Á Íslandi er alltaf mynduð meirihlutastjórn eftir kosningar til Alþingis. Í þeim löndum sem við gjarnan viljum bera okkur saman við og í grunninn hafa keimlíkt stjórnkerfi og hið íslenska er raunin hinsvegar ekki sú sama.
Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hefur í fjölda ára verið hefð fyrir minnihlutastjórnum. Lítum nánar til Danmerkur, þaðan sem íslenskt þingræði sækir fyrirmynd sína. Þar hafa minnihlutastjórnir setið eftir síðari heimsstyrjöld með örfáum undantekningum. Hjá okkar dönsku frændum verða frumvörp sjaldan að lögum fyrr en eftir ítrekað samráð og málamiðlanir allra flokka á þinginu, hvort sem þeir eru í ríkisstjórn eða ekki. Í mörgum málaflokkum svo sem eins og velferðarmálum er almennt víðtæk samstaða um hvernig skuli haga verkum. Danir hreykja sér af þessu fyrirkomulagi og færa fyrir því rök að með þessu háttalagi á stjórnarmyndun sé lýðræðið heilbrigðast, en danskur almenningur ber mikla virðingu fyrir landsþinginu.
Hvers vegna getur þetta ekki verið svona á Alþingi?
Á nýlegri samkomu þar sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins ræddi við framhaldsskólanema viðraði hann áhyggjur sínar af ríkisstjórnarmyndum eftir komandi kosningar, þar eð í kortunum virðist allt stefna í að ekki muni tveimur flokkum takast að mynda meirihluta. Einfaldlega væri of erfitt að gera málamiðlanir í þriggja flokka ríkisstjórnarsamstarfi. Orðfæri Bjarna endurspeglar það sem virðist vera stjórnmálakúlturinn á Íslandi.
Á Íslandi lítur út fyrir að hin víðtæka skoðun sé nefnilega sú að allir stjórnmálaflokkar skuli vera andstæðingar, í keppni sín á milli um atkvæði kjósenda. Þeir stjórnmálaflokkar sem mesta fylgið fá, þeir skuli vera sigurvegarar og geti þannig í krafti þess sigurs þröngvað frumvörpum í gegnum Alþingi eins og þeim lystir. Samráð sé í raun tilgangslaust, stjórnmálaflokkarnir séu þrátt fyrir allt andstæðingar með mismunandi markmið og tilgang sem aldrei geti farið saman. Þess vegna virðist eina takmark íslenskra stjórnmálaflokka vera að komast í ríkisstjórn. Þetta er íslensk stjórnmálamenning, sem langflestir eru orðnir þreyttir á.
Svona þarf þetta ekki að vera. Þetta er bara hefð, sem íslenskir stjórnmálamenn nútímans hafa fengið í arf frá eldri kynslóðum íslenskra stjórnmálamanna. Arfleið sem hægt er að breyta. Hver segir að við getum ekki verið með tveggja flokka stjórn eftir kosningar, stjórn sem styðst ekki við meirihluta, heldur samráð við hina flokkana sem sitja á Alþingi.
Þeir einu sem segja það, með verkum sínum og orðræðu eru stjórnmálamennirnir sjálfir og sú hefð meirihlutastjórnmála sem hefur ríkt á Alþingi alltof lengi.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.