Drekasvæðið og norðurslóðaþversögnin

Hrafnhildur Bragadóttir og Stefán Gíslason
Auglýsing

Í umræðu um málefni norðurslóða er stundum talað um „norðurslóðaþversögnina“ (á ensku „Arctic paradox“). Hún felst í stuttu máli í því að vilja vernda norðurheimskautið gegn áhrifum loftslagsbreytinga og öðrum umhverfisógnum, en vilja á sama tíma nýta bætt aðgengi að svæðinu, vegna bráðnunar íss, til að stórauka þar jarðefnavinnslu – sem stuðlar síðan að enn frekari loftslagsbreytingum.

Getur forysturíki í loftslagsmálum staðið fyrir jarðefnavinnslu á norðurslóðum?

Óhætt er að segja að norðurslóðaþversögnin lifi góðu lífi hér á landi. Á sama tíma og Ísland vill vera leiðandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og verndun norðurheimskautsins stefna íslensk stjórnvöld ótrauð að áhættusamri jarðefnavinnslu í nýjum lindum á Drekasvæðinu, sem liggur norðan heimskautsbaugs og tilheyrir einu af viðkvæmustu vistkerfum heims.

Þetta tvennt er svo fjarri því að vera samrýmanlegt að stuðningsmenn olíuvinnslunnar eiga jafnvel erfitt með að sannfæra sjálfa sig um að svo sé. Í opnunarræðu á Arctic Circle ráðstefnunni í Reykjavík í október 2014 gerði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, lítið úr því að vinnsla á Drekasvæðinu fæli í sér norðurslóðaþversögnina fyrrnefndu, og vísaði meðal annars til þess að stuðst yrði við strangar umhverfiskröfur og að gróðinn af olíuvinnslu yrði nýttur til skynsamlegra verka. Aðeins mánuði fyrr hafði hann þó sjálfur komist að þveröfugri niðurstöðu, þegar hann lýsti því yfir á leiðtogafundi um loftslagsmál í New York að Ísland ætti vegna legu sinnar á norðurslóðum að stefna að kolefnisfríu hagkerfi. Hann lagði þar áherslu á hættuna sem lífríki heimskautasvæðisins stafar af hlýnun jarðar og benti á að hafið á norðurslóðum væri sérstaklega viðkvæmt fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, m.a. vegna súrnunar sjávar. Við því vandamáli væri aðeins ein lausn: að hætta að losa koldíoxíð út í andrúmsloftið. 

Auglýsing

Fyrir liggur að til að raunhæft sé að ná markmiði Parísarsamningsins um að halda hækkun hitastigs innan við tvær gráður þurfa um tveir þriðju hlutar af öllu jarðefnaeldsneyti í þekktum lindum að liggja óhreyfðir. Í þeim útreikningum telst Drekasvæðið ekki með, þar sem það er ekki „þekkt lind“ í þessum skilningi. Með öðrum orðum: Ef Ísland vill láta taka sig alvarlega í alþjóðlegri samvinnu í loftslagsmálum þarf að hætta nú þegar að leita að nýjum olíu- og gaslindum. 

Ísland leggur allt undir meðan aðrir hætta við

Tveir sérleyfishafar stunda nú rannsóknir á Drekasvæðinu, annars vegar hópur sem leiddur er af kínverska ríkinu, nánar tiltekið ríkisolíufélaginu CNOOC International, og hins vegar hópur sem kanadíska olíufélagið Ithaca Petroleum er í forsvari fyrir. Norska ríkisolíufyrirtækið Petoro á fjórðungshlutdeild í hvoru sérleyfi en íslensk fyrirtæki, Eykon Energy ehf. og Kolvetni ehf., eru í minnihluta í hvoru leyfi um sig (15% og 18,75%). Rannsóknum fyrirtækjanna hefur að þeirra sögn miðað vel síðustu mánuði. Niðurstöður mælinga hjá öðrum hópnum hafa gefið tilefni til áframhaldandi rannsókna, en niðurstaðna er beðið frá hinum hópnum. Ef olía eða gas finnst í vinnanlegu magni er hugsanlegt að undirbúningur að vinnslu beggja hópa geti hafist innan áratugar.

