Hlutabréf (og kvótar) af himnum ofan

Auglýsing

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar kemur fram að stefnt er að því að almenningur fái einhvern hlut í viðskiptabönkum í eigu ríkisins afhentan endurgjaldslaust. Rökstuðningur fyrir þessari leið er knappur en hún er sögð liður í því að ná sem mestri dreifingu eignarhalds. Útfærsla liggur ekki fyrir, hvorki upphæðir eða hlutföll né tímasetningar og ekki ljóst af sáttmálanum hvort þetta eigi við um bréf í einum eða fleiri bönkum. Þessi hugmynd er raunar ekki ný af nálinni og var eitthvað rædd í kosningabaráttunni þótt hún virtist ekki vekja mikla athygli og hafi aldrei verið útfærð eða útskýrð mjög nákvæmlega.

Það er því nokkuð erfitt að átta sig á því nákvæmlega hver hugmyndin er og því sjá hvaða kosti og galla hún kann að hafa. Það er þó auðvitað hægt að fjalla almennt um kosti og galla þess að ríkisvaldið afhendi þegnum sínum einstakar eignir sínar eða hlut í þeim. Hér verður reynt að gera það og raunar víða komið við.

Fordæmi

Gjöf hins opinbera á hlutabréfum til almennings er ekki fordæmalaus. Skýrustu fordæmin sem virðast vera í ætt við hugmynd stjórnarflokkanna eru frá fyrrum austantjaldslöndum á tíunda áratug síðustu aldar. Eftir hrun kommúnismans og Sovétríkjanna þurfti að gerbreyta hagkerfum þessara landa og einkavæða gríðarlega mörg fyrirtæki og aðrar eignir hins opinbera. Fjármálakerfið var engan veginn undir þetta búið, hlutabréfamarkaður vart til og sparnaður almennings mjög takmarkaður.

Auglýsing

Þá var einkavæðingin afskaplega viðkvæm af mörgum ástæðum, m.a. vegna þess að fjölmargir misstu vinnuna þegar úreltar verksmiðjur og önnur ósamkeppnishæf fyrirtæki voru lögð niður. Loks var mikil og raunveruleg hætta á spillingu sem birtist m.a. þannig að vel tengdir aðilar („innvígðir og innmúraðir“) fengu góða bita á vildarkjörum. Það gerðist raunar í stórum stíl og lagði grunninn að veldi fjölmargra ólígarka nútímans en það er saga sem ekki verður rakin hér.

M.a. af þessum ástæðum var gerð tilraun með einkavæðingu sem byggði á því að gefa þegnunum fyrrum ríkisfyrirtæki. Tékkóslóvakar riðu á vaðið en síðan fylgdu Rússar og fleiri í kjölfarið. Útfærslan var nokkuð snúin og raunar mismunandi á milli landa en byggði í grunninn á því að hver og einn fékk eins konar ávísanir (vouchers) sem hann gat notað til að kaupa hlutafé.

Framkvæmdin gekk upp og ofan og þiggjendurnir urðu almennt ekkert sérstaklega ánægðir með gjafirnar. Margir seldu snemma fyrir slikk og urðu svo hundfúlir þegar bréfin reyndust verðmætari síðar. Aðrir eignuðust bréf sem urðu síðar verðlaus og þeir urðu ekki síður fúlir. Þetta reyndist því ekkert sérstakt snilldarbragð út frá því sjónarhorni að það tryggði stjórnvöldum miklar vinsældir eða stuðning við að takast á við mikla erfiðleika í efnahagsmálum. Tíundi áratugurinn varð afar erfiður í þessum heimshluta.

Hlutabréfamarkaðir náðu þó að skjóta rótum og eru starfræktir með sambærilegum hætti nú og í löndunum sem voru fyrir vestan járntjaldið. Smám saman tók líka að sjá til sólar í efnahagsmálum með tiltölulega kröftugum hagvexti. Nú, rúmum aldarfjórðungi eftir hrun kommúnismans í Evrópu, eru flest ríkin miklu betur stödd en áður og nálgast nágranna sína í vestri í lífskjörum. Frá því eru þó nokkrar undantekningar, einkum þar sem ekki hefur tekist að ná tökum á pólitískri spillingu, svo sem í Úkraínu.

Það er nokkuð snúið að leggja mat á kosti og galla þessarar gjafaeinkavæðingar út frá þessari sögu einni saman, til þess breyttist allt of margt annað á sama tíma. Þó tókst ekki verr til en svo að hugmyndin getur vart talist galin, a.m.k. ekki við aðstæður sem gera aðrar leiðir jafnvel verri.

Það er hins vegar ekki þar með sagt að þetta sé skynsamleg leið til einkavæðingar almennt eða á Íslandi sérstaklega. Aðstæður eru vitaskuld allt aðrar á Íslandi 2017 en í ríkjum sem voru að rísa úr öskustó kommúnismans fyrir aldarfjórðungi.

Erfitt að selja banka

Íslenska ríkinu er raunar verulegur vandi á höndum. Það er hreint ekki hlaupið að því að finna kaupendur að íslensku bönkunum sem uppfylla allar þær kröfur sem eðlilegt er að gera til eigenda banka. Lífeyrissjóðir eru einu aðilarnir innanlands sem eiga nægt fé, fyrir utan ríkið sjálft, en þeir gætu vart keypt nema einn banka. Það er auðvitað ekki nóg þegar þrír eru til sölu. Raunar væri vart skynsamlegt að þeir ættu nema hluta í einum banka á móti öðrum fjárfestum. Um þetta fjallaði greinarhöfundur í fyrri grein í Kjarnanum.

Það eru e.t.v. ekkert sérstaklega sterk rök fyrir því að gefa almenningi hlutabréf í ríkisfyrirtækjum að það sé erfitt að finna kaupendur að bréfunum. Ríkið getur vitaskuld alltaf selt bréfin en kannski ekki á verði sem þykir ásættanlegt. Önnur rök og aðeins betri eru að það sé bönkunum í hag að vera í mjög dreifðu eignarhaldi. Það geti jafnvel gert það auðveldara að selja þann hlut sem ekki verður gefinn almenningi að almenningur hafi þegar fengið tiltekinn hlut.

Samþjappað eignarhald

Einn af veikleikum íslenska hlutabréfamarkaðarins er nefnilega hve samþjappað eignarhald er orðið. Skráð íslensk hlutafélög standa fæst, ef nokkurt, undir því að geta kallast almenningshlutafélög. Það dregur úr skilvirkni og gagnsæi verðmyndunar og getur verið verulegt vandamál fyrir samkeppni þegar sömu eigendur eiga umtalsverðan hlut í tveimur eða fleiri fyrirtækjum sem starfa á sama markaði. Sem dæmi má nefna að þegar 20 stærstu hluthafar í Símanum og Vodafone eru skoðaðir sést að nú eiga sömu tíu aðilarnir, einkum lífeyrissjóðir, annars vegar 56% í Vodafone og hins vegar vegar 63% í Símanum. Svipaðar tölur má sjá hjá tryggingafélögum og fasteignafélögum í Kauphöllinni. Það er mjög sérstök staða, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið.

Þetta er þó ekki séríslenskt vandamál. Þróunin víða erlendis hefur verið í sömu átt. Beint og mjög dreift eignarhald almennings í hlutafélögum er á undanhaldi en í þess stað eiga fáir fagfjárfestar sívaxandi hlut og oftar en ekki sömu eigendur í mörgum samkeppnisaðilum. Oftast er um einhvers konar sjóði eða sjóðastjórnunarfyrirtæki að ræða. Á alþjóðavísu er Blackrock stærst. Á Íslandi eiga lífeyrissjóðir stóran hluta í öllum skráðum hlutafélögum og sameiginlega eiga þeir í flestum tilfellum, þó ekki öllum, ráðandi hlut. Um þetta fjallaði greinarhöfundur m.a. í grein í Vísbendingu í fyrra (Lárétt eignarhald. 20. tbl. 6. júní 2016).

Almenningshlutafélög

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn er miklu yngri en í nágrannalöndunum en um skeið þá var algengt að umtalsverður hluti bréfa í flestum skráðum fyrirtækjum dreifðist á mjög stóran hóp smárra hluthafa. Skýringarnar á því voru einkum tvær, annars vegar einkavæðing sem hvatti til svokallaðrar kennitölusöfnunar og hins vegar skattfrádráttur sem launþegum bauðst ef þeir keyptu hlutabréf fyrir tiltölulega lága upphæð á hverju ári.

Í árslok 1999 voru þannig 37.860 hluthafar í Búnaðarbankanum og 26.702 í Landsbankanum. Eimskip var í þriðja sæti með 15.172 hluthafa (tölum Kauphallarinnar og félaganna sjálfra ber ekki alveg saman um þetta en litlu munar). Eimskip var fyrsta íslenska almenningshlutafélagið og lengi vel það eina sem stóð undir því nafni. Fékk raunar sæmdarheitið óskabarn þjóðarinnar. Um 14.000 keyptu hlut í félaginu við stofnun þess fyrir rúmri öld eða sem samsvarar um 15% Íslendinga þá. Félag sem væri í eigu jafnstórs hluta þjóðarinnar nú hefði tæplega 50 þúsund hluthafa.

Því fer hins vegar fjarri að slíkt félag sé til nú. Flest skráð íslensk hlutafélög eru með á milli 1 og 2 þúsund hluthafa. Hluthafahópurinn er fjölmennastur í Össuri, 4.033 í árslok 2015. Össur er vitaskuld eitt af örfáum félögum sem voru skráð í kauphöll fyrir hrun og komu lítt sködduð út úr hruninu. Marel er annað, með tæplega 2 þúsund hluthafa. Í nokkrum tilfellum ná hluthafarnir ekki einu þúsundi. Núverandi Eimskipafélag, sem deilir nafni en ekki kennitölu með forvera sínum, var með innan við eitt þúsund hluthafa í árslok 2015. Þeir þyrftu að vera 50 sinnum fleiri til að ná sama hlutfalli þjóðarinnar og við stofnun.

Það er á ýmsan hátt slæmt að eignarhald á helstu atvinnufyrirtækjum landsmanna sé svo þröngt. Það eykur fjarlægðina á milli vinnuafls og fjármagns, svo notuð séu gamalkunnug hugtök úr hagfræðinni, þýðir að tiltölulega þröngur og frekar einsleitur hópur ræður mjög miklu í efnahagslífinu og dregur úr skilvirkni hlutabréfamarkaðarins. Þá skiptir þetta miklu máli fyrir tekju- og eignaskiptingu í landinu. Loks er það sem fyrr sagði afleitt fyrir samkeppni, sem aftur bitnar á neytendum, að keppinautar á markaði séu að stórum hluta í eigu sömu aðila.

Lífeyrissjóðir sameign

Hlutafélögin í Kauphöllinni eru þó auðvitað almenningshlutafélög sé tekið tillit til þess að helstu eigendur þeirra, lífeyrissjóðirnir, eru sjálfir í afar dreifðri eigu. Langflestir fullorðnir Íslendingar eiga einhver réttindi í lífeyriskerfinu. Eignarhaldið er hins vegar óbeint. Því fylgir enginn atkvæðaréttur á hluthafafundum og engin leið til að hafa áhrif á hvaða bréf eru keypt eða seld. Í flestum tilfellum hafa sjóðfélagar ekki mikið, ef nokkuð, um það að segja hverjir stjórna sjóði sem þeir greiða til. Flestir Íslendingar hafa líklega mjög takmarkaða, jafnvel enga, hugmynd um það hvaða eignir, þ.m.t. hlutabréf, standa á bak við lífeyrisréttindi þeirra. Fjarlægðin á milli fyrirtækjanna og endanlegra eigenda þeirra er því orðin mjög mikil.

Þegar fyrirhuguð hlutabréfagjöf er sett í þetta samhengi þá hefur hún þann kost að hún kemur þjóðinni, ef svo má að orði komast, í beint samband við viðkomandi hlutafélag, í þessu tilfelli banka. Það er hins vegar ekki þar með sagt að sambandið verði varanlegt. Væntanlega verður nefnilega hægt að selja bréfin aftur. Það eru allar líkur á því að margir muni einfaldlega gera það. Það gerðist a.m.k. í kjölfar kennitölusöfnunarinnar fyrrnefndu. Hluthöfum Landsbankans fækkaði þannig t.d. um ríflega helming frá árslokum 1999 til ársloka 2004, úr 26.702, eins og áður sagði, í 12.699. Þeim fjölgaði reyndar aftur árið eftir, í 26.975, þegar Eimskip, sem þá hét orðið Burðarás, rann inn í bankann og fyrrum hluthafar í Eimskipi urðu hluthafar í Landsbankanum (og Straumi) en það er önnur saga, sem endaði auðvitað með ósköpum.

Það sama gerðist í Búnaðarbankanum. Þar fækkaði hluthöfum um meira en 13 þúsund á þremur árum, úr 37.860 í árslok 1999 í 24.754 í árslok 2002. Árið eftir sameinaðist hann Kaupþingi. Þátttakendur í hlutafjárútboði Búnaðarbankans árið 1998 voru raunar miklu fleiri en þetta eða um 92.900. Meiri hluti þeirra hafði hins vegar aldrei áhuga á að eignast bréfin og framseldi kauprétt sinn til annarra gegn smávægilegri þóknun.

Ör fækkun hluthafa í Landsbankanum og Búnaðarbankanum eftir 1999 sýnir vel að þótt það sé hægt að koma hlutabréfum í hendur margra með hagstæðum tilboðum er allt eins víst að þau verði þar ekki mjög lengi ef þeir eiga þess kost að selja. Jafnframt er vel hugsanlegt að almenningur verði þvingaður til að selja vegna yfirtöku en það gerðist í stórum stíl í Kauphöllinni síðustu árin fyrir hrun svo að skráðum félögum og þar með hluthöfum snarfækkaði.

Jafnvel þótt ekki kæmi til yfirtöku myndi hluthöfum nánast örugglega fækka hratt eftir að hlutabréf væru gefin öllum landsmönnum. Raunar væri næsta víst að salan yrði enn hraðari nú en í kringum aldamótin nema settar væru takmarkanir á hana. Þeir sem tóku þátt í hlutafjárútboðunum í bönkunum í lok síðustu aldar sýndu augljóslega einhvern áhuga á að eignast bréf og greiða fyrir þau þótt margir þeirra seldu þau aftur eftir tiltölulega stuttan tíma. Ef bréf væru gefin myndu margir þiggjendanna væntanlega aldrei hafa neinn áhuga á að eiga þau og því selja við fyrsta tækifæri.

Peningaregn

Áhrifin af slíkri gjöf væru því að verulegu leyti sambærileg við að gefa öllum landsmönnum tiltekna peningaupphæð, þ.e. þá sem fæst við sölu hlutabréfanna. Það myndi væntanlega fyrst og fremst auka einkaneyslu þótt eitthvað færi í sparnað og fjárfestingu. Frá hagstjórnarsjónarmiði getur stundum verið æskilegt að ýta undir einkaneyslu, til að örva hagkerfið, en þess er engin þörf nú og varla á næstu árum m.v. hagspár. Þvert á móti er frekar áhyggjuefni að þensla sé að verða óþægilega mikil.

Í þenslu væri því hlutabréfagjöf ekkert sérstaklega gott skref frá hagstjórnarsjónarmiði. Væri verðmæti bréfanna lítið, þ.e. einungis brot af heildarhlutafé væri gefið, hefði það þó að sjálfsögðu minni áhrif en ella.

Mun betra væri hins vegar frá þessum sjónarhóli að hvetja til sparnaðar, t.d. með skattalegum hvötum. Ein leið til þess væri að endurvekja fyrrnefndan afslátt sem veittur var af tekjuskatti vegna hlutabréfakaupa árum saman en hætt í árslok 2002. Útfærslan á því nú þyrfti ekki að vera sú sama og þá en í grundvallaratriðum þyrfti með einhverjum hætti að veita fjárhagslegan hvata til sparnaðar. Ef pólitískur vilji er til þess að ýta undir hlutabréfaeign almennings lægi beint við að skilyrða afsláttinn við hlutabréfakaup en frá hagstjórnarsjónarmiði væri allt eins gott að hvetja til annarra sparnaðarforma svo sem innlána eða skuldabréfakaupa.

Ruðningsáhrif lífeyriskerfis

Einn af þeim þáttum sem mjög líklega draga úr hlutabréfakaupum almennings og raunar sparnaði almennt er að sterkt lífeyriskerfi ryður burt öðrum sparnaði. Það er einfaldlega mun minni ástæða fyrir launþega að leggja til hliðar frjálsan sparnað þegar þeir leggja nú þegar til hliðar hátt hlutfall launa sinna (og fá mótframlag launagreiðanda) í gegnum skyldusparnað lífeyriskerfisins og skattalega hagstæðan viðbótarlífeyrissparnað.

Veruleg hækkun á iðgjöldum í almenna lífeyriskerfið á næstu árum ætti að draga enn úr hvata eða þörf launþega fyrir frjálsan sparnað til viðbótar við lífeyrissparnað. Aukin framlög í lífeyriskerfið ættu líka að auka þjóðhagslegan sparnað að einhverju marki, þ.e. að því marki sem aukinn sparnaður í lífeyriskerfinu ryður ekki burt öðrum sparnaði.

Það getur hæglega orðið verulegt vandamál að finna innlenda fjárfestingarkosti til að mæta þörfum stærra lífeyriskerfis á næstu árum. Í grundvallaratriðum þarf einhver að vilja skuldsetja sig til þess að lífeyrissjóðir geti keypt skuldabréf og einhver þarf að gefa út hlutabréf til að þeir geti keypt. Það blasir ekki við að sá vilji verði fyrir hendi. Stefnt er að minni skuldsetningu opinbera geirans og skuldsetning heimila hefur farið ört minnkandi allt frá hruni. Fyrirtækjageirinn getur hugsanlega nýtt aukið fjármagn en það fer fyrst og fremst eftir fjárfestingum hans sem verða vart svo miklar að það dugi til.

Hægt væri að rekja þennan vanda í miklu lengra máli en það verður ekki gert hér. Niðurstaðan í stuttu máli er hins vegar að það er alls ekki ljóst að innlendir fjárfestingarkostir verði nógu margir á næstu árum og áratugum til að standa undir þörf lífeyriskerfisins, jafnvel þótt það muni beina talsverðum hluta þess fjár sem streymir inn í sjóðina í erlendar fjárfestingar. Við þau skilyrði verður enn erfiðara en ella að stuðla að því að almenningur eignist hlutabréf í stórum stíl, sé pólitískur vilji til þess.

Breytingar á lífeyriskerfi

Við þessari stöðu má bregðast með ýmsum hætti. Ein leið væri að draga úr áherslu á sjóðsöfnun í lífeyriskerfinu en auka vægi gegnumstreymis. Gegnumstreymiskerfi krefst ekki skuldsetningar með sama hætti og sjóðsöfnunarkerfi. Stefnt er að því að minnka vægi gegnumstreymis í framtíðinni á Íslandi, fyrst og fremst með minna vægi lífeyrisgreiðslna almannatrygginga en auknu vægi greiðslna úr lífeyrissjóðum. Það er alls ekki augljóst að sú breyting sé að öllu leyti til bóta, jafnvel gæti verið betra að taka skref í hina áttina. Báðar leiðirnar hafa kosti og galla en þeir verða ekki raktir frekar hér.

Hægt er að hugsa sér aðrar breytingar á lífeyriskerfinu sem myndu gera almenning í ríkari mæli beinan hluthafa í fyrirtækjum. Einfaldast væri að breyta reglum um viðbótarlífeyrissparnað þannig að einstaklingar geti stýrt eignum sínum beint, ákveðið hvað er keypt, t.d. stök hlutabréf frekar en hlutir í sjóðum. Með slíkum kaupum gæti þá jafnframt fylgt atkvæðisréttur en nú fara sjóðfélagar ekki með hann heldur stjórnendur viðkomandi sjóðs.

Slík breyting kallaði á nokkuð flóknara kerfi til að halda utanum viðbótarlífeyrissparnað og verða við óskum sjóðfélaga um viðskipti en það er vitaskuld vel viðráðanlegt að koma því á.

Eðli sparnaðarins myndi líka eitthvað breytast og auðveldara væri að taka meiri áhættu með hann. Það þarf þó ekki að vera neitt sérstaklega hættulegt í ljósi þess að viðbótarlífeyrissparnaðarkerfið er eins og nafnið gefur til kynna viðbót við annan lífeyrissparnað. Hann ætti fólk eftir sem áður jafnvel þótt það tapaði á djörfum veðmálum með viðbótina. Slík breyting myndi hafa einhver áhrif á íslenska verðbréfamarkaðinn en þó takmörkuð, m.a. vegna þess að viðbótarlífeyrissparnaðarkerfið er miklu minna en samtryggingarkerfið en einnig vegna þess að væntanlega myndu margir, líklega flestir, hafa eign sína áfram í einhvers konar sjóðum frekar en stökum verðbréfum.

Mun erfiðara væri að gera sambærilegar breytingar á almenna lífeyriskerfinu, þ.e. leyfa einstaklingum að velja hvaða eignir keyptar eru fyrir þeirra framlög og gefa þeim yfirráð yfir þeim, t.d. til að fara með atkvæðisrétt í hlutafélögum. Hér skiptir lykilmáli að þeir sjóðir byggja á samtryggingu. Þótt hver og einn eigi sín réttindi þá er ekki með góðu móti hægt að taka eignir sem tilheyra tilteknum sjóðfélaga út úr heildareignasafni viðkomandi sjóðs.

Það væri þó líka hægt að taka tiltekin skref í almenna lífeyriskerfinu. Raunar væri tiltölulega einfalt að auka vægi séreignar en draga úr vægi samtryggingar með því að hækka iðgjöld í fyrri flokkinn og lækka á móti iðgjöld í þann síðari. Þá væri hægt að gefa hverjum og einum kost á að ráðstafa sinni séreign. Slík breyting hefði vitaskuld bæði kosti og galla.

Jafnframt væri hugsanlegt, þótt útfærslan yrði erfið, að gefa sjóðfélögum kost á að hafa meira um það að segja hvernig eignir lífeyrissjóðs sem þeir greiða til eru ávaxtaðar og hvernig sjóðirnir beita áhrifum sínum innan félaga sem þeir eiga hlut í. Það er svo annað mál að það er ekkert sérstaklega líklegt að það myndi bæta árangurinn í eignastýringunni.

Þá er fræðilega ekkert því til fyrirstöðu að sjóðfélagar sjálfir fari með atkvæðisrétt í félagi sem lífeyrissjóður á bréf í, frekar en að forstöðumenn sjóðsins fari með atkvæðisréttinn. Það yrði þó alltaf frekar erfitt í framkvæmd og kannski ekki mikill áhugi meðal sjóðfélaga á að nýta sér slíkan rétt. Tækist það væri þó búið að koma því til leiðar að í hverju skráðu félagi á Íslandi gætu tugir þúsunda manna farið með atkvæðisrétt á hluthafafundum.

Aðrar sameiginlegar eignir

Fyrst hugmyndin um að gefa hlutabréf í eigu ríkisins er komin fram er ekki óeðlilegt að skoða hvort ástæða sé til að beita sömu aðferð á ýmislegt fleira. Flestar eigur ríkis og sveitarfélaga eru þó þess eðlis að þær hljóta að verða áfram í eigu opinberra aðila nema grundvallarbreytingar verði á verkaskiptingu milli opinbera geirans og einkageirans eða farið verði í einkafjármögnun opinberra mannvirkja í stórum stíl. Það er fyrir utan efni þessa pistils. Hins vegar mætti beita þessu á ýmsa kvóta sem ríkið á í mesta basli með að úthluta svo að sómi sé að.

Fyrst mætti nefna innflutningskvóta á tollfrjálsum landbúnaðarafurðum, þótt þar séu nú reyndar hagsmunirnir frekar litlir í hinu stóra samhengi. Farin hefur verið sú leið að selja þá. Það þýðir í reynd að allt eins hefði verið hægt að leggja á toll því að söluverðið slagar hátt upp í tollinn sem ekki er lagður á. Í þess stað mætti hugsa sér að hver Íslendingur fengi skömmtunarseðil frá landstjórninni þar sem fram kæmi að hann ætti rétt á t.d. hálfu kílói af frönskum ostum án tolla. Svo mætti fara með seðilinn í næstu nýlenduvöruverslun og kaupa ost á vægu verði – nú eða framselja seðilinn ef viðtakandinn metur slíka osta lítils. Það eru auðvitað fordæmi fyrir þessu, Íslendingar fengu skömmtunarseðla fyrir margs konar nauðþurftum við ýmis tækifæri á síðustu öld.

Hafi einhverjum svelgst á við lestur þessarar tillögu er rétt að taka fram að hún er sett fram í hálfkæringi og greinarhöfundur telur engar líkur á að henni verði hrint í framkvæmd. Hún er engu að síður umhugsunarverð og dregur kannski fram hve afkáralegt það er að ríkisvaldið skuli hlutast til um það með ofurtollum og kvótum hvort landsmenn borða frekar eina tegund osta en aðra. Betri lausnir eru til á þessu viðfangsefni, sú einfaldasta að lækka verulega eða fella niður tolla á innflutningi svona vara frekar en að skammta þær með kvótum sem ríkið selur.

Sjávarútvegur

Kvótar í sjávarútvegi skipta miklu meira máli en kvótar í landbúnaði. Þar er líka sá eðlismunur á að í sjávarútvegi eru kvótar skynsamleg lausn á mikilvægum vanda, þ.e. því hvernig hægt er að tryggja að veiðar gangi ekki of nærri fiskstofnum. Með vel útfærðu kvótakerfi er hægt að stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar.

Það er hins vegar engin ástæða til þess að gefa kvótana. Fyrir því eru hvorki hagræn rök né umhverfisrök. Þvert á móti stenst það enga skoðun að gefa sameiginlega eign þjóðarinnar til tiltölulega lítils hluta hennar (látum liggja milli hluta að skv. skilningi ýmissra lögfræðinga getur þjóðin ekki átt neitt, það skiptir engu í þessu samhengi, fiskimiðin eru augljóslega sameiginleg eign landsmanna allra í þeim skilningi sem flestir landsmenn leggja í hugtakið eign). Það er gert nú. Kvótinn er afhentur endurgjaldslaust og þeir sem þiggja hann geta hvort heldur nýtt hann sjálfir eða leigt eða selt frá sér og hirt afraksturinn sjálfir. Á móti kemur einungis málamynda auðlindagjald sem er miklu lægra en verðmæti gjafarinnar.

Á þessu eru tvær augljósar lausnir sem báðar eru betri en núverandi fyrirkomulag sem stenst engan veginn eðlilega kröfu um jafnrétti þegnanna þegar kemur að úthlutun sameiginlegra gæða. Fyrri lausnin er að ríkið selji sjálft eða leigi frá sér kvótana gegn gjaldi sem ræðst af eftirspurn. Þá rynni afraksturinn af auðlindinni í sameiginlega sjóði og gæti verið nýttur þar landsmönnum öllum til hagsbóta.

Nákvæmlega hver nýtingin yrði er pólítísk spurning. Til greina kemur í grófum dráttum að veita opinbera þjónustu, lækka skatta eða greiða afraksturinn beint til þegnanna, þar sem allir fá jafnt. Síðasta leiðin er m.a. farin í Alaska fylki í Bandaríkjunum. Þar fá íbúar á hverju ári ávísun frá fylkisstjórninni vegna hlutdeildar sinnar í hagnaði af olíuauðlindum fylkisins. Þessum þremur leiðum má svo auðvitað blanda saman með ýmsum hætti.

Síðari lausnin er meira í anda hugmyndarinnar um að senda landsmönnum hlutabréf í ríkisfyrirtækjum í pósti. Þá myndi ríkið senda sérhverjum landsmanni sinn hlut í kvótanum og fengju þá auðvitað allir jafnt. Síðan gæti hver og einn tekið ákvörðun um hvort hann vill selja sinn hluta, leigja hann frá sér eða jafnvel nýta hann sjálfur. Sjálfsagt myndu flestir selja.

Vitaskuld þyrfti slík breyting, hvort heldur er sala ríkisins á kvóta eða afhending ríkisins til þegnanna, að gerast á nokkrum tíma, t.d. áratug, til þess að þeir sem nú nýta kvótana hafi eðlilegt svigrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum. Þannig væri t.d. hægt að afhenda þjóðinni einn tíunda af kvótanum á ári í tíu ár eða selja sama hlutfall. Jafnframt væri skynsamlegt að láta þá hverja úthlutun vera til tíu ára. Þannig væri hægt að koma á stöðugleika í greininni og tryggja jafnframt annað hvort tiltölulega stöðugar tekjur í ríkissjóð eða tekjustreymi til þegnanna um alla framtíð. Afkoma sjávarútvegs þegar til lengdar lætur yrði hins vegar svipuð og nú enda skiptir ekki máli fyrir greinina hvort hún kaupir eða leigir kvóta af ríkinu eða almenningi frekar en aðilum sem hafa fengið kvóta úthlutað einhvern tíma í fyrndinni eða keypt af þeim sem fengu hann þá.

Hugmyndir af þessum toga eru ekki nýjar. Þær hafa margoft verið settar fram áður en aldrei verið hrint í framkvæmd, fyrst og fremst vegna mikillar og harðrar andstöðu þeirra sem hafa hag af því að auðlindarentan renni til þeirra, frekar en þjóðarinnar. Það er þó engin ástæða til að ætla annað en að fyrr eða síðar verði betra kerfi komið á. Þá er auðvitað betra að það gerist fyrr frekar en síðar. Það skiptir mun meira máli en hvort ríkið afhendir þjóðinni einhvern hluta af eign sinni í einum eða tveimur bönkum.

Höfundur er doktor í hagfræði frá Yale og dósent við Háskóla Íslands.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Anna Dóra Antonsdóttir
Útskýring – leikrit í einum þætti
Kjarninn 14. maí 2021
Byggingar ratsjárstöðvarinnar á Heiðarfjalli hafa að mestu leyti verið jafnaðar við jörðu. Þó er enn mikið magn spilliefna á svæðinu.
Ríkið ráðist í hreinsun spilliefna við ratsjárstöð Bandaríkjahers á Heiðarfjalli
Á Heiðarfjalli er að finna í jörðu úrgangs- og spilliefni frá þeim tíma sem eftirlitsstöð Bandaríkjahers var í rekstri á fjallinu. Landeigendur hafa um áratuga skeið reynt að leita réttar síns vegna mengunarinnar.
Kjarninn 14. maí 2021
DV hefur ráðið nýjan ritstjóra til starfa.
Björn Þorfinnsson ráðinn ritstjóri DV
Blaðamaðurinn Björn Þorfinnson hefur tekið við starfi ritstjóra DV. Tobba Marinós lét nýverið af störfum sem ritstjóri miðilsins, sem er hættur að koma út á pappír.
Kjarninn 14. maí 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
„Af nógu að taka áður en höggvið er í sama knérunn um að laun séu of há“
Forseti ASÍ leggur til nokkrar lausnir áður en ráðamenn og fyrirtækjaeigendur hér á landi fara að gagnrýna slagorð verkalýðshreyfingarinnar „það er nóg til“.
Kjarninn 14. maí 2021
Ráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Bjarni Benediktsson eru stundum sagðir standa í stafni fyrir þær ólíku fylkingar sem rúmast innan Sjálfstæðisflokks og bítast þar um völd og áhrif.
Sjálfstæðismenn á höfuðborgarsvæðinu komnir í prófkjörsham
Tekist hefur verið á um grundvallaráherslur Sjálfstæðisflokksins á óvenjulega opinberum vettvangi að undanförnu. Fulltrúar ólíkra sjónarmiða innan flokksins keppast nú um að koma þeim að í aðdraganda prófkjöra á höfuðborgarsvæðinu.
Kjarninn 14. maí 2021
Innviðir á leiðinni út
Sýn og Nova hefur nýlega hafið sölu á fjarskiptainnviðum sínum auk þess sem Síminn hefur íhugað að gera slíkt hið sama. Aðskilnaður á innviðum og þjónustu þótti hins vegar ekki ráðlegur þegar einkavæða átti Landssímann fyrir 20 árum síðan.
Kjarninn 14. maí 2021
Auglýsingin sem birt var í Morgunblaðinu í gær var nafnlaus, en hafði yfirbragð þess að hún væri á vegum Lyfjastofnunar. Það var hún ekki.
Morgunblaðið biðst velvirðingar á birtingu auglýsingar þar sem efast er um bólusetningar
Konan sem keypti heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem varað var við aukaverkunum vegna bólusetningar gegn COVID-19 segist ekki skammast sín. Lyfjastofnun segir auglýsinguna villandi hræðsluáróður.
Kjarninn 14. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Aur lumar á góðri lífslausn
Kjarninn 14. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None