Ég verð alltaf svolítið sorgmædd þegar ég les hversu margir hafa lítinn skilning á starfi grunnskólakennarans. Ég ákvað því að setja starfið mitt, sem unglingakennara 140 nemenda, í annað samhengi:
Ég er stjórnandi í fyrirtæki í þekkingargeiranum.
Ég er með 140 starfsmenn sem ég skipti í ca 20 manna minni hópa. Ég get ekki rekið neinn og ég fékk ekki að velja starfsmenn inn í hópinn minn. Vinnuaðstaðan okkar er frekar lítið herbergi. Stundum vinna starfsmennirnir einir en oftar í hópum.
Í fyrirtækinu þurfa starfsmennirnir að viða að sér nýrri þekkingu og nýta svo þekkinguna í verkefnavinnu.
Til þess að allir starfsmennirnir geti tileinkað sér nýja þekkingu þarf ég að hafa ýmislegt í huga:
- Lesblindu starfsmennirnir þurfa sér úrræði.
- Einhverfu starfsmennirnir þurfa sér úrræði.
- Tvítyngdu (eða jafnvel mállausu) starfsmennirnir þurfa sér úrræði.
- Taka þarf sérstakt tillit til starfsmanna með athyglisbrest og/eða ofvirkni.
- Hluti starfsmannanna getur ekki unnið nema að það sé alveg hljóð á vinnustaðnum, annars missa þeir einbeitinguna.
- Aðrir einbeita sér best ef þeir geta hlustað á tónlist við vinnu sína.
- Nokkrir starfsmenn tileinka sér nýja þekkingu best með því að vera á hreyfingu og geta talað um verkefnin sín í leiðinni.
- Sumir vilja gjarnan að nýja þekkingin sé útskýrð myndrænt.
- Nokkrir starfsmenn vilja vinna saman, í litlum hópum, til að viða að sér nýju þekkingunni.
- Aðrir vilja vinna einir.
- Finna lausn hvernig ég aðstoða alla í hópnum við að tileinka sér nýju vitneskjuna.
Ég þarf að búa til vinnuhópa innan hvers starfsmannahóps með allt ofangreint í huga jafnframt því að finna bestu samsetningu starfsmannanna , þ.e. hvaða einstaklingar geta unnið saman. Þá eru ennþá fleiri þættir sem þarf að huga að.
- Í síðasta vinnuhópi voru einstaklingar sem unnu lítið en töluðu mikið, ég get augljóslega ekki látið þá vinna saman.
- Sumir geta ekki unnið saman þar sem þeir fara alltaf að rífast, ekki setja þá saman.
- Taka tillit til að duglegustu starfsmennirnir vilja ekki alltaf vinna með þeim sem eru svolítið lengur að tileinka sér nýju þekkinguna.
- Taka tillit til að þeir sem eru aðeins lengur að tileinka sér nýju þekkinguna, vilja ekki alltaf vinna saman.
- Taka tillit til þess að aðstandandi eins hafði samband og bað vinsamlegast að hafa viðkomandi ekki í vinnuhóp með ákveðnum starfsmanni.
- Taka tillit til feimna og hlédræga starfsmannsins, velja góðan hóp fyrir hann, svo má ekki gleyma starfsmönnunum sem glíma við kvíðaröskun, þeir þurfa líka að vinna í sterkum hópi.
- Taka tillit til að bestu vinir báðu um að vera saman í vinnuhóp.
Þegar vinnan fer af stað er hlutverk mitt einnig margþætt:
- Hafa hemil á kraftmikla starfsmanninum sem á erfitt með að sitja kyrr og er út um allt.
- Passa að duglegu starfsmennirnir hafi nóg fyrir stafni svo þeim leiðist ekki.
- Ýta við þeim starfsmönnum sem eiga það til að detta í dagdrauma í miðri vinnu.
- Hvetja þá starfsmenn sem sjá engan tilgang í að vinna þessa vinnu og hafa því engan áhuga.
- Hjálpa þeim starfsmönnum sem eiga almennt erfitt með að tileinka og nýta sér nýju þekkinguna.
- Passa að allir í vinnuhópnum séu virkir þannig að það sé ekki aðeins lítill hluti hópsins sem sér um alla vinnuna.
- Taka á uppákomum sem koma iðuleg upp á meðan á vinnu stendur, t.d. ósætti yfir mynd sem var deilt á facebook, rifrilda sem skapast vegna dónalegra athugasemda eða þegar starfsmenn henda hlutum í hvern annan.
- Aðstoða við að leysa vandamálið í hópvinnu sem skapast þegar einn úr hópnum er veikur eða farinn í frí með fjölskyldunni.
Þegar starfsmennirnir fara heim sit ég eftir og met vinnuframlag og úrvinnslu starfsmannanna. Fer á fundi, sinni skráningum í tölvu, hef samband við aðstandendur starfsmanna sem eiga í erfiðleikum í vinnu sinni, sinni endurmenntun, tek þátt í stefnumótun fyrirtækisins, set mig inn í nýja hugmyndafræði sem á að fara að vinna eftir. Loks get ég byrjað að vinna að því hvernig ég legg fyrir næsta verkefni og hvernig ég get komið til móts við fjölbreytileika starfsmannanna. Þá þarf ég að sjálfsögðu að hafa allt ofangreint í huga en einnig að taka til athugunar:
- Hvort verkefnið (eins og öll önnur verkefni starfsmannanna) taki á þeim viðmiðum sem yfirmenn mínir setja. (aðalnámskrá menntamálaráðuneytisins) Þau viðmið eru í mörgum liðum og þáttum, það má engu gleyma. Máta þarf því verkefnið inn í þann pakka.
- Hvernig aðstoða ég starfsmennina í að tileinka sér nýju þekkinguna.
- Hvernig skipti ég í hópa.
- Kennarastarfið er ekki einfalt. Þetta er ekki bara lesbók og vinnubók.