En á sama tíma og fréttir berast af góðum gangi olíurannsókna í íslenskri lögsögu virðist áhugi á norðurslóðavinnslu fara hratt dvínandi í kringum okkur. Það endurspeglast m.a. í þeirri kaldhæðnislegu staðreynd að vegna lítillar eftirspurnar eftir þjónustu rannsóknarskipa hafa botnmælingar á Drekasvæðinu fengist á „algjörum útsöluprís“, eins og fram kom í frétt á vef Ríkisútvarpsins á liðnu vori. Áætlanir um olíuleit við Grænland voru lagðar til hliðar seint á síðasta ári og stórfyrirtækið Shell hætti í fyrra við áætlanir um olíuvinnslu við strendur Alaska, jafnvel þótt fyrirtækið hefði þá þegar eytt 7 milljörðum dollara í verkefnið. Nýleg ákvörðun Noregs um að heimila olíuleit á Barentshafi hefur sætt gríðarlegri andstöðu og það bíður nú þarlendra dómstóla að skera úr um hvort hún samræmist nýlegu umhverfisákvæði í stjórnarskrá Noregs. 

Ástæða þess að fjárfestar halda að sér höndum er einkum verðlækkun á olíu, hinn óhemjumikli kostnaður sem fylgir vinnslu á norðlægum slóðum og vísbendingar um mun betri ávöxtun fjárfestinga í endurnýjanlegri orku. Að auki leikur enginn vafi á því að jarðefnavinnsla norðan við heimskautsbaug felur í sér meiri áhættu en annars staðar, enda gera válynd veður, kaldur sjór, miklar fjarlægðir og vetrarmyrkur aðstæður einkar erfiðar ef til olíuslyss eða olíuleka kemur. Ef alvarlegur olíuleki verður á Drekasvæðinu er alls óvíst hvort hægt verður að endurheimta kostnað vegna viðbragðs- og björgunaraðgerða af leyfishöfum eða tryggingarfélögum, hvað þá kostnað vegna tjóns á náttúru og þess skaða sem olíuleki kann að hafa í för með sér fyrir fiskveiðar, ferðaþjónustu og aðra hluta hagkerfisins sem eru háðir náttúruauðlindum nærliggjandi svæða.  

Jafnvel þótt litið væri fram hjá skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum er því óhjákvæmilegt að spyrja hvort olíu- og gasvinnsla á Drekasvæðinu geti talist rökrétt ákvörðun í efnahagslegu tilliti. Er það virkilega svo að hugsanlegur hagnaður Íslendinga af vinnslunni sé þess virði að leggja megi undir hreina ímynd Íslands og orðspor landsins í loftslagsmálum og taka ófyrirsjáanlega áhættu með ferðaþjónustuna og fiskveiðarnar? Og hefur það ekki einhverja þýðingu í þessu samhengi að hagnaðurinn af vinnslunni kæmi að stóru leyti í hlut erlendra fyrirtækja og ríkja?

Teningunum hefur verið kastað

Flestir stjórnmálaflokkar studdu áætlanir um olíuvinnslu á Drekasvæðinu þegar sérleyfin voru gefin út árin 2013 og 2014 á grundvelli umhverfisskýrslu og þjóðhagslegs mats frá árinu 2007 og í samræmi við lög nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis (kolvetnislög). Þess má geta að í umræddri umhverfisskýrslu kemur fram að aflað hafi verið „reynslu af borunum eftir olíu á svipuðu eða meira hafdýpi (t.d. á Mexíkóflóa)“. Ætla má að sú reynsla hafi fengið nýja merkingu eftir Deepwater Horizon slysið í Mexíkóflóa árið 2010. Eftir sem áður voru sérleyfin veitt árin 2013 og 2014, m.a. á grundvelli umhverfisskýrslunnar.

