Maður verður kjaftstopp þegar fréttir berast nú af illri meðferð heimilisfólks á Kópavogshæli á sjötta- og allt fram á tíunda áratug síðustu aldar. Enn birtist skýrsla sem staðfestir vonda meðferð og misbeitingu á opinberum stofnunum. Að þessu sinni vanrækslu og miskunnarlausu ofbeldi á fötluðu fólki, jafnvel litlum börnum.
Þetta var heimili fólksins og þar dvöldu helst þau sem bjuggu við versta félagslega stöðu; með veikast bakland. Það sem átti að vera öruggt skjól viðkvæmra einstaklinga, varð að helvíti fyrir marga. Það er auðvitað þyngra en tárum taki að svona nokkuð geti hafa gerst. Þrátt fyrir að lög og reglugerðir ættu að hindra slíkt virðist eftirlitið hafa misfarist fullkomlega. Samfélagið okkar brást þeim sem síst skyldi; fólki sem stóð einstaklega höllum fæti og gat enga björg sér veitt.
Að sjálfsögðu á að greiða þeim einstaklingum sem enn lifa ríflegar sanngirnisbætur, þótt vitanlega verði aldrei hægt að bæta fyrir það sem gerðist.
Í viðtali á Rúv við fyrrverandi formann Þroskahjálpar, Gerði Aagot Árnadóttur, sem bað um að skýrslan um Kópavogshæli yrði unnin, sagði hún: „Það er brotið á fötluðum börnum og fólki, ekki verið að veita þá þjónustu sem þarf og það eru alveg sömu afsakanir og þá: skortur á fjármagni, skortur á starfsfólki, réttindagæslan er ekki tryggð og eftirlit með þjónustunni er ekki í lagi. Þessir einstaklingar í dag njóta ekki sömu mannréttinda og annað fólk og það er algjörlega óásættanleg staða.“ Það er ljóst að við eigum enn langt í land til að tryggja réttindi fatlaðs fólks og skapa þeim tækifæri til að lifa sjálfstæðu lífi.
Það væri því bragur að því að Alþingi lögfesti á yfirstandandi þingi áður staðfestan samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk og kláraði innleiðingarferlið. Við sjáum skýrt í þessu máli að það er þó engan veginn nóg að samþykkja lög og reglur. Þeim verður að fylgja eftir með auknu eftirliti.
Fyrrnefnd atriði eru hluti af tillögum Vistheimilisnefndar til úrbóta. Þar er að finna fleiri tillögur m.a. um vernd barna þegar grunur er um beitingu ofbeldis, að fólki sé búið húsnæði við hæfi sem uppfylli lagaskilyrði og lögð verði áhersla á afgreiðslu þingsályktunar um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021. Þingmenn verða að skoða þessar tillögur ofan í kjölin, taka þarf afstöðu til þeirra fljótt og örugglega og finna fjármagn til þess að hægt sé að framkvæma nauðsynlegar aðgerðir.
Enn eiga margir heimili sitt á stofnunum, sambýlum og íbúðaeiningum sem eru rekin af hinu opinbera eða með fjárveitingum þaðan. Þetta á m.a. við um marga fatlaða og aldraða. Nú þurfa allir 63 þingmennirnir að taka saman höndum og vinna að bættum kjörum og aðstæðum þessara hópa.