Leigumarkaði nágrannalandanna má líkja við ísjaka.
Neðansjávar eru „not for profit“ húsnæðisfélög í eigu sveitarfélaganna og annara opinberra aðila.
Tilgangur þeirra er að skapa stöðugleika á leigumarkaði. Í krafti stærðar sinnar ráða þau leiguverði á viðkomandi svæði. Þessi félög standa undir sér, en eiginlegur hagnaður er ekki tekinn út úr rekstrinum. Efri partur ísjakans eru svo einkarekin leigufélög rekin með langtímamarkmiðum, í þröngum skorðum sem neðri partur ísjakans setur.
Á íslandi er þessu alveg öfugt farið.
Neðansjávar eru einkarekin leigufélög sem hafa margfaldast í vexti síðustu misserin. Ein af ástæðunum er brunaútsala á eignum ríkisins, sem selur einkareknum leigufélögum íbúðir fyrir slikk.
Verkalýðsfélög horfa upp á atburðarásina með hendur í vösum.
Ofansjávar á Íslandi eru Félagsbústaðir, og gæluverkefni fyrrverandi velferðarráðherra. Og glærusýningar Blairistanna í borgarstjórn. Kannski verða einhverjar þeirra íbúða byggðar. Einhvern tímann.
Að öðru leyti er neðri hluti ísjakans braskvæddur á Íslandi í boði stjórnvalda.
Kring um ísjakan stekkur ungt fólk á milli fljótandi ísflaka ótryggs leigumarkaðar.
Og skautar á þunnum ís bólginna fasteignakaupa.
Sem brestur með reglulegu millibili.