„Forlátið ég set á tölur, forlátið vér erum sagnaþjóð og getum aungu gleymt“.
Á þessa leið hugsaði Nóbelsskáldið okkar sér að söguhetjan hans talaði við erlenda menn. En því valdi ég mér þessa tilvitnun að mér hættir til að hefja mál mitt á því að rekja nokkra sögu. Líklega er þetta gamaldags og eiginlega efast ég um að lýsingin að ofan eigi alveg við nútíma Íslendinga: tíminn líður hratt og atburðir gærdagsins eru gleymdir í dag, hvað þá að nokkur muni skýrslur, stefnur, yfirlýsingar sem orðið hafa til inni á skrifstofum ráðuneytanna og það um mál sem ekki getur talist það mest spennandi í dag. Gamla fólkið, ellina og elliþjónustuna.
Þessi formáli er auðvitað inngangur að sögu. Hún er á þessa leið: Árið 2008, skömmu fyrir hrun, var félagsmálaráðherra sem hét og heitir Jóhanna Sigurðardóttir. Hún var ekki beint í tísku þetta árið, hafði orð á sér fyrir að ganga ekki rétt vel í takt við hina ráðherrana, vilja eyða blint af almannafé og skilja almennt ekki dásemd markaðarins sem þá réði öllu í hugsun og hegðun manna. – Svo kom hrunið....
En áður en hrunið kom hafði ýmislegt verið spáð og spekúlerað í ráðuneyti Jóhönnu, ekki síst á því sviði sem sneri að öldrunarmálum. Í fyrsta sinn var komist aðeins út fyrir „heilbrigðis- þjónustu- peninga- hjúkrunarheimilarammann“ sem öll umræða hér á landi um málefni eldra fólks virðist föst í. Í stefnu ráðuneytisins frá 2008 er margt um nýmæli og ég ætla að „setja á tölur“ og fara yfir þau helstu:
- Þjónusta við aldraða á að vera nærþjónusta, ólíkir þjónustuþættir eiga að vera á einni hendi og að því er eðlilegast að sveitarfélög landsins annist hana. Í samræmi við þetta var á einnig öll heimaþjónusta að vera á einni hendi.
- Aldraðir hafa rétt á að búa á eigin heimili. Til þess að svo megi verða þarf að tryggja fjölbreytt búsetuúrræði með víðtækri heimaþjónustu sem taki mið af mismunandi þörfum. Ekki var skilgreint frekar hvað átt væri við með „búsetuúrræði“ en leiða má að því líkur af textanum að hér hafi m.a. verið horft til þjónustuíbúða sem mögulegs millistigs fremur en gömlu dvalarheimilin, sem fóru „úr tísku“ og ekkert kom í þeirra stað. Ekki er sagt skýrt að hjúkrunarheimili eigi að vera hluti af þessum úrræðum, þ.e. flokkast sem búsetuúrræði (en þau hafa alltaf verið skilgreind sem sjúkrastofnanir).
- Uppbygging nýrra hjúkrunarrýma á að taka mið af þörfum notendanna, svo að þau líkist venjulegu heimili fremur en stofnun. Jóhanna ætlaði að láta byggja 400 ný rými (tala sem hefur síðan oft heyrst þegar rætt er um hjúkrunarrými) og þessi rými áttu að vera með litlum, heimilislegum einingum með áherslu á einkarými íbúa. Einnig átti að gera breytingar á gömlu rýmunum þannig að allir fengju einbýli – og það átti að klára þetta verkefni á 4-6 árum (svo kom hrunið). Flutningur hjúkrunarheimilanna til sveitarfélaganna, áherslan á heimilisþáttinn og að þjónustan ætti að vera á einni hendi bendir einnig til að þau hafi átt að flokka með öðrum búsetuúrræðum.
