Líknardauði er eitthvað sem ég skipti í 3 hluta.
- Líknardráp, þar sem manneskja liggur sárkvalinn, getur enga björg sér veitt og samskipti eru engin. Það styð ég.
- Að hætta meðferð að ósk sjúklings svo það leiðir til dauða, er ég alveg sammála.
- Aðstoðað sjálfsmorð, þegar viðkomandi óttast að verða byrði á ættingjum og vinum vegna aumingjaskapar kerfisins til að sjá um viðkomandi, er ég alveg á móti og slæst fyrir bættu kerfi alla daga.
Nú er mikið í umræðunni réttur fólks til að deyja þegar það vill. Ég vil enn þá halda mig við umræðuna um réttinn til að lifa áður en ég dey. Það vantar nefnilega mikið upp á að sá réttur sé virtur. Við „drepum“ einstaklinga og fjölskyldur alla daga með hreinum aumingjaskap kerfisins til að gera allt sem í þess valdi stendur til að hugsa um þá sem minna mega sín. Það þarf að laga umfram allt.
Ég tel mikla hættu á að með lögleiðingu „Aðstoðaðs sjálfsmorðs“ skapist veruleg hætta á að við notum það sem ódýran valkost í meðferð. Opnað verði það sem ég kalla „sláturhús“ fyrir menn. Þessi ódýra meðferð t.d. í Sviss fer ekki fram inn á sjúkrahúsum heldur eru það sér stofnanir sem sjá um að enda líf veikra einstaklinga. „Sláturhús“.
Auðvitað væri ódýrasta lausnin að færa okkur sem þurfum aðstoð á einn eða annan hátt, til „slátrunar“ og málið er dautt.
Allavega hvet ég alla sem um málið fjalla að taka allt með í reikninginn.
Umræðan er þörf en ég tel lið eitt og tvö sé vel sinnt af læknum hér í dag. Spurninguna set ég við lið þrjú, aðstoðað sjálfsmorð.
Förum varlega og njótum hvers augnabliks sem hægt er.
Höfundur er formaður MND félagsins á Íslandi og er haldinn ólæknandi (enn þá) sjúkdómi.