Fjórtán ára var ég í sveit hjá þeim sæmdarbónda Andrési Jónssyni í Deildartungu í Reykholtsdal. Einn góðan vordag tók hann mig með á ráðstefnu Hernámsandstæðinga sem haldinn var á Bifröst vorið 1961. Þar var mikið mannval, allir helstu gáfumenn þess tíma og eru mér margir minnisstæðir, þó sérstaklega þrír: Jónas Árnason rithöfundur, Stefán Jónsson fréttamaður og séra Þorgrímur Sigurðsson á Staðarstað.
Þegar þetta var hafði verið hvolft yfir mann mörghundruð kvikmyndum um frægðarverk Bandaríkjamanna í seinna heimsstríði og því brá manni nokkuð í brún þegar Wikipedia segir frá mannfalli í þeim hildarleik: Rússar 28 milljónir, Þjóðverjar 8 milljónir, Bretar 0,4 milljónir og Bandaríkjamenn 0,4 milljónir. Kemur þá í ljós að varla er hægt að tala umþátttöku engilsaxa í WW 2. Vorið 1961 kemst John F Kennedy til valda og Dwight D. Eisenhower lætur af störfum og heldur hina frægu lokaræðu sína og varar heiminn við„Military–industrial complex“. Kennedy var sum sé nýkominn til valda þegar ráðstefnan var haldin.
Þeir Jónas og Stefán fóru mikinn og töluðu um hættuna af rísandi fasisma í USA og var ég orðinn verulega smeykur þegar þeir og fleiri höfðu útmálað hina gífurlegu hættu sem okkur stafaði af herstöðinni á Miðnesheiði, en stefnu vinstri manna í þessum efnum á þessum tíma má lýsa með: „Hætta, hætta, hætta“. Þá steig í pontu séra Þorgrímur , en hann hafði það sér til ágætis að vera einn af örfáum Sjálfstæðismönnum sem voru andvígir hersetunni. Hann dró úr hættunni af fasisma í USA og er hans ræða mér ógleymanleg og hef ég jafnan sett spurningar við allar „Hættu“- ræður besserwissera síðan.
Demókratar í USA eru alltaf logandi hræddir um að vera sakaðir um sósíalisma eða jafnvel kommúnisma og gera þeir margt til að þvo af sér þessa hroðalegu stimpla McCarthyismans. Þannig þóttist Kennedy ætla að ráðast á Kúbu en Khrútsov hafði vit fyrir honum og Obama tók fullan þátt í manndrápunum í Úkraínu (14 þús. drepnir og 1,5 milljón flúin) en Pútín virðist ætla að hafa vit fyrir honum líka. Þetta gildir um þá flesta nema Bernie Sanders, sem skammast sín ekkert fyrir heilbrigða skynsemi.
Nú geipa gáfumenn mikinn um fasisma í USA í kjölfar innsetningar Trumps og tína til margt sem minnir á valdatöku Hitlers með analogiu. Bláir í framan leita menn að samsvörun en gleyma um leið hinni Forn – Grísku aðferð að gæta að mismuninum. Í stað þess að mótmæla niðurstöðu kosninga eins og fína fólkið gerir nú í sinni síðbornu lýðræðisást, væri þessu liði hollara að harma örlög Sanders. Hans framboð sannar að enn eru milljónir í Bandaríkjunum sem bera má virðingu fyrir.