Nú er kaldhæðnin ein af stóru einkennum fasismans, en þannig vill til að sá hópur á Íslandi sem hvað dyggast hefur stutt Donald Trump og fagnað sigri hans, er sama fólkið og kvartar linnulaust undan svokölluðum pólitískum rétttrúnaði. Að vísu virðist þetta ágæta fólk rugla hugtakinu saman við almenna velvild í garð annars fólks, eða mannréttindi eða eitthvað slíkt, en það er vissulega pólitískur rétttrúnaður til staðar á Íslandi eins og annars staðar. Í allmarga áratugi hefur það nefnilega verið óskráð regla, að í stjórnmálaumræðu á maður aldrei að líkja neinu við fasisma.
Ástæðan er að hluta til sú að farið hefur verið full fjálglega með hugtakið í óagaðri samtölum í gegnum tíðina. En þessi pólitíski rétttrúnaður þýðir að þegar fasisminn snýr aftur, eins og fjölmargir hafa spáð í meira en 70 ár að hann muni gera, þá fyrirskipar pólitíski rétttrúnaðurinn afneitun. Enga hegðun skal bera saman við fasisma. Þetta er hinn sanni pólitíski rétttrúnaður, ekki sá að krefjast jafnræðis fyrir lögum óháð trúarbrögðum, eða mannúð í málefnum útlendinga.
Þessa dagana er erfitt að fjalla um annað en forseta Bandaríkjanna, Donald Trump. Jarðvegurinn er frjór; algjört hrun trausts almennings gagnvart bæði yfirvöldum og fjármálakerfinu þýðir að ansi margt fólk vill meira eða minna hvað sem er, annað en það sem á undan er gengið. Það er auðvitað mjög skiljanlegt, en eins og sagan sýnir svo ekki verður um villst, þá geta brjáluð samfélög leitt af sér brjálaða leiðtoga.
Fasismi er hugtak sem fræðimenn hafa karpað um frá upphafi hvað þýði nákvæmlega. Rót ástæðunnar er líklega sú að faðir fasismans, Benito Mussolini, virtist hreinlega ekki hafa hugsað málið alveg til enda. Því mætti færa rök fyrir því að fasisma væri best lýst af honum þegar hann sagði: "Stefna okkar er einföld. Við viljum ráða yfir Ítalíu."
Það er að vísu þó nokkuð síðan ég fékk mig fullsaddan af því þeirri vægast sagt ofmetnu iðn að karpa um skilgreiningar á orðum. Það er ekki nauðsynlegt að skilgreina fasisma í öllum smáatriðum til þess að bera saman stjórnartíð Donalds Trumps við uppgang fasismans á Ítalíu eða í Þýskalandi. Forsetastóll Donalds Trumps snýst um það að ráða yfir Bandaríkjunum og það er hvorki klæðaburður hans né yfirvaraskegg sem knýr fólk til að kalla hann fasista, heldur orð hans og gjörðir.
Nýjustu fréttir frá Bandaríkjunum eru, eins og því miður ansi oft þessa dagana, um Twitter-tíst frá forsetanum, en það hljóðar svo í íslenskri þýðingu: "Álit þessa svokallaða dómara, sem í grunninn tekur lagaframfylgd frá landi okkar, er fáránlegt og því verður snúið við!" - Þar á hann við að alríkisdómari hafi sumsé dirfst að þjóna hlutverki sínu við það að veita yfirvöldum lagalegt aðhald, þegar Donald Trump gaf út tilskipun þess efnis að hindra fólk í að koma til Bandaríkjanna frá 7 löndum þar sem múslimar eru í meirihluta.
Það ætti að vera hætt að koma nokkrum á óvart að sjá og lesa slíkt frá Donald Trump, en þarna gerir hann tvennt. Hann grefur undan lögmæti dómstóla og þar með réttarríkisins sem var sett á fót til að veita stöðu hans aðhald. En það sem ætti líka að vekja hroll, er að hann tilgreinir sjálfan sig sem landið. Eins og ef "svokallaðir dómarar" séu einhvern veginn ekki hluti af Bandaríkjunum og bandarísku lagaumhverfi. Eins og ef aðhald með ákvörðunum hans sé í andstöðu við Bandaríkin sjálf.
Jæja, ef maður ætlaði að útlista allt sem Donald Trump hefur sagt passar við fasismann, þá yrði þessi pistill of langur til að nokkur manneskja nennti að lesa hann. Ég skora á hvern einasta lesanda samt að tína það til af sjálfsdáðum, því myndin verður hratt mjög skýr.
Við skulum því snúa okkur að alvarlegri spurningu heldur en hversu hneyksluð við ætlum að þykjast vera yfir orðanotkun, þar sem heiti fyrirbærisins er ekki í sjálfu sér aðalatriðið. Hvað gerist ef hryðjuverkaárás verður framin í Bandaríkjunum á meðan Donald Trump er forseti? Hvað mun "sterki leiðtoginn" gera sem "svokallaðir dómarar" og "hræðilegir fjölmiðlar" hindra "landið" í að gera til að vernda borgarana? Ef við tökum einungis fyrir það sem hann hefur sjálfur sagt og gert, verður þá svarið við þessari spurningu minna óhugnanlegt ef við bara sleppum því að kalla hann fasista? Ég held ekki.
Athugum að tilskipunin sem sett var lögbann á var, að sögn sterka leiðtogans, til þess að verja bandaríska þegna gegn hryðjuverkum. Markmiðið virðist hinsvegar miklu frekar vera að uppfylla loforð hans um að vera leiðinlegur við múslima. Hvorki leyniþjónustan eða herinn kölluðu eftir þessu, og eru þó heldur betur ófeimin við að sanka að sér valdheimildum. Hvernig heldur fólk að hann bregðist við ef hryðjuverkárás verður framin í Bandaríkjunum í forsetatíð hans, miðað við hegðun hans núna?
Hvar munu mörk hans reynast þá?
Ég ætla að svara þessu: þau munu reynast hvergi. Donald Trump hefur sýnt fram á það, ekki einu sinni eða tvisvar, heldur í hegðun sinni og orðræðu almennt, að fyrir honum eru engin takmörk. Hann gerir það sem hann vill og einfaldlega tekur slaginn við þá sem eru ósammála honum eða veita honum aðhald, sama hvort það eru dómstólar eða almenningur eða fjölmiðlar eða alþjóðastofnanir eða hvað. Við þurfum ekkert að velta fyrir okkur hvort hann sé líklegur til að beita gasklefum á einhverja hópa eftir 9 ár, því það stendur eftir og er einfaldlega þannig, að hegðun hans og orðræða eiga sér fyrirmyndir í hrottunum sem náðu völdum í Evrópu á fyrri hluta 20. aldar. Auðvitað eru aðstæður í Bandaríkjunum frábrugðnar þeim sem voru í Evrópu á sínum tíma enda er birtingarmynd fasismans hvergi nákvæmlega eins, en öll höfuðeinkennin eru til staðar og ættu að vera öllum augljós.
Við getum ekki leyft pólitískum rétttrúnaði að blinda okkur fyrir því.