Í sívaxandi húsnæðisvanda höfuðborgarsvæðisins er aðgerðarleysi yfirvalda æpandi. Ástand húsnæðismála í dag minnir einna helst á stríðsárin. Þá stóð alþýða höfuðborgarsvæðisins í hanaslag með Íslenskan gjaldmiðil á ónýtum leigumarkaði. Andstæðingar voru erlent herlið vopnað viðurkenndum gjaldeyri. Fyrir Íslendinga í húsnæðishraki var baráttan vonlaus .
Í dag berjast leigjendur höfuðborgarsvæðisins á þremur vígstöðvum :
- Við ferðamenn, vopnaða viðurkenndum gjaldmiðlum.
- Við lífeyrissjóði landsmanna. Sem soga byggingariðnaðinn með sér inn í heimatilbúna hótelbólu.
- Þriðji og erfiðasti andstæðingurinn er skeytingarleysi og mismunun yfirvalda gagnvart leigjendum í húsnæðismálum. Gott dæmi um það var skuldaleiðréttingin. Hvað fengu leigjendur ?
Úr þögn og aðgerðarleysi yfirvalda má lesa skilaboð til leigjenda :
Verið sallaróleg, og Salekhófleg í launakröfum. Þó að leigan hækki lóðrétt upp á við eins og loftbelgur á leið til himins. Þó allar launahækkanir leigjenda hverfi í hækkaða húsaleigu.
Þögn alþýðusamtaka og stjórnarandstöðu í húsnæðismálum er einnig yfirþyrmandi. Um daginn rauf reyndar velferðarráðherra þagnarmúr húsnæðismála. Skilaboðin voru : Við eigum að hafa áhyggjur af bólumyndun á fasteignamarkaði.
Sem sagt, höfum áhyggjur af ísjakanum beint fram undan stefni skipsins. En á ekkert að breyta stefnunni ?
Leigjendur þurfa að láta í sér heyra.
Húsnæðisvandinn er pólitískur, ekki tæknilegur.
Ónýtur leigumarkaður er ekki náttúrulögmál, heldur heimatilbúið pólitískt vandamál.
Horfið út úr gullfiskabúrinu. Í nágrannalöndum eru byggðar nýjar leiguíbúðir.
Þar kostar 3ja herbergja íbúð rétt um 100.000 krónur á mánuði.
Leigjendur :
Samstaða er allt sem þarf.
Leitið réttar ykkar.