Allt frá því að Bretar vöknuðu við þau tíðindi að morgni 24. júní síðastliðins að meirihluti kjósenda hefði valið að segja sig úr Evrópusambandinu hafa menn klórað sér í hausnum yfir því hverjar afleiðingarnar munu verða. Fljótlega kom í ljós að bresk stjórnvöld höfðu ekki á reiðum höndum neina stefnu um hvað skyldi gera ef niðurstaðan yrði sú sem hún varð. Margir töluðu fljótlega fyrir því að Bretar hlytu að semja um einhvers konar áframhaldandi þátttöku í innri markaðinum, annað hvort með sérlausn eða með því að ganga í EFTA og undirgangast EES samninginn. Aðrir vísuðu til þess að Bretar gætu samið um fríverslun við Evrópusambandið á grundvelli skilmála Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) eða jafnvel sjálfstætt við einstaka aðildarríki sambandsins. Sá galli er þó á gjöf að allar þessar hugmyndir hafa verulega vankanta og má jafnvel segja að hver og ein feli í sér pólitískan ómöguleika.
Hver eru álitaefnin?
Af málflutningi aðskilnaðarsinna í aðdraganda Brexit kosninga má ráða að meginatriðin hafi verið takmarkanir á frjálsri för fólks og andstaða við yfirþjóðlegt vald stofnana Evrópusambandins. Mönnum varð því fljótlega ljóst að þátttaka í innri markaðnum á grundvelli EES samningsins væri ekki inni í myndinni, enda byggir samningurinn á grunnreglum Evrópuréttarins um fjórfrelsið, þar með talið frjálsa för, auk þess að fela í sér hið svonefnda tveggja stoða kerfi sem felur í sér að EFTA ríkin hafa fært Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA dómstólnum yfirþjóðlegt vald - að einhverju leyti hið minnsta. Síðan verður ekki litið framhjá því að EES samningurinn byggir á því að EFTA ríkin skuldbinda sig til að taka upp í samninginn og innleiða í landsrétt allar gerðir Evrópusambandsins er varða innri markaðinn, án þess þó að koma að ferlinu þegar gerðirnar eru samþykktar á vettvangi sambandsins. Að sama skapi virðist sérlausn fyrir Breta ekki vera í kortunum þar sem einsýnt er að Evrópusambandið getur ekki gefið afslátt af grunnreglum sambandsins um frjálsa för fólks. Að því er varðar fríverslun á grundvelli skilmála WTO fylgir sá vandi að Bretar eiga ekki sjálfstæða aðild að stofnuninni enda hafa þeir framselt valdheimildir til að gera fríverslunarsamninga til Evrópusambandsins. Sjálfstæð aðild Breta að WTO er því ekki raunhæf fyrr en að samningur um úrsögn hefur verið staðfestur. Að sama skapi verður ekki samið sérstaklega við einstaka aðildarríki Evrópusambandins um fríverslun, slíkur samningur verður eingöngu gerður við sambandið í heild. Sú óvissa sem nú ríkir um framtíðaraðgang Bretlands að innri markaðnum hefur því haft í för með sér að fjöldi fyrirtækja hyggur á að færa höfuðstöðvar sínar frá Bretlandi, ekki síst fjármálastofnanir. Vandi Breta er því ærinn.
Hvað þýðir Brexit fyrir Ísland?
Ljóst er að þegar samið hefur verið um úrsögn Breta mun innri markaðurinn taka breytingum enda verður Bretland ekki lengur hluti hans. Viðskipti íslenskra aðila við Bretland hafa frá gildistöku EES samningins grundvallast á reglum innri markaðarins. Úrsögnin hefur því óhjákvæmilega áhrif á þau viðskipti. Íslensk stjórnvöld gætu þó mætt þeim vanda að einhverju leyti með gerð sérstaks fríverslunarsamnings við Bretland. Slíkur samningur verður þó ekki gerður fyrr en að úrsögn Breta úr Evrópusambandinu er frágengin enda fer sambandið lögformlega með umboð til gerðar fríverslunarsamninga fram að þeim tíma. Að auki verður að horfast í augu við þá staðreynd að Bretar munu sennilega verða í þeirri stöðu að þurfa að ljúka fríverslunarsamningum við fjölda ríkja eftir að úrsögn hefur verið staðfest og ekki er einhlítt að Ísland verði þar fremst í flokki.