Á undanförnum misserum hefur orðið viðsnúningur í afstöðu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna til nýtingar Drekasvæðisins, en þessir flokkar vilja nú hverfa frá áformum um vinnslu. Ástæðurnar fyrir þessari stefnubreytingu eru þær að flokkarnir telja það að betur athuguðu máli ósamrýmanlegt stefnu Íslands í loftslagsmálum að standa fyrir áhættusamri olíuvinnslu á norðurslóðum, auk þess sem Samfylkingin telur að það kunni að skaða hagsmuni Íslands í tengslum við ferðaþjónustu og sjávarútveg.

Ljóst er engu að síður að hin pólitíska ákvörðun um hvort Ísland eigi að vera olíuríki hefur verið tekin, að minnsta kosti í bili. Sérleyfin fela í sér sameiginleg rannsóknar- og vinnsluleyfi sem verða virk í áföngum. Ef jarðefni finnast í vinnanlegu magni og sérleyfishafar uppfylla skilyrði sem sett eru fyrir rannsóknum verða leyfin framlengd til vinnslu í allt að 30 ár. Þótt formlega taki Orkustofnun sjálfstæða ákvörðun um framlengingu leyfanna, sem skal m.a. byggð á umhverfis- og hagkvæmnismati þar sem líta þarf til athugasemda umsagnaraðila og almennings, er ólíklegt að það ferli leiði eitt og sér til þess að vinnslan verði ekki heimiluð. Enda hefur verið gengið út frá því, m.a. af hálfu orkumálastjóra, að leyfishafar eigi rétt á skaðabótum ef sú verður raunin, jafnvel þótt enn eigi lögum samkvæmt eftir að meta áhrif einstakra vinnsluframkvæmda á umhverfið og taka afstöðu til þess hvort vinnslan sé „hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði“ eins og kveðið er á um í kolvetnislögum.

Í umhverfismati vegna áætlunar stjórnvalda um olíuleit á Drekasvæðinu frá árinu 2007 var ekki fjallað um áhrif olíuvinnslunnar á loftslagsbreytingar. Engin merki eru heldur um að á síðari stigum málsins hafi farið fram mat á áhrifum vinnslunnar á loftslagsstefnu Íslands, eða á áhrifum hennar á fjárhagslega hagsmuni landsins af hreinni ímynd og ferðaþjónustu, sem hefur augljóslega allt aðra þýðingu fyrir Ísland nú en fyrir tíu árum. Ýmsum spurningum virðist því ósvarað um undirbúning þeirrar afdrifaríku ákvörðunar að veita sérleyfin fyrir fáeinum árum.

Skoða þarf málið upp á nýtt

Olíuvinnsla í heiminum mun ekki leggjast af á næstunni. Hins vegar ríkir vaxandi samstaða um að jarðefnavinnsla á norðurslóðum sé óverjandi í umhverfislegu tilliti, bæði vegna þess hversu viðkvæmt svæðið er og vegna þess að jarðefnin sem þar kunna að finnast rúmast engan veginn í loftslagsbókhaldi jarðarbúa. Nýlega kom fram í úttekt Ríkisútvarpsins að aðeins tveir stjórnmálaflokkar sem eru í framboði til Alþingis styðja með beinum hætti olíuvinnslu á Drekasvæðinu, þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Flestir aðrir flokkar vilja staldra við og skoða hvaða möguleikar eru fyrir hendi til að endurskoða stefnu stjórnvalda í málinu, jafnvel þótt það kunni að leiða til greiðslu skaðabóta til leyfishafa. 

Eins og hér hefur verið rakið mælir allt með því að málið verið skoðað upp á nýtt og skýrari afstaða tekin til þess hvernig greiða eigi úr norðurslóðaþversögninni. Ætlar Ísland að vera forysturíki í loftslagsmálum og verndun norðurslóða – eða olíuríki sem stundar áhættusama jarðefnavinnslu á norðurslóðum? Þessi tvö ólíku hlutverk fara ekki saman. Kosningarnar á laugardag fela í sér tækifæri til að hafa áhrif á þetta val.

Höfundar starfa hjá Environice – Umhverfisráðgjöf Íslands.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None