Það er áhugavert að í umræðunni um umferðarmál í borginni þá birtast tvo mjög ólík sjónarmið en aldrei á sama stað. Þegar íbúar senda athugasemdir vegna skipulags eða framkvæmda eða viðra áhyggjur af sínu nánasta umhverfi þá er rauði þráðurinn frekar skýr: Umferðin er of mikil og of hröð. Hún veldur slysum, óöryggi, loftmengun og hljóðmengun. Það sem fólk biður almennt um er lokun gatna, hraðahindranir, tryggari gönguleiðir og fleira sem dregur úr hraða og tryggir öryggi gangandi. Ég get til dæmis fullyrt að allar hraðahindranir sem settar eru niður í Reykjavík eru til komnar vegna þrýstings frá íbúum borgarinnar. Hver sem hefur mætt á íbúafundi í hverfum borgarinnar, lesið athugasemdir við skipulagsáætlanir eða kíkt á hugmyndir í Betri Reykjavík eða Mínu hverfi þekkir þetta. Enginn biður um fleiri akreinar, mislæg gatnamót eða hækkaðan hámarkshraða í sínu hverfi.
Þegar rætt er um umferðina almennt þá fer ekki mikið fyrir þeim sjónarmiðum sem nefnd voru að ofan. Þá skyndilega velta fram hugmyndir um greiðari og hraðari umferð með fleiri akreinum, mislægum gatnamótum og almennt að meira sé gert fyrir bílaumferðina svo hún sé enn þægilegri valkostur. Það er þægilegt að ræða breytingar sem verða heima hjá öðrum.
Miðborgin stækkar
Borgarumhverfið tekur miklum breytingum þessi misserin. Miðborgin er í umbreytingarferli sem gaman væri að rekja í smáatriðum síðar. Uppbygging er að hefjast, er í miðju kafi eða að klárast á fjölda reita. Samtímis hefur miðborgin ekki verið líflegri undanfarna 3 áratugi. Þar sem áður voru mannlausar götur er líf og fjör frá morgni til kvölds og stundum lengur. Tómt verslunarhúsnæði sést ekki lengur. Áhrifin smita líka út frá sér og fólk sér hvernig ýmis þjónusta og stemning sem við tengjum miðborginni nær út í nærliggjandi hverfi. Miðborgin er hreinlega að stækka. Það mætti segja að áhrifasvæði miðborgarinnar nái austur að Kringlumýrarbraut nú orðið.
Borgarumhverfi sem byggt var fyrir lok 6. áratugarins er í grundvallaratriðum öðruvísi en það sem byggt var síðar. Það munar þar um bílinn sem fór að verða ráðandi þáttur síðar. Eldri hverfin eru gerð fyrir alla fararmáta í bland en nýrri hverfin fyrir skýrari aðgreiningu. Það er ekki mögulegt að endurnýja eldri hverfi með strangri aðgreiningu ferðamáta nema að eyðileggja þau sérkenni sem við teljum eftirsóknarverð: nálægð við þjónustu og götur sem almenningsrými. En samtímis glíma elstu hverfin við mesta nálægð við skaðleg áhrif bílaumferðar sem sker íbúðarhverfi sundur.
Miðborgarumhverfi - Miðborgarhraði
Það er ekki boðlegt að bæta við þau skaðlegu áhrif sem bílaumferð hefur á umhverfi sitt vestan til í borginni. Það besta sem hægt er að gera í stöðunni er að minnka áhrifin sem umferðin hefur. Einn þáttur er sameiginlegur orsakavaldur loftmengunar, hávaðamengunar, skertu öryggi og skaðsemi slysa: Aksturshraðinn.
Það er því kominn tími til að endurskoða hraðatakmarkanir á öllu miðsvæði Reykjavíkurborgar, allt frá Seltjarnarnesi í vestri austur að Kringlumýrarbraut. Hraðbrautir með 60 km/klst hámarkshraða eiga ekkert erindi gegnum íbúðahverfi. Megingötur íbúðahverfa þurfa ekki 50 km/klst til að virka. Greining sérfræðinga á aðstæðum vestan til í borginni bendir eindregið til þess að setja ætti þak á umferðarhraðann við 40 km/klst. Sum svæði sem ekki hafa verið gerð að 30 km svæðum ættu að verða það og jafnvel ætti að íhuga hvort sum 30 km svæði gætu orðið að vistgötum.
Þar sem miðborgin er að stækka er því eðlilegt að hraðaumhverfið þar breiði einnig úr sér og lífsgæði íbúanna verði aukin, með minni mengun og auknu öryggi með því að draga úr hraðanum.
Höfundur situr í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar