Sagan segir að þegar Winston Churchill var beðinn um að skera niður framlög til lista og menningar, í því skyni að fjármagna stríðsrekstur, hafi hann svarað með annarri spurningu: Fyrir hverju berjumst við þá?
Hvort sem Churchill sagði þetta eða ekki þá er spurningin góð. Hvað er það sem gerir okkur mennsk og skilur á milli mannanna og hinna dýranna? Líklega er það hæfileikinn til að hugsa óhlutbundið og tjá hugsanir sínar á áþreifanlegan hátt. Vilji til að móta samtímann og taka svarinu “Þetta hefur alltaf verið svona” aldrei þegjandi og hljóðalaust. Listin er nefnilega öflugasta tækið til að skora hefðirnar á hólm og gagnrýna valdið. Það er stundum óþægilegt fyrir valdhafana, sem undirstrikar enn frekar mikilvægi listarinnar, en svo á heldur ekki að vera þægilegt að sitja á valdastóli.
Listir eru forsenda nýsköpunar, þær eru fræðasvið tuga sérfræðinga við Listaháskóla Íslands, þær eru skapandi vísindi og fyrir tilstilli þeirra hefur Ísland algjöra sérstöðu í alþjóðasamfélaginu. Íslenskir listamenn hafa, ásamt eldgosi í Eyjafjallajökli og fótboltaliði, gert Ísland að einum vinsælasta áfangastað ferðamanna í heiminum. Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Í dag starfa tæplega 20 þúsund Íslendingar við skapandi greinar á Íslandi. Þær skapandi greinar sem eru kenndar í Listaháskóla Íslands á skarast við greinar á borð við tölvuleikjaiðnað og ljóst að þær gegna lykilhlutverki í nýsköpunarhagkerfi framtíðarinnar.
Listaháskóli Íslands hefur verið fjársveltur af fráfarandi stjórnvöldum og nú er svo komið að starfsemi hans fer fram í fjórum húsum á víð og dreif um Reykjavík, sem hvert er á sinn hátt býður upp á algjörlega óviðunandi aðstöðu fyrir kennslu. Húsnæðinu fylgir bæði fjárhagslegt óhagræði og tímasóun fyrir kennara og nemendur, auk þess sem það er hriplekt, heilsuspillandi vegna myglu og uppfyllir ekki kröfur um aðgengi fyrir fatlaða. Stjórnvöld hafa ekki svarað neyðarkalli stjórnenda Listaháskólans, sem vilja móta stefnu í samráði við stjórnvöld og leysa úr aðkallandi vanda skólans.
Listaháskólanum er falið mikilvægt hlutverk enda ber hann jafnframt ábyrgð á greiningu, skráningu, rannsóknum og varðveislu allrar listar- og menningararfleifðar Íslands. Sökum þess hversu undirfjármagnaður Listaháskólinn er, sérstaklega þegar tekið er tillit til rannsóknaframlags, eru líkur á að ómetanleg verðmæti séu að glatast.
Stjórnvöld eiga að ræða við Listaháskólann um þróun hans til framtíðar og markmið, ekki aðhaldsaðgerðir. Að sama skapi eiga stjórnvöld að ganga á undan með fordæmi og fjármagna aðra lista- og menningarstarfsemi almennilega, svo að sýningarsalir, opinber söfn og listahátíðir geti borgað listamönnum sómasamlega fyrir vinnu sína.
Samfylkingin hefur skýra stefnu um framtíð háskólanna. Samfylkingin ætlar að sjá til þess að fjármögnun vísinda- og háskólasamfélagsins tryggi að við náum OECD meðaltali á næsta kjörtímabili. Til framtíðar viljum við fjármagna háskólana til jafns við fjármögnun háskóla á Norðurlöndum, sem þýðir að við þurfum að tvöfalda núverandi framlag. Fjármögnun Listaháskóla Íslands er aðkallandi viðfangsefni sem þarf að leysa strax. Við teljum eðlilegt að stjórnvöld bregðist hratt við og móti stefnu fyrir Listaháskólann til framtíðar, í samstarfi við starfsfólk hans, nemendur og stjórnendur. Við skulum ekki gleyma mannlega þættinum og fyrir hverju við erum að berjast. Sumt er þar að auki ekki metið til fjár. Það að “þetta hafi alltaf verið svona” er ekki nógu gott svar.
Höfundur er í 3. sæti hjá Samfylkingunni í Reykjavíkurkjördæmi norður.