Í tveggja mínútna langri ræðu undir liðnum Störf þingsins gagnrýndi ég orð sem hafa fallið á þinginu og víðar í þá veru að 5 ára ríkisfjármálaáætlun nýfallinnar ríkisstjórnar sé rammi að fjárlögum sem nú eru í vinnslu - og út fyrir hann megi hvorki þing né væntanleg ríkisstjórn fara. Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar, svarar samdægurs með grein hér í Kjarnanum en hún víkur ekki að þessum augljósa kjarna í ræðunni. Ræðan fer hér á eftir, með styttingum (ávörp og síðasta málsgrein felld burt):
„Í umræðum á Alþingi hefur borið á að ræðumenn halda því fram að fimm ára ríkisfjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar setji hóflegum hugmyndum um auknar tekjuöflun 2017 skýrar skorður, rétt eins og áætlun einnar ríkisstjórnar bindi hendur þeirrar sem við tekur þegar sú fyrri missir meiri hluta, eða bindi jafnvel hendur þingsins. Það er augljóslega rangt nú þegar fyrri þingmeirihluti hefur raskast og Alþingi hefur auk þess fjárlagavaldið þegar allt kemur til alls. Þessi afstaða kom t.d. fram síðastliðinn þriðjudag í Kastljósþætti RÚV hjá varaformanni Viðreisnar, Jónu Sólveigu Elínardóttur, og hún hefur heyrst í þingræðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks sem fjalla um fjárlagafrumvarpið. Eru þessir flokkar sammála um áherslur í ríkisfjármálum, ber að skilja það svo? Fjármálaáætlun ríkisstjórnar er pólitísk hagfræði og lýtur sömu örlögum og önnur meginstefnuplögg hvort sem er til vinstri, hægri eða við miðju stjórnmálanna. Hinu má ekki gleyma að tilgangur fimm ára ríkisfjármálaáætlunar er m.a. sá að gera fjárlagavinnu hvers árs skilvirkari en ella og auka ábyrga afstöðu til allra þátta fjárlagafrumvarpsins. Það merkir ekki að nýtt þing og nýr meirihluti að baki nýrrar ríkisstjórnar, væri hún til hér og nú, geti ekki aflað aukatekna til samfélagsþjónustunnar með ábyrgum hætti og þar með farið út fyrir ramma sem fallin stjórn setti sér, styðji Alþingi það skref, skref sem sumir þingmenn reyna meðvitað að láta líta út sem svo að það sé brot á heilagri áætlun. Varla er fáfræði um að kenna en kannski misskilningi í einhverju tilviki.“
Gagnrýni ósvarað
Hér er alveg ljóst hvað gagnrýnt er og af hverju. Því miður er umræddur rammi ríkisfjármálaáætlunar notaður sem réttlæting á því að varla megi afla viðbótartekna nema þá með innbyrðis færslum innan tekju- og gjaldahliðar fjárlagafrumvarps. Það gera bæði fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar. Að þessu er ekki vikið í Kjarnagreininni. Enn fremur er ljóst að orð Jónu Sólveigar um meint ábyrgðarleysi ræðumanns og skort á skilningi á tilgangi langtíma fjármálaáætlunar eiga ekki við ræðuna. Þvert á móti - þar er fjallað um hvoru tveggja.
Í stað þess að svara gagnrýninni eyðir þingmaðurinn púðri í að fara yfir stjórnarmyndunarviðræður sem ég minntist ekki á. Vil þó nefna staðreyndir þegar á mig er ljóðað. Í landbúnaðar- og neytendamálum lágu fyrir hugmyndir og tillögur sem ekki náðist að ræða sem lið í málamiðlun en mynduðu nothæfan grunn.
Í sjávarútvegi lágu fyrir tvær tillögur eða hugmyndir. Annað plaggið vann málefnahópur með þátttöku allra fimm flokkanna í fyrri viðræðum þeirra. Þar var ekki annað eftir en að setja lága prósentutölu á innköllun aflaheimilda og ræða betur um hvernig þær skyldu nýttar. Hitt plaggið var nýrri tillaga sem heldur ekki náðist að ræða til málamiðlunar.
Óþekktar tölur
Ríkisfjármálin voru helsta bitbeinið í viðræðum flokkanna fimm. Þar lögðu Vinstri græn fram tölulega áætlun um greinilega öflun 25-30 milljarða aukakróna að lágmarki og skiptingu upphæða milli málaflokka heilbrigðis mennta, velferðar og samgangna svo það helsta sé nefnt. Það er rangt að VG hafi lagt fram kröfur um „fleiri tugi milljarða án þess að ljóst sé hvernig afla eigi þerra tekna“ (sjá pistil Jónu Sólveigar). Enn fjær sanni er staðhæfingin um að tekjuaukaupphæðin hafi, þessum mörgu milljörðum til viðbótar, innihaldið aðra 40 milljarða króna. Með öðrum orðum á að hafa verið deilt um tillögur VG að upphæð 60-100 milljarða króna (!), allt eftir því hvað er átt við með „fleiri tugum milljarða króna“. Þessar háu tölur þekkja væntanlega engir þingmenn sem nálægt viðræðunum komu. Tilvísanir Jónu Sólveigar í kúvendingar í ríkisfjármálum, sem við tvö erum sammála um að séu jafnan ófærar, eiga ekki við raunverulegar tillögur VG og heldur ekki við ræðu mína.
Höfundur er þingmaður VG í Suðurkjördæmi.