Byggingin á myndinni er um 14.500 fermetrar að flatarmáli. Hún er dæmigerð fyrir þá glerkassa og turna sem döguðu uppi í borgarlandinu eftir hrun. Þessi bygging hefur staðið tóm í upp undir áratug.
Hvað skyldu lífeyrissjóðir hafa tapað miklu á framkvæmdinni og öðrum álíka? Svimandi fjárhæðir fóru í súginn þegar verktakar og eignarhaldsfélög fóru á hausinn á færibandi eftir hrun.
Flatarmál byggingarinnar samsvarar á fimmta hundrað smáíbúðum, sem sárvantar í dag á höfuðborgarsvæðinu. Ímyndum okkur nú eitt augnablik að byggingin hefði risið sem íbúðablokk með litlum leiguíbúðum.
Sem lífeyrissjóðir rækju og leigðu út á hóflegum kjörum til almennings. Þá væri hagnaður af framkvæmdinni, og samfélagslegur ávinningur í formi minni húsnæðiseklu.