- Greiðslur aldraðra fyrir hvers kyns þjónustu skulu breytast þannig að þeir greiði sjálfir almennan rekstrarkostnað við heimilishald, en hið opinbera greiði heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. hjúkrun og aðhlynningu. Jóhanna talaði sjálf um í þessu sambandi að afnema „hið auðmýkjandi vasapeningafyrirkomulag“ - sem raunar er enn í gildi. Þetta atriði snýst um efnahagslegt sjálfstæði og er liður í að efla sjálfræði aldraðra sem búa á heimilum með sólarhringsmönnun aðstoðarfólks, frekar en neins konar inngrip í efnahagsafkomu aldraðra.
- Starfsfólk. Í skjalinu er fjallað um nauðsyn þess að laða hæft starfsfólk að öldrunarþjónustu og halda þeim þar svo ekki séu stöðug umskipti (starfsmannavelta). Í því samhengi er talað um að fjölga hlutfallslega fagmenntuðu fólki og að auka námsframboð til hinna sem enga fagmenntun hafa.
- Til framtíðar á að veita þjónustu á grundvelli þarfar en ekki aldurs. Jóhanna og hennar fólk lýsti því yfir að ekki ætti að lappa frekar upp á löngu úrelt lög um málefni aldraðra, heldur að veita öllum þjónustu sem hennar þörfnuðust, alveg burtséð frá því á hvaða aldri þeir væru. Setja skyldi löggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga og löggjöf um heilbrigðisþjónustu – og leggja síðan lög um málefni aldraðra niður.
Húrra! gæti ég hrópað, en - svo kom hrunið. Jóhanna – og öll þjóðin – fékk um hríð annað að sýsla en að spá í lúxusfyrirbæri eins og sjálfræðismál aldraðra, styrkingu heimaþjónustu, flutning öldrunarmála til sveitarfélaga, hvort hjúkrunarheimili ættu að vera búsetuúrræði eða sjúkrastofnanir.
En hví að dvelja svo lengi við plagg sem var verið að dunda við í „gæluverkefni“ meðan peningar íslensku þjóðarinnar urðu að engu í hrunadansi trylltra markaðsafla? Jú, það er nefnilega þannig að sú sem hér slær á lykla hefði allt eins getað skrifað þetta plagg sjálf, svo gersamlega fellur það að öllum hugmyndum mínum um hvað er mikilvægt að gera á sviði stjórnsýslu til úrbóta í öldrunarþjónustu. Skoðanir mínar eru auðvitað enginn Salómonsdómur, heldur álit almenns borgara, en þó borgara sem hefur starfað í öldrunarþjónustu um nokkuð langt skeið, sérmenntað sig á sviði öldrunarþjónustu og fjallað um þau mál í ræðu og riti í tómstundum, auk þess sem ég nálgast nú hröðum skrefum aldurinn örlagaþrungna – 67 ár – og bendir allt til að ég muni þá falla undir lagabálkinn sem Jóhanna ætlaði að fella úr gildi sem fyrst: Lög um málefni aldraðra.
