Undanfarin ár hefur ráðuneyti menntamála staðið fyrir linnulitlum árásum á skólana á Bifröst. Aðallega er þetta í formi þess að setið er á fjárfúlgum sem háskólinn á rétt á samkvæmt samningum. Í annan stað hefur ráðuneytið ekki staðið við þau framlög sem ríkinu ber til Gáttar, sem er í raun framhaldsskóli sem skila nemendum upp á háskólastig. Að auki rekur hið opinbera umfangsmikinn framhaldsskóla í herstöð sem er í reynd rekinn af Háskóla íslands, en þaðan er tekið við nemendum orðalaust í Háskóla Íslands, en með semingi og fíflagangi úr Gáttinni á Bifröst. Skýlaust brot á reglum um samkeppni. Íbúðalánasjóður sýnir heldur enga miskunn og virðist illfáanlegur til að semja um greiðslur af lánum, sem hljóta að hluta til að byggjast á mistökum forystumanna sjóðsins og stjórnmálamanna.
Háskólinn á Bifröst er ekki venjulegur háskóli nema að því leyti að þaðan koma viðskiptafræðingar og lögfræðingar sem hefur gengið vel á vinnumarkaði, standast öðrum fyllilega snúning. En þar er rekin skóli sem tekið hefur tölvu- og upplýsingatækni mjög í þjónustu nemenda og verið í fararbroddi á því sviði í hartnær tuttugu ár. Þetta merkir að skólinn hefur getað veitt fólki menntun sem á illa heiman gengt, með fjarkennslu og vinnuhelgum. En auk þess hefur leikskólinn að Hraunborg auðveldað einstæðum foreldrum að ljúka háskólaprófi. Í mörgum tilvikum hefur Bifröst gefið nemendum tækifæri á að hefja nýtt líf, sem torvelt hefði verið fyrir aðra skóla í landinu. Í þessu felst sérstaða skólans,
Lítill skóli á landsbyggðinni getur verið dýrari á hvern nemanda en skólar í þéttbýli, sem kvarta samt og kveina yfir niðurskurði og naumhyggju skillítilla valdamanna. En skólinn á Bifröst hefur sannað mannúðarhlutverk sitt með því að koma fólki til mennta sem annars hefði aldrei átt þess kost,
Landsbyggðarmenn hafa stutt skólann vel en hvers mega þeir sín í einkafárinu.
Höfundur er hagfræðingur og lífeyrisþegi.