„Óvenjulegt er að svo margir íslenskir ríkisborgarar flytjist úr landi þegar uppsveifla er í atvinnulífinu“, sagði fulltrúi peningastefnunefndar Seðlabankans í lok seinasta árs þegar ljóst var að ellefu hundruð fleiri höfðu flust úr landinu en til þess fyrstu níu mánuði ársins. Síðan að efnahagur landsins hrundi árið 2008 hefur átt sér stað mesti landflótti í kjölfar kreppu í sögu íslensks samfélags. Fólk flytur umvörpum úr landi í leit að betra lífi á sama tíma og margumtalaður uppgangur og hagvöxtur einkennir efnahagslíf og hinir ýmsu sérfræðingar og spekúlantar furða sig á því af hverju á þessu standi. Það má vissulega segja að þetta sé óvenjulegt en þetta ætti hins vegar ekki að koma neinum með heila brú í hausnum á óvart.
Ástæðan? Á sama tíma og hagvöxtur eykst og stjórnmálamenn keppast við að reyna að koma okkur í skilning um það hvað við höfum það gott er staðan sú að risastór hópur fólks getur hvorki leigt né keypt húsnæði. Leigan er of há (og hækkar með hverjum mánuðinum sem líður) og fólk nær ekki að safna fyrir fasteign meðan það er á leigumarkaði, matvara og fatnaður og aðrar nauðsynjar hafa hækkað um helming síðan kreppan skall á og ríkisstjórnin bætir bara í með því að setja á auka matarskatt. Barnabætur hafa lækkað á kjörtímabilinu og færri fá þær nú en áður, fjölskyldur hafa ekki efni á að taka fæðingarorlof og upplifa stöðugar fjárhagsáhyggjur á meðan þær ættu að vera að hugsa um og hlúa að nýjum fjölskyldumeðlimi og nýjum samfélagsþegn sem þarf á því að halda að upplifa öryggi og fá alla þá umhyggju og athygli sem mögulegt er til þess að búa hann undir lífið.
Í ofanálag er vinnuvikan á Íslandi mun lengri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við sem orsakar það að fjölskyldur eru undir miklu álagi og það að óþörfu, en löng vinnuvika gerir það að verkum að yfirvinnustundir eru fleiri, framleiðni minni, dagvinnulaunin lægri. Það er engin tilviljun að stór hluti þeirra sem hafa flutt úr landi velja að fara til nágrannalandanna, Noregs, Svíþjóðar og Danmörku þar sem kjörin eru betri. Kjörin eru ekki bara betri heldur eru þau réttlátari og allt samfélagið fær að njóta þess þegar vel gengur, ólíkt því sem gengur og gerist hér á landi. Íslenskar fjölskyldur eru að sligast undan álagi og það er kominn tími til að breyta því.
Það er til háborinnar skammar að ekki sé betur hlúð að barnafjölskyldum hér á landi á meðan svigrúm er til að lækka skatta á ríka og lækka veiðigjöld þegar methagnaður er hjá sjávarútvegi. Það eru íslenskar fjölskyldur sem baka þjóðarkökuna með miklum dugnaði og eljusemi og það eru íslenskar fjölskyldur sem eiga að borða hana, ekki örfáir útvaldir ríkisbubbar!
Höfundur er frambjóðandi Samfylkingarinnar í fjórða sæti Reykjavíkurkjördæmi suður.