Menntun er grunnstoð íslensks samfélags. Hún er grunnstoð samfélagsins í þeim skilningi að það þrífst ekki án menntunar. Menntun á háskólastigi er síðan okkar tól til þess að tryggja framþróun í samfélaginu með rannsóknum og miðlun þekkingar.
Þrátt fyrir augljóst mikilvægi íslenskra háskóla hafa þeir verið fjársveltir í langan tíma og eru nú komnir að þolmörkum. Þetta fjársvelti má glögglega sjá með því að skoða fjárframlög til íslenskra háskóla til samanburðar við fjármögnun háskóla á hinum Norðurlöndunum. Þar er háskólakerfið að mestu ríkisfjármagnað eins og hér. Framlög til íslenskra háskóla á hvern nemanda er aðeins um það bil helmingur af framlögum á hvern nemenda til háskóla á Norðurlöndunum. Einnig hafa erlendar úttektir á íslenskum háskólum sýnt fram á að háskólarnir hafa verið undirfjármagnaðir frá því fyrir hrun, auk þess sem að við bættist aukinn niðurskurður í kjölfar fjölgun nemenda í hruninu 2008.
Það er þess vegna sem 5 ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar kom eins og blaut tuska í andlit starfsmanna og nemenda íslenskra háskóla. Áætlunin gerir ráð fyrir að enn og aftur þurfi háskólarnir að starfa undirfjármagnaðir. Sem íslenskum háskólanemum þykja okkur þessar áætlanir vera til marks um skammsýni og virðingaleysi gagnvart íslenska menntakerfinu.
Í kjölfar fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar hafa rektorar allra 7 háskólanna sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir skora á stjórnmálamenn að snúa við undirfjármögnun háskólastigsins. Í yfirlýsingunni stendur: „Við óbreytt ástand geta háskólarnir ekki starfað áfram með eðlilegum hætti. Háskólastarfi á landinu er stefnt í hættu.“ Það að rektorarnir komi sér saman um svo afdráttalausa yfirlýsingu segir mikið til um alvarleika stöðunar. Rektorarnir hafa einnig bent á að undirfjármögnun sé þegar farin að bitna á gæðum háskólamenntunar. Þetta má til dæmis sjá í fækkun námsleiða og háu hlutfalli nemenda á hvern kennara. Taka mætti fleiri dæmi en áhrifin eru víðtæk og hafa áhrif á alla starfsemi háskólanna, sem og samfélagið í heild Í viðvarandi fjárskorti eru háskólarnir ósamkeppnishæfir og kemur það til dæmis mikið niður á alþjóðasamstarfi.
Þrátt fyrir áralanga undirfjármögnun hafa kröfur til rannsókna innan háskólanna aukist þar sem samfélagið og atvinnulífið kalla eftir sífellt meiri þekkingu og sérhæfingu. Kröfurnar til íslenskra háskóla eru því á engan hátt í takt við fjármögnun þeirra. Það virðist því sem íslensk stjórnvöld ætlist til þess að háskólarnir geti gert allt úr engu.
Áhrif menntunar á samfélagið eru ómetanleg. Nauðynlegt er að byggja upp íslenska háskóla á sterkum undirstöðum til að tryggja velferð, hagvöxt og framtíð íslensks samfélags. Þess vegna taka stúdentar undir yfirlýsingar rektora. Háskólarnir eru í hættu; það verður að koma þeim til bjargar. Við hvetjum því verðandi stjórnvöld til að vera hyggin og byggja háskóla á sterkum grunni. Við hvetjum þau til að fjárfesta í menntun.
Við hvetjum alla til þess að skrifa undir áskorun til stjórnvalda þess efnis að setja menntamál í forgang. #háskólaríhættu