Vegna þessa alls ætla ég að leyfa mér að nota stefnuna frá 2008 sem nokkurs konar „gullið viðmið“ og skoða hvað orðið hefur um þessi stefnumál, eitt af öðru. Sérstaklega styðst ég við tvö spánný skjöl af heimasíðu ráðuneytisins, annað er stefnuplagg, að vísu enn í formi tillögu starfshóps: Mótun stefnu í þjónustu við aldraða til næstu ára. Hitt er nýjasta útgáfa s.k. kröfulýsingar ráðuneytisins, en kröfulýsing er heiti á samningsgrunni um lágmarksþjónustu hjúkrunarheimila. Ég hef áður fjallað opinberlega um fyrri útgáfu þess plaggs í grein sem birtist á www.visir.is og ber nafnið Íslensk öldrunarþjónusta – enn stödd á tuttugustu öld? Þar gagnrýndi ég nokkuð harðlega skort á framsýni varðandi sjálfræðismál í plagginu og því er það mér gleðiefni að geta sagt frá því núna strax að nýjasta útgáfan hefur tekið miklum framförum hvað ýmis slík atriði varðar. Sérstaklega gladdi það hjarta mitt að sjá að í skjalinu er hispurslaust fjallað um „fjötra“ – það að hindra hreyfingu fólks með þartilgerðum búnaði, sem líklega er nokkuð algengt í öldrunarþjónustu. Þetta óæskilega úrræði er oftast notað í þeim fróma tilgangi að hindra skaða, virkar ekki sérlega vel til þess og hefur margar óæskilegar aukaverkanir í för með sér. Sá sérstaki íslenski tepruskapur hefur komist á að kalla fjötra „öryggisbúnað“. Þessi orðanotkun er til þess fallin að draga úr neikvæðum hugrenningatengslum, nokkurs konar: „nei, nei, við erum sko ekkert að binda gamla fólkið, við erum bara að passa að það detti ekki og brjóti sig“ réttlæting. Í öllum hliðstæðum textum á þeim erlendu tungum sem lyklasláttukona ræður við að lesa heita fjötrar fjötrar, eins og sjálfsagt og eðlilegt er.
En hverfum nú að stefnumiðunum fimm frá 2008.
1. Flutningur öldrunarþjónustu til sveitarfélaga.
Já, þetta þjóðþrifamál virðist ætla að verða álíka sorgarsaga eins og ný stjórnarskrá. Í tíð ríkisstjórnar þeirrar sem Jóhanna Sigurðardóttir veitti sjálf forstöðu verður þetta mál eitt helsta viðfangsefni sameinaðs heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis – velferðarráðuneytis, þ.e. þegar á annað borð gafst næði frá rústabjörgun hrunsins til að taka upp fyrra hjal. Fjölmargir starfshópar unnu að hinum ýmsu þáttum þessa undirbúnings og á sama tíma var lokið flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaga, en sú breyting tók gildi í ársbyrjun 2011. Þegar rýnt er í heimasíðu ráðuneytisins sést að upphaflega átti flutningurinn að eiga sér stað 1. janúar 2013 – svo var því frestað til sömu dagsetningar 2014, en í millitíðinni urðu stjórnarskipti. Ég ætla ekki að spá um hvort það var hinn afgerandi þáttur, örugglega hafa sárar kvartanir Sambands íslenskra sveitarfélaga yfir því að þurfa að taka við hinum fyrri málaflokknum skipt miklu máli, en hitt er víst að loftið puðraðist úr fyrirætluninni líkt og afmælisblöðru, hægt og með aumlegu ískri – og nú er hún álíka steindauð og íslenska kindin þar sem hún hangir á rennibraut sláturhússins Hraðar hendur. Í skjalinu nýjasta frá í september 2016, (Mótun stefnu til næstu ára) er skautað laglega yfir þetta mál, þ.e. hvergi sagt skýrt hver eigi að sjá um hvað en þeim mun meira talað um „samráð“ og að fækka „gráum svæðum“, en svæðin þau skapast einmitt þegar tveir aðilar sjá um sömu þjónustu. Þá verða líka til tækifæri til að deila og drottna og vísa hver á annan, líkt og hrepparnir gerðu í den þegar þeir voru að koma af sér niðursetningum. Þannig getur t.d. blankt sveitarfélag sparað og skorið niður í heimaþjónustu hvers kyns og bara sent liðið á dvalarheimili næsta þéttbýlis ellegar hjúkrunardeild sjúkrahússins, hvort tveggja kostað af ráðuneytinu. En við næstu fjárlög getur ríkið látið koma krók á móti bragði og skorið verulega niður framlög til þessara stofnana. Allir græða, nema vesalings notandinn, en hann er nú hvort eð er gamall og hrumur og ekki vanur að vera með uppsteyt!
Þess verður þó að geta að nú alveg nýlega er reynt að koma jafnvægi á með því að nota RAI-mælitækið til að meta hverjir geti búið heima með heimaþjónustu og hverjir ekki – og þurfi því á einhvers konar dvalar- eða hjúkrunarrými að halda. Einnig er þróunin í þá átt að sameina – eða allavega samhæfa – heimahjúkrun og heimaþjónustu, enda fyrir löngu orðið algert hneyksli að tveir alótengdir aðilar komi inn á heimili aldraðs notanda og vinstri höndin viti ekkert hvað sú hægri er að gera. Svo hefur þó viðgengist allt of lengi með augljósum slæmum afleiðingum fyrir þarfir hins aldraða.
2. Aldraðir eiga rétt á að búa á eigin heimili.
Eins og fyrr er nefnt var ekki mjög skýrt í stefnunni frá 2008 hvað verið var að hugsa um nákvæmlega, enda er það kannski eðli „fjölbreyttra úrræða“ sem taka mið af þörfum notenda að þau ber ekki að negla niður nákvæmlega inni í einhverju ráðuneyti. En í praksís hefur stefnan verið að allir búi heima svo lengi sem þess sé nokkur kostur, enda höfum við sem yngri erum og störfum á hinum ýmsu stigum þjónustunnar ákveðið af vísdómi okkar og með könnunum þar um að það sé það sem allir vilja helst. (Raunar byggjast kannanirnar að mestu á svörum hraustra aldraðra, svo ekki er von að þar komi fram djúpstæð ósk um að flytja á neins konar stofnun). Í samræmi við þessa stefnu hafa skilyrði til flutnings á hjúkrunarheimili verið hert verulega. Millistig frá búsetu heima voru dvalarheimilin gömlu, en þau eru smátt og smátt að hverfa, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Í stað þeirra eru einna helst þjónustu- og öryggisíbúðir, en þar er þó mikið um „grá svæði“, ekki síst þar sem mörg þessara úrræða eru einkarekin og ekki alltaf skýrt hvað fólk fær í reynd í þessum íbúðum. Sérstakar íbúðir fyrir eldri borgara eru enn eitt grá-svæðið: þær einkennast í reynd bara af því að þar eru ekki tröppur né þröskuldar og út á það má selja þær á slíku okurverði að iðulega er lítið eftir af einbýlishúsinu sem gamla fólkið í dag kom sér upp á eftirstríðsárunum með ómældu striti. Þessi stefna öll er fremur stíf og vantar enn mikið á að hún sé fjölbreytt, að hún bjóði upp á valfrelsi eða taki mið af þörfum notenda.
Og áfram fjölgar gamla fólkinu, það svíkst miskunnarlaust um að deyja 75 ára eins og áður tíðkaðist og bráðum komum við „baby boomarnir“ á vettvang, fjölmenn, frek, drykkfelld og sjálfráða dekurbörn.....
3. Nýju hjúkrunarheimilin með rýmunum 400, með heimilislegum einingum sem taka mið af þörfum aldraðra og einbýlum.
Því miður hef ég ekki samanburðartölur um fjölgun rýma frá árinu 2008. Ég þigg glöð svör um það frá þeim sem betur vita, t.d. úr ráðuneytinu. Það má þó benda á að árið 2008 var vinnubrögðum við „vistunarmat“ sem nú heitir Færni- og heilsumat, verulega breytt og skilyrði til að flytja á hjúkrunarheimili þrengd. Á sama tímabili hefur líka orðið þróun í þá átt að fækka fjölbýlum á eldri heimilum, ný heimili hafa leyst eldri af hólmi og má gera því skóna að þau séu heldur að þokast frá stofnanaútlitinu yfir í hugmyndina um heimili. Enda hefur í stefnu ráðuneytisins lengi verið lögð áhersla á heimilislega hönnun, útlit og andrúmsloft og það mun orðið algengt sjónarmið í samfélaginu. Þannig er á heimasíðu ráðuneytis skjal um skipulag hjúkrunarheimila, eitt frá 2008 og annað nýlega uppfært, bæði í þessum anda.
