Loftslagsmál ættu með réttu að vera eitt af stærstu málunum fyrir kosningarnar á morgun. Því nú er að duga eða drepast. Ef við ætlum að afstýra stórfelldum hörmungum hér á jörðinni – og tryggja okkur og börnunum okkar mannsæmandi framtíð – þá þurfum við að hefjast handa núna. Ekki eftir tíu ár, ekki eftir 15 ár, heldur núna.
En því miður hafa loftslagsmálin ekki fengið það vægi í umræðunni sem skyldi – þótt vægið nú sé vissulega meira en þau fengu fyrir síðustu kosningar fyrir þremur árum. Vitund almennings hefur sem betur aukist og svo hafa frjáls félagasamtök og þrýstihópar lyft grettistaki. Þar ber hæst að nefna hópinn París 1,5 sem hefur haldið loftslagsmálunum í brennidepli og gert úttekt á loftslagsstefnu stjórnmálaflokka og kann ég þeim mikla þökk fyrir.
VG er treystandi
Loftslagsmálin eru ástæða þess að ég ákvað að gefa kost á mér í þessum kosningum. Því ég vil geta litið um öxl þegar ég er gömul kona og verið sátt við sjálfa mig þegar ég spyr mig: „Hvernig varði ég þessum árum sem skiptu sköpum? Gerði ég allt sem ég gat?“
Og ég valdi Vinstri hreyfinguna – grænt framboð því ég treysti henni best allra flokka á Íslandi til að takast á við loftslagsvandann.
En afhverju skyldi það vera? Jú, mér finnst flokkurinn hafa trúverðugleika í umhverfis- og loftslagsmálum. Þau hafa verið hluti af stefnu hans í mörg ár. Í tíð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í ríkisstjórn var áhersla flokksins á umhverfismál augljós. Sem dæmi má nefna að lög um náttúruvernd voru samþykkt, hvítbók um náttúruvernd kom út og önnur áætlun rammaáætlunar var samþykkt eftir áralanga vinnu. Árósarsamningurinn var fullgiltur, sem tryggði almenningi aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum og heildarlög voru sett um loftslagsmál. Ríkisstjórnin samþykkti aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og þingsályktun um eflingu græna hagkerfisins var samþykkt einróma. Gerð var heildstæð auðlindastefna sem lagði áherslu á sjálfbæra nýtingu, tollur felldur niður af reiðhjólum og ríkið var gert að ábyrgum neytanda með stefnu um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur. Ég gæti haldið upptalningunni áfram en læt þetta duga í bili.
Misskipting er rót vandans – jöfnuður er lausnin
VG leggur líka áherslu á jöfnuð. Ein af rótum loftslagsvandans er misskipting auðs og ágangur þeirra valdameiri á auðlindir jarðar á kostnað þeirra sem minna eiga. Afleiðingar loftslagsbreytinga koma verr niður á fátækum þjóðum og því er það að jafna lífskjör og kalla alla að borðinu forsenda þess að loftslagsvandinn verður leystur. Að stemma stigu við loftslagsbreytingum er í raun réttlætismál.
Það er mikil þekking á umhverfis- og loftslagsmálum innan VG og komist flokkurinn til áhrifa í ríkisstjórn verða þau málefni sett í öndvegi. Stefna flokksins er að Ísland eigi að verða kolefnishlutlaust eigi síðar en 2050. Til að svo megi verða þurfum við að hverfa frá öllum áformum um olíuvinnslu, skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum og iðnaði, binda kolefni með mótvægisaðgerðum og hætta við öll áform um mengandi stóriðju. Það þarf einnig að auka fræðslu til almennings og stuðla að breyttum neysluvenjum, með því að beita hagrænum hvötum og byggja upp innviði til að græn samgöngutæki verði hagkvæmasti kosturinn. Þar að auki viljum við að Ísland beiti sér fyrir loftslagsmálum á alþjóðavísu og auki framlög til þróunaraðstoðar sem fer í loftslagsmál.
Á morgun gefst tækifæri til að kjósa um hvernig framtíð við viljum. Viljum við samfélag sem tekst á við loftslagsbreytingar og axlar ábyrgð til framtíðar? Viljum við jafnaðarsamfélag sem verndar þá sem geta ekki verndað sig sjálfir?
Ef svarið við þessum spurningum er já, þá skalt þú setja X við V á morgun. Það ætla ég að gera.
Höfundur er rithöfundur og skipar 3. sæti á lista VG í Reykjavík suður.