Góður skólastjóri veit að þær skipanir sem koma beint að ofan ná yfirleitt ekki að festa rætur, hvað þá dafna vel, ef kennarahópurinn hefur ekki í grundvallaratriðum verið með í að móta þær faglegu hugmyndir, úrbætur, breytingar, þróunarstarf eða annað sem þær byggja á og snúast um. Skóli er nefnilega ekki eins og gata, svo dæmi sé nefnt. Vegamálastjóri getur haft hugmyndir um breikkun eða þrengingu götu, úrbætur hvað varðar hraðastjórnun, hann getur séð að það þarf að fylla upp í þær holur sem eru á veginum, eða leggja nýtt malbik. Svo getur hann gefið út fyrirskipanir um að þetta sé framkvæmt. Og verkfræðingar á hans vegum ákveða hvað skuli gera í þessu, hvað þarf til, og svo byrjar vinnuflokkurinn á verkinu. Þeir sem vinna verkið eru ekkert að spá í það hvort óþarft hefði verið að fylla upp í holu D og einbeita sér frekar að því hvernig aðgengi ofan af gangstéttinni er fyrir barnavagnafólk, þó þar sé greinilega þörf á úrbótum. Það er annarra að spá í þannig lagað. Vegamálastjóri hefur hugsanlega tekið einhverjar kolrangar ákvarðanir þegar holur A, B og C eru annars vegar, fyrir nú utan holu D sem er pínulítil og leiðir eiginlega beint að ræsisristinni og er því ekki brýnt að laga (og er jafnvel beinlínis til bóta í rigningum). En það hefur það. Vinnuflokkurinn er þarna til að framkvæma það sem búið er að ákveða. Svo tekur næsta verkefni við.
Kennarar eru ekki vinnuflokkur. Við erum ekki verkamenn. Við erum fagmenn sem vinnum að því að mennta og uppfræða skjólstæðinga okkar og sinna sérstökum þörfum þeirra námslega og félagslega. Við þurfum að taka ótal ákvarðanir dag hvern um það hvernig þeim markmiðum sem sett hafa verið í menntamálum verður best náð með þann efnivið sem við höfum í höndunum, þ.e. nemendur, aðstæður og úrræði. Stundum er það þannig að það þarf að sveigja út af þeirri braut sem ákveðin hefur verið í upphafi, stundum þarf jafnvel að hafa algjör endaskipti á markmiðunum, smætta þau niður í einingar sem hafa, við fyrstu sýn, ekkert með það að gera að mennta og uppfræða. Við tökum þessar ákvarðanir á grunni sérþekkingar okkar og reynslu og með tilliti til þarfa nemandans eða nemendahópsins hverju sinni, aðstæðna og þeirra úrræða sem eru tiltæk.
Það eru vondir stjórnunarhættir, og óábyrgt með öllu af skóla- og menntayfirvöldum, að fyrirskipa og skella á breytingum og svokölluðum úrbótum í skólamálum án nokkurs samráðs við sérfræðingana sem starfa í skólunum. Að skella á vanhugsuðum úrbótum í námsmati, að skella á vanhugsuðum úrbótum í læsismálum, að skella á vanhugsuðum úrbótum í upplýsingatækni, ... þær eru margar þessar vanhugsuðu. Og þær eru vanhugsaðar vegna þess að ekkert samráð hefur verið haft við okkur kennara. Og líka vegna fjármagnsleysis; það eru sjaldnast ætlaðir peningar að neinu marki til að standa undir því sem þarf að gera. Ef samráð hefði verið haft við okkur hefðum við getað bent á vankantana við hinar svokölluðu úrbætur –og hægt hefði verið, að minnsta kosti, að gera úrbætur á þessum svokölluðu úrbótum. Að eiga samtal við okkur sem höfum þekkingu og reynslu í menntamálum og byggjum störf okkar á faglegum grunni hefði verið heillaspor. Enn heilladrýgra er að bjóða okkur til slíks samráðs með það að markmiði að skoða hvernig við sjáum fyrir okkur enn betra skólastarf, hvað þarf að laga, hvar eiga breyttar áherslur að liggja, hvað þarf til að koma á þeim úrbótum sem eru nauðsynlegar og þróa menntamál á Íslandi á þann hátt að til heilla sé fyrir land og þjóð –til framtíðar.
Til þess að halda úti lifandi og metnaðarfullu skólastarfi þarf líka að gefa sérfræðingunum svigrúm til að vinna að þróun þess, en ekki reyna endalaust að troða fætinum í skóinn með valdi ef hann passar ekki. Í ævintýrinu um Öskubusku var þó að minnsta kosti reynt að höggva af einhverja hæla til að fá skókvikindið til að passa. Við kennarar höfum ekki orðið varir við neina tilburði í þá átt að fækka verkefnum okkar eða færa til áherslur með fjármagni sem til þess þarf, til þess að koma megi á þeim svokölluðu úrbótum sem skellt er framan í okkur hverju sinni, eða til þess að við sjálfir getum komið að þeirri hugmyndavinnu sem nauðsynleg er þegar metnaðarfullt skólastarf og –stefna er annars vegar.