Einnig segir í kröfulýsingunni nýju að „heimilið skal vera vistlegt og hafa í heiðri mannréttindi, mannúð og virðingu.“ Auk öryggis, stuðnings og aðstoðar á að styðja og styrkja sjálfsmynd og sjálfræði íbúa. Þessu er svo fylgt eftir með athugasemd um að stjórnendur eigi að leggja sig fram um að kynna sér nýjungar á sviðinu, þá líklega ekki síst í þá átt að styrkja sjálfræði íbúa og stuðla að því að hjúkrunarheimilið verði heimili fremur en stofnun.
En þótt góð séu orðin vantar að mínu mati ýmsar nauðsynlegar stjórnsýsluaðgerðir til að efndirnar séu enn líklegri. Þar er að mínu mati efst á blaði að skilgreina hjúkrunarheimilin kvitt og klárt sem búsetuúrræði, sem lið í keðju fjölbreyttra búsetuúrræða og að jarða endanlega hugmyndina um „mini-sjúkrahúsið“ sem á sínum tíma var vissulega mikilvægt umbótaafl til að þróa hjúkrunarheimili burt frá arfi fátækrahælanna, en er núna orðin dragbítur sem viðheldur „sjúkdómsvæðingu“ öldrunar. Er af þessu öllu mikil saga sem ég verð plássins vegna að sleppa og mun nógu langorð samt.
4. Breyting á greiðslufyrirkomulagi.
Þetta mál er eitt af fáum verkefnum tengt flutningi til sveitarfélaga sem varð eftir og haldið hefur verið lífi í. Skammt er að minnast fjölmiðlaumræðu vorið 2015 þegar öldruð kona, Guðrún Einarsdóttir, kvaddi sér hljóðs og mótmælti því að peningarnir hennar væru teknir af henni og henni svo skammtaðir „vasapeningar“ (núna kringum 50 þúsund á mánuði). Raunar er þetta mál tvíþætt þar sem það tengist hvers kyns sjúkradvöl og þar með einnig þeirra sem ekki eru að breyta búsetu og þurfa því að reka heimili til að hverfa til að að meðferð lokinni. Líklega eru þetta ekki margir einstaklingar og má telja með ólíkindum að þessi fjárupptaka hins opinbera skuli enn vera við lýði. Helst dettur manni í hug orðtækið gamla: „það er smátt sem hundstungan finnur ekki“. Varðandi hinn stærri hóp sem er að flytja á hjúkrunar- og dvalarheimili er það ekki einu sinni svo að ríkið spari peninga með fyrirkomulaginu: þegar Danir breyttu þessu fyrirkomulagi árið 1991 þýddi það alls ekki að fólk borgaði miklu minna: yfirleitt breyttust útgjöldin lítið, í sumum tilvikum borgaði fólk minna og í öðrum jafnvel meira. Þetta mál snýst því, eins og fyrr er sagt, einungis um efnahagslegt sjálfræði. Kostnaður við breytinguna er enginn annar en sá sem alltaf fellur til við innleiðingu breytinga.
En hvar er málið statt? Jú, í áðurnefndum tillögum starfshóps á vegum ráðuneytisins, dagsettum í september s.l., er því slegið föstu að afnema skuli „vasapeningakerfið“ . Enn einn starfshópur hefur verið stofnaður og skal þessi koma á fót „tilraunaverkefni“, svo ekki er hægt að saka menn um að fara geyst að hlutunum. En það er þó stefnt í rétta átt.
5. Farið er almennum orðum um aðgerðir til að laða hæft fólk til starfa, um menntun og símenntun, þessi og þvíumlík orð hafa verið endurtekin með tilbrigðum a.m.k. það sem af er þessari öld. Raunar var textinn 2008 ekki neitt verulega frábrugðinn hvað þetta snerti. Segja má að félagsliðanámið sem kom til í kringum síðustu aldamót sé framfaraskref, en mig langar að benda á að víða í okkar viðmiðunarlöndum eru ákvæði um að fólk megi ekki starfa við öldrunarþjónustu, þ.e. beina líkamlega aðstoð, án einhvers konar grunnnáms. Slíkt ákvæði væri metnaður, almenn orð skuldbinda engan til neins.
6. Varðandi aðalmálið, það að setja ný lög, sameiginlega fyrir alla þegna sem þurfa aðstoð hins opinbera til að komast af í daglegu lífi (erlent dæmi: dönsku Serviceloven), virðist það hafa verið slegið út af borðinu, eiginlega án þess að hafa nokkru sinni komist virkilega að því, því eini votturinn um þetta þjóðþrifamál eru þessi örfáu orð í stefnuskjali frá því rétt fyrir hrun. Mikið hefur þó verið stagað í lögin, nánast á hverju þingi og sumt þeirra breytinga er greinilega sprottið af vaxandi umræðu um sjálfræðismál, m.a. áhrif frá nýlegri löggjöf um réttindi fatlaðs fólks og gegn nauðung í þjónustu við þann hóp. Í tillögum að stefnu til næstu ára er þannig beinlínis talað um að draga úr nauðung í öldrunarþjónustu og í kröfulýsingunni eru mjög góð ákvæði um að takmarka fjötranotkun. Þar er líka talað um ofbeldi og misnotkun gegn öldruðum, en samkvæmt hefðinni er þá oftast átt við aðeins annað fyrirbæri, þ.e. beint, tilefnislaust ofbeldi hvort heldur er af hálfu starfsfólks eða annarra. En ég hygg að ef málið yrði kannað myndi koma í ljós að algengasta tegund ofbeldis gagnvart hrumum öldruðum sem búa á hjúkrunarheimilum er einmitt nauðung í þjónustu, þ.e. þjónustan framkvæmd gegn vilja íbúa með líkamlegri valdbeitingu.
Að lokinni þessari umfjöllun um stefnumálin frá 2008 og afdrif þeirra 2016 – sem sérstaklega er hugsuð fyrir nýja ríkisstjórn, hvernig sem hún nú verður saman sett, verð ég að nefna atriðin sem vantar í öll þessi ágætu skjöl.
Það sem fyrst stingur í augu er vöntun á þjónustuáætlun við fólk með heilabilun. Ein setning: „...mikilvægt að sett verði stefna í málefnum fólks með heilabilun á Íslandi“ bendir vissulega til að hugsunin sé til, og sérlega er ánægjulegt að sjá að orðanotkunin „fólk með heilabilun“ er komin inn í orðfæri ráðuneytisins í stað „heilabilaðir“, en hinn merki frumkvöðull persónumiðaðrar þjónustu við þennan ört vaxandi hóp, Tom Kitwood, lagði mikla áherslu á að tala um fólk, um lifandi persónur, í stað þess að skilgreina hópinn út frá sjúkdómseinkennum. En – alveg burtséð frá þessu ánægjuefni – enn vantar raunhæfar aðgerðir til að koma upp þjónustuáætlun við fólk með heilabilun. Danir hafa hana. Norðmenn hafa hana. Svíar hafa hana. Bretar hafa hana. Hvert einasta fylki Bandaríkjanna og Ástralíu hefur hana. En á landinu okkar grábrúna finnum við kannski bara á okkur hvernig best sé að haga þessum málum? Líklega, allavega erum við merkilega samstillt um að læsa þetta fólk inni, fáum við færi á því – nánast hver einasta stofnun/deild sem er sérmerkt fólki með heilabilum er læst og fólk fer þar ekki frjálst ferða nema í undantekningartilvikum. Já, og vel á minnst: í skjölunum er heldur ekki talað um læsingarnar blessaðar. Það er þó full ástæða, þær eru nefnilega ólöglegar og mikil þörf á að bæta úr því, t.d. með áætlun um að draga verulega úr þessu óyndisúrræði og á hinn bóginn að setja skýr lög um hvenær sé heimilt að hefta ferðafrelsi fólks sem annars nýtur lagalegs sjálfræðis, öryggis þess vegna. Dönsku Serviceloven fyrrnefndu eru hér prýðis fyrirmynd. Gætum við kannske stofnað starfshóp um tilraunaverkefni?
Annað sem vantar algerlega í öll skjölin sem hér er fjallað um – líka þau frá 2008 – er umfjöllun um notkun geðlyfja í öldrunarþjónustu. Fyrrnefndar nágrannaþjóðir okkar hafa margar hverjar ef ekki allar sett ákvæði og jafnvel hrundið af stað átaki til að draga úr notkun þessarra lyfja, bæði svokallaðra geðrofslyfja sem allajafna eru ætluð fólki með alvarlega geðsjúkdóma eða í sturlunarástandi (Haldol, Ríson) og róandi lyfja svo sem Heminevrin sem er algengt og vinsælt lyf þegar gamalt og óáttað fólk fer að sýna æsing eða óróleika. Ég hef heyrt þau rök að við þurfum ekkert sérstakt átak um þetta, vegna þess að við notum RAI matið í allri okkar öldrunarþjónustu og í því mælitæki eru svonefndir gæðavísar: ef við notum mikið af fyrrnefndum lyfjum kemur það fram sem mínus í gæðamatinu. En til þess að þetta hafi raun-áhrif í þá átt að draga úr notkun þurfa að verða afleiðingar í einhverju formi. Mögulega er það svo, leyndardómar mælitækisins og notkunar þess hjá eftirlitsaðilum eru mér ekki að öllu leyti kunnir. En mér finnst það ekki ásættanlegt að þetta atriði skuli ekki vera komið á blað hjá opinberum aðilum og bendi á að í Bandaríkjunum var þetta atriði nefnt í frægum umbótalögum árið 1987. Lesendur geta sjálfir reiknað hve mörg ár eru síðan umliðin.
Í þessarri yfirferð hef ég sem betur fer haft ástæðu til að gleðjast yfir ýmsum framförum í stjórnsýslunni. Í því sem er að gerast úti á „akrinum“ er enn fleira til að gleðjast yfir, því sífellt vex nýrri menningu fiskur um hrygg. Æ fleiri hjúkrunarheimili taka upp framfarasinnaða hugmyndafræði og varðandi geðlyfin má nefna að t.d. Eden heimilin eru með það á stefnuskrá sinni að draga úr notkun þeirra með ráðum og dáð. Fleiri teikn eru á lofti um góða hluti. Lyklasláttukonan sem hér er að verki hefur undanfarin ár haft í tölvunni bók undir því stolta nafni „Ný menning í öldrunarþjónustu“. Verkið hefur dregist um of sakir ýmissa búsorga, eins og gengur, og á meðan liggur við að þróunin hlaupi fram úr mér. Það er vissulega vel. En mikið verk er óunnið. Ef ég fengi að ráða í einn dag myndi ég gera þetta:
- Leggja niður lög um málefni aldraðra og setja í stað þeirra lög um félags- og heilbrigðisþjónustu.
- Flytja alla öldrunarþjónustu til sveitarfélaganna.
Ef ég fengi svo að ráða einn dag í viðbót myndi ég skipa starfshóp til að undibúa þjónustuáætlun fyrir fólk með heilabilun og annan til að hrinda af stað átaki til að draga úr notkun geð- og róandi lyfja fyrir aldraða einstaklinga.
Svo myndi ég opna allar læstu dyrnar.