 leyfum komin í eigu eða hlutaeigu stóru eldisfyrirtækjanna.
Fyrir leyfin 65 fékk norska ríkið 6,8 milljarða íslenskra króna. Í dag er matsverð leyfanna 65 samtals um 30 milljarðar íslenskra króna og hefur verðmætið ríflega fjórfaldast. Þau leyfi, sem þegar hafa verið seld, hafa farið fyrir 7-800 milljónir króna hvert 1000 tonna leyfi. – Þegar þessi leyfi voru veitt var tilgangurinn sá, að efla starfsemi minnstu fyrirtækjanna í greininni og til atvinnusköpunar í strandhéruðum Noregs. Aðeins nokkur fyrirtæki hafa uppfyllt þessar væntingar.
Samkvæmt norskum eldislögum er heimilt að kaupa og selja leyfin. Þar eð leyfin 65, sem veitt voru 2009, fóru ekki til stóru eldisfyrirtækjanna, hafa þau ekki átt annan kost til vaxtar en að kaupa leyfi af minni fyrirtækjum. Verðið hefur oft verið himinhátt, enda margir um kaupin.
Fyrirtæki Íslendinganna tveggja, sem sérleyfin fengu, hét Salmus Akva og var í Nordland. Hinn 12. mars 2013 var tilkynnt, að félagið hefði verið selt eldisfyrirtækinu Nova Sea, sem er með þeim stærstu í Noregi. Sölunni fylgdu tvö sérleyfi. Samkvæmt frétt í héraðsblaðinu Helgelands Blad, voru hlutabréfin í Salmus Akva seld fyrir 100 milljónir norskra króna eða 1,4 milljarða íslenskra króna. Í sama mánuði var móðurfélag Salmus Akva, sem hét Leines Seafood í Leirfjord, lagt niður. Þar misstu 56 manns atvinnuna.
Blaðið VG segir, að Íslendingurinn, sem annaðist daglegan rekstur Salmus Akva, hafi verið ófeiminn við að ræða söluna, en ekki viljað skýra frá söluverðinu. Hins vegar neitaði hann því, að hann og aðrir eigendur hefðu lifað einhverju lúxuslífi eftir söluna. „Við borðum ennþá hrökkbrauð og sultu“ sagði Íslendingurinn. „Peningarnir voru notaðir til að endurfjármagna eldisfyrirtækið Salmus og til að stofna eldisfyrirtæki á Íslandi.“
Hans Lövmo, stjórnmálamaður í Leirfjord og Alstahaug, var einn af þeim, sem barðist fyrir því, að Íslendingarnir og fyrirtæki þeirra Salmus Akva fengi tvö sérleyfi til laxeldis. „Við vorum ánægð með árangurinn þegar fyrirtækið, það eina í Nordlan, fékk tvö sérleyfi“, segir Lövmo í viðtali við VG. Það hefðu því verið mikil vonbrigði, þegar fyrirtækið var selt. Hann telur mikilvægt, að heimilt verði að framleigja eldisleyfin svo eitthvað af tekjunum verði eftir í sveitarfélögunum. Þetta sjónarmið ætti að vera umhugsunarefni íslenskum sveitarfélögum, sem vilja heimila laxeldi í sjó.
Þessi frétt í norska blaðinu útskýrir að hluta hvers vegna Norðmenn sækja nú mjög í íslensk fyrirtæki, sem fengið hafa eða sótt um, leyfi til laxeldis í sjó í fjörðum við Ísland. Norska ríkið mun ekki veita fleiri eldisleyfi í náinni framtíð og fátt er af leyfum á markaði, þótt verðið hafi margfaldast á nokkrum árum. – Þá fjölgar nú gagnrýnisröddum í Noregi, sem vara við vaxandi mengun í sjó, illviðráðanlegum lúsafaraldri, vírussýkingum í eldiskvíum og alvarlegri genamengun í norskum laxastofnum vegna strokulax úr kvíum.
Ljóst er, að íslensk eldisleyfi eru mjög verðmæt, þótt lítið sem ekkert sé fyrir þau greitt. Það er því veruleg arðsvon að sækja um eldisleyfi, sem síðan er hægt að selja útlendingum fyrir stórfé. Það er mjög tímabært, að setja ákvæði í lög um sjávareldi, sem heimila eingöngu eldi á landi og geldfiski í sjó. Einnig gjaldskrá fyrir leyfi og banni við framsali þeirra og sölu til útlendinga eins og Færeyingar hafa gert.
Með laxeldi í sjó er hafin nýting á íslenskum hafsvæðum, sem eru í eigu íslenskrar þjóðar. Slík afnot hafsins utan netlaga eru ólögmæt samkvæmt 40. Gr. stjórnarskrárinnar. Ef af verður í stórum stíl, þá ber ríkinu að taka gjald fyrir. Verðmætin eru mikil. Eins og fram kemur í frétt VG, fékk norska ríkið 6,8 miljarða fyrir 65 leyfi.