Um daginn, meira að segja í viðtali strax að loknum samstöðufundi kennara þar sem heill borgarstjórnarfundur sá með eigin augum þéttan hóp kennara mótmæla kjörum sínum með þögninni einni (við kunnum okkur og við trufluðum ekki borgarstjórnarfund í Hagaskóla), varpaði borgarstjóri því fram að borgin sé þess albúin að leggja fjármuni í úrbætur í menntamálum en að þessi kjaradeila kennara sé auðvitað að þvælast fyrir. Ég man ekki hvernig orðalagið var, en þetta var boðskapurinn. Ég vil ætla honum Degi það að hafa ekki ætlað sér að segja það sem hann sagði á þennan hátt. Mig langar að ætla honum það að hann hafi ætlað að segja að borgin sé þess albúin að styðja við bakið á kennurum í kjarabaráttu þeirra því að án þeirra sé ekkert skólastarf og ekki hægt að halda úti menntastefnu af neinu tagi. Með vel menntuðum, vel metnum og ánægðum kennurum sé hins vegar hægt að halda úti metnaðarfullu skólastarfi og meira að segja koma á faglegum úrbótum í málum þar sem úrbóta er þörf. Ég held að þetta hljóti að vera það sem Dagur vildi sagt hafa. Kannski var honum bara eitthvað brugðið við að sjá svona marga þögla kennara? Náði þess vegna ekki að koma þessu almennilega frá sér ...
Menntamálaráðherra, borgarstjóri og aðrir forsvarsmenn sveitarfélaga í gegnum samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa stundað vonda stjórnunarhætti í menntamálum undanfarin misseri að mínu mati; fyrirskipanir að ofan (um svokallaðar úrbætur) byggðar á ... ja, hverju? Reyndar er mér með öllu óskiljanlegt hvernig Samninganefnd sveitarfélaganna getur sett fram einhverjar svokallaðar faglegar kröfur eða samið um launakjör á grunni faglegra úrbóta í menntamálum. Hvaða fólk er þetta? Hefur það einhverja sérþekkingu á menntamálum? Ég hef kannski rangt fyrir mér, en ... nei, þetta er ekki hópur sérfræðinga í menntamálum. Þetta á ekkert einu sinni að vera hópur sérfræðinga í menntamálum. Þetta er bara hópur sem semur fyrir hönd sveitarfélaganna um launakjör kennara. Viðsemjendur þeirra, fulltrúar okkar frá FG, eru hins vegar sérfræðingar í menntamálum og ættu að vera það. Þeir eru líka þarna til að semja um launakjör, en það eru þeir sem eru sérfræðingarnir og ættu að geta leitt kjaraviðræðurnar á þeim grunni; kjör kennara er eitt og úrbætur í menntamálum er annað –þó þær byggist vissulega á störfum kennara þegar upp er staðið!
Nú þarf að semjast um verulegar kjarabætur til handa kennurum. Við viljum hærri laun fyrir fulla kennslu og það sem henni fylgir. Við vinnum vinnuna, við vitum hvað það er sem fylgir fullri kennslu. Við erum ekki til viðtals um að selja nokkurn hlut. Við erum ekki til viðtals um að bæta á okkur vinnu. Þegar samist hefur um ásættanlega launahækkun þá fullyrði ég að við kennarar verðum allir af vilja gerðir –og okkar faglegi metnaður krefst þess raunar- að koma að vinnu við úrbætur og þróun í skólastarfinu og menntakerfinu öllu, þar sem þess er þörf. Þá verði líka búið svo um hnútana að okkur sé ætlað það svigrúm og fjármagn sem þarf til þess að sinna slíkri vinnu af metnaði og alúð. Við tökum ekki lengur við vanhugsuðum fyrirskipunum frá mennta- og skólayfirvöldum og reynum að finna tíma til að bæta þeirri vinnu sem slíkt krefst inn í störf okkar, jafnvel í trássi við okkar eigið faglega mat á þessum úrbótum.
Það segir sig sjálft að skólastarf í landinu er í uppnámi. Auðvitað mætum við í vinnuna, við kennarar, og við undirbúum kennsluna og við sitjum fundi og sinnum öllu því sem við eigum að sinna. En á meðan þessi óvissa ríkir í kjaramálum; á meðan fjöldi kennara gengur með uppsagnarbréfið annað hvort í rassvasanum eða í maganum, á meðan kennarar þurfa að beina orku sinni að því að vera metnir að verðleikum og koma sjónarmiðum sínum á framfæri og þurfa að hamra, hamra, hamra á því að þeir verðskuldi og krefjist hærri launa, þá er auðséð að skólastarfið líður fyrir það. Krafturinn er annars staðar. Óánægjan og óvissan hafa sannarlega ekki þau áhrif að enn meira sé lagt í skólastarfið um þessar mundir en ella. Fagmennska okkar leyfir ekki annað en fagleg vinnubrögð og þar erum við stödd, en við erum ekkert öll af vilja gerð að teygja okkur og sveigja, eins og við gerum alla jafna, og leggja jafnvel meira í þegar störf með nemendum eru annars vegar þegar ekki er í sjónmáli nein lausn í okkar málum.
Svona í lokin ætti ég kannski að benda á hið augljósa: ég er ekki sérfræðingur í neinu sem viðkemur verklagi, viðhaldi eða viðgerðum á gatnakerfinu og veit ekkert um verkefni vegamálastjóra, eða hvort slíkt starfsheiti er til. Tók þetta einungis sem dæmi. Ég ber hins vegar virðingu fyrir svona vinnuflokkum sem vinna hörðum höndum að því að búa til og gera við göturnar okkar, stundum við ömurleg skilyrði. Svona vinnuflokkar vinna oft og tíðum mikið, vinnudagarnir eru oft langir, og þetta er gjarnan einhvers konar tarnavinna, eins og oft er hjá okkur kennurum líka. Vinnumennirnir fá líka oft mikið útborgað og eru vel að laununum sínum komnir. Stundum fá þeir meira útborgað en háskólamenntaðir kennarar.
Höfundur er kennari við Melaskóla.