Reglulega er ég spurður að því í jólaboðum og á öðrum mannamótum:
Ertu enn þá vegan?
Fyrir mér er þessi spurning svipuð og fyrir fólk sem reykti ekki árið 1960 hefur líklega fengið. “Ertu ennþá hættur að reykja?”
Þegar þú ert í minnihlutahóp er sífelld pressa á þér að vera eins og hinir og ef þú ert öðruvísi þá þarftu að réttlæta það fyrir mörgum í kringum þig. Dæmi um slíkt er spurningin sem margir spyrja mig, af hverju ertu vegan. Þú myndir ekki spyrja Gunnu frænku þína af hverju giftistu Jóa. Þegar þú spyrð út í lífsstíl eða stóra lífsákvörðun væri umburðarlyndara að spyrja hvernig kynntistu Jóa eða hvernig varðstu vegan.
Hjarðhegðun er leiðin til stöðnunar en ekki framfara
Auðveldasta ákvörðun hverju sinni er að fylgja meirihlutanum og efast ekki um eigin gjörðir á meðan maður fylgir hjörðinni. Gallinn við slíka hjarðhegðun er að framfarir í siðferðis og réttlætismálum verða til í minnihluta sem breiðist svo út. Fámennir hópar hafa því í gegnum tíðina verið kveikjan að uppfærslu í samfélaginu. Það er því til dæmis mjög mikið eins og þú sért stýrikerfið Windows 95 ef þú hlærð að Aktívegan fólkinu sem mótmælir fyrir utan Sláturfélag Suðurlands. “Djöfulsins vitleysingar”, hugsar sumt fólk “og svo ganga þau í úlpum með loðkraga” en áttar sig ekki á að í dag er hægt að fá föt sem líta út eins og þau séu úr ull, loðfeldi eða leðri en eru úr gerviefnum.
Að vera vegan er upplýst ákvörðun, þú þarft að kynna þér allar hliðar og vera með allt þitt á hreinu ef þú ætlar að gerast vegan og verða öðruvísi en um 97,5 % þjóðarinnar.
Kjötát er sjaldnast upplýst ákvörðun
Þeir sem borða kjöt eru ekki verri manneskjur en aðrir og að vera vegan gerir þig ekki að betri manneskju. Nauðsynlegt er að geta rætt siðfræði þeirrar venju að borða kjöt á 21. öldinni út frá ólíkum sjónarhornum án þess að dæma fólk.
Kjötát er sjaldnast upplýst ákvörðun. Þú fæðist inn í samfélag þar sem maturinn kemur úr matvöruverslunum í fínum pakkningum. Þú lærir um krúttlegu dýrin í sveitinni og kannski fékkstu að eiga gæludýr eins og lítinn krúttlegan hund.
Á aðfangadag situr fjölskyldan við matarborðið og hámar í sig hamborgarhrygg. Þú tengir samt ekki hvernig lífið var hjá svíninu sem er á borði fjölskyldunnar. Færð ekki að heyra um þröngu básana sem svínin þurftu að vera í, hve líftími þeirra var stuttur eða hvernig þeim var slátrað og hve mikil skelfing það var þegar svínið áttaði sig á að eitthvað hræðilegt væri að fara að gerast.
Tegundafordómar móta alla umræðu um dýrasiðfræði
Það er innbyggt í okkar samfélag tegundarhyggja. Að velja krúttleg dýr sem gæludýr og misnota hin í okkar þágu.
Í síðustu viku fór fram ársfundur Siðfræðistofnunar þar sem umræðuefnið var Dýrasiðfræði á 21. öldinni. Í pallborðsumræður var einungis fengið fólk sem styður við tegundarhyggju en engin vegan. Niðurstaðan var því í takt við hjörðina, höldum áfram að drepa sum dýr en reynum að láta þeim líða vel áður en við drepum þau.
Ein grundvallar kenning siðfræði gengur út á það að ef gjörð þín á að vera siðferðilega rétt þarf hún um leið að geta orðið að almennri reglu.
Með kjötáti og dýraiðnaði samþykkir þú því t.d. að:
Hundur, köttur, kanína og hestur og önnur dýr megi fá sömu meðferð og kjötið sem þú ert að borða. Myndi það vera í lagi að láta hund lifa við sömu aðstæður og kjúklingurinn sem er á matarborðinu?
Mjólkurbú sem safnar saman hundamjólk ætti að vera jafn eðlilegt siðferðilega og kúamjólkurbú.
Annað algengt sjónarhorn í siðfræði er að horfa á hagsmuni heildarinnar. Stærstu hagsmunir mannkyns eru að vinna gegn gróðurhúsaáhrifum og eyðingu regnskóga. Það er erfitt að finna jafn áhrifaríka leið fyrir einstakling í að vinna gegn þessu tvennu og að skipta yfir í vegan lífsstíl. Fæðuframleiðsla fyrir vegan einstakling losar um helmingi lægra magn af koltvíoxíði, notast við 1/11 af olíumagni, 1/13 af vatnsmagni og 1/18 af landsvæði borið saman við mataræði þeirra sem borða kjöt.
Eitt kröfuharðasta sjónarhornið í siðfræði fjallar um dygðir. Út frá því getum við spurt okkur:
Ber það merki um góðan karakter að láta drepa fyrir sig sum dýr til matar þegar þú þarft ekki á því að halda?
Er það gott fordæmi að láta drepa fyrir sig þá sem eru minni máttar til að geta notað líkama þeirra?
Í bókinni Eating Animals er siðferðis sjónarhornið víkkað út til að reyna að fá okkur til að horfa út fyrir kassann. Þar er spurt ef hingað koma geimverur sem eru okkur æðri í vitsmunum er þá orðið eðlilegast að þau noti okkur í matvælaframleiðslu?
Auðvitað er þetta langsótt dæmi en ef við ætlum að halda því fram að mannkynið sé æðra í vitsmunum en aðrar tegundir ættum við að sýna gott fordæmi og sneiða fram hjá allri neyslu og nýtingu dýraafurða.
Höfundur er markaðsfræðingur.