Orð fór af gestrisni Íslendinga fyrr á tímum þrátt fyrir fátækt þjóðarinnar. Gestgjafar gerðu sjaldnast ráð fyrir að bera neitt úr býtum þegar þeir skutu skjólshúsi yfir aðkomufólk og talað var gestanauð á sumum bæjum. Fólk gerði bara sitt besta, oftast af litlum efnum.
Nú er öldin önnur. Menn þakka viðsnúningi hagkerfisins að miklu leyti gestum sem koma forvitnir hvaðanæva að úr heiminum til að líta augum þetta sérkennilega land og íbúa þess. Þrátt að peningar streymi inn í landið vegna þessa, steðjar að nýr vandi. Okkur hefur nefnilega láðst að styrkja innviði landsins svo að hægt sé að taka almennilega á móti gestaflaumnum. Við erum einfaldlega vanbúin. Ekki er síður bagalegt að við gerum ekki neinar umhverfiskröfur til ferðaiðnaðarins í líkingu við þær sem gerðar eru til annars konar iðnaðar í landinu.
Sláandi tölur
Samkvæmt upplýsingum Íslandsstofu eru hér að meðaltali 73. 800 gestir á degi hverjum að sumarlagi sem þýðir 22% fólksfjölgun. Yfir vetrarmánuðina eru hér svo 22.500 gestir að meðaltali daglega. Þessar tölur fara ört vaxandi og allt þetta fólk þarfnast alls kyns þjónustu. Fyrir utan að þurfa að borða og sofa, þarf talsverður fjöldi ferðalanga leita að læknis og svo er ferðafólkið auðvitað duglegt að aka á vegunum okkar. Það segir sig sjálft að heilbrigðiskerfi, sem þarf að taka við svona toppi að sumarlagi þegar allir vilja vera í fríi, þarf einhverja aukainnspýtingu. Hvernig höfum við hugsað okkur að leysa þann vanda? Eða höfum við eitthvað hugsað um það frekar en vegakerfið sem víða er að kikna undan ferðaþunganum?
Umhverfisvandinn á hálendinu
Mikið hefur verið rætt í fjölmiðlum um þann vanda sem stafar af ósæmandi skorti á salernisaðstöðu fyrir ferðamenn víða um land. Umbætur hafa dregist úr hömlu og málið þvælst um í kerfinu. Þessa vanda gætir nú líka í vaxandi mæli á hálendinu sem sumir telja meðal mestu auðlinda Íslendinga. Ævintýraljóma hefur stafað af lítt snortnum víðernum en nú skortir þar nauðsynlega innviði til að höndla sívaxandi fjölda ferðamanna. Ásýnd hálendisins er þegar tekin að breytast, ekki aðeins vegna átroðslu á stöðum eins og Landmannalaugum, heldur almennt vegna úrgangs og drasls sem ferðamenn skilja eftir á við og dreif. Sérstaklega stinga plastpokar með alls kyns rusli í stúf við náttúruna. Hvers vegna förum við t.d. ekki að dæmi yfirvalda í Kaliforníu þar sem það varðar 1.000 Bandaríkjadala sekt að henda rusli á víðavangi? Væri það ekki áhrifarík leið til betri umgengni?
Hvar er metnaðurinn?
Ábyrgð skipuleggjenda hálendisferða er mikil og brýnt er að gera þær kröfur til þeirra að komið sé til baka með allt það rusl sem til fellur vegna neyslu ferðalanga á þeirra vegum. Hér erum við langt á eftir öðrum þjóðum sem meta sínar náttúruperlur að verðleikum. Við gerum almennt miklar kröfur til iðnfyrirtækja varðandi losun efna og skyldum þau til að undirgangast rækilegt mat á umhverfisáhrifum starfseminnar. Hvers vegna á eitthvað allt annað að gilda um fyrirtæki í ferðaiðnaði á Íslandi? Við treystum því að nýir og skeleggir ráðherrar ferða og umhverfismála taki þessi mál föstum tökum.