Við sem tegund höfum farið með auðlindir þessarar fallegu plánetu okkar eins og kreditkort sem við notum óspart og hugsum lítið sem ekkert um afleiðingarnar. Við gerum nákvæmlega það sem okkur sýnist. Við erum 200 þúsund ára gömul tegund á plánetu sem er 4600 milljón ára og hefur séð mun merkilegri hluti en okkur og mun eflaust sjá fleiri í framtíðinni. Jörðin mun nefnilega lifa áfram óháð okkur en ekki öfugt. Vistkerfi mannsins er jörðin, einungis þessi jörð og það er ekkert plan B.
Núna er lítill gluggi til að fara í alvöru aðgerðir og þá meina ég ALVÖRU. Náttúran hlustar ekki á málamiðlanir, hún einfaldlega gefur eða tekur. Við höfum kerfisbundið tekið og tekið og tekið en lítið gefið, ekkert hlúð að okkar eina heimili sem við erum nú í bráðri hættu á að missa.
Við þurfum að breyta öllu í okkar lifnaðarháttum ef við ætlum að eiga séns á að berjast gegn erfiðasta vandamáli mannkynssögunnar. Við þurfum að hætta að sóa hlutum og henda þeim frá okkur, við þurfum að breyta því hvernig við ferðumst, hvað við borðum, hvernig við nýtum auðlindir okkar, hvernig við endurvinnum og okkur þarf að fækka. Allt þetta verður að gerast til þess að okkar ungu og komandi kynslóðir geti lifað hér á jörðinni.
Ef við förum ekki brátt að átta okkur á vandamálunum sem sköpuðust á 20. öldinni munum við ekki vera til staðar á 22. öldinni. Ofveiði á fisk, niðurrif regnskóga, framræsla votlendis, plast í hafinu, framleiðsla á nautgripum, notkun olíu og kola og fleira og fleira og fleira. Við erum kerfisbundið að eyðileggja framtíðar búsetu mannsins hér á jörðinni. Við áttum okkur ekki á því að við þurfum náttúruna en hún þarf ekki okkur. Leyfum ekki pólitík græðginnar, skammsýni og stundarhagsmuni verða okkur að falli og sýnum næstu kynslóðum þá virðingu að taka ekki jörðina sem sjálfsögðum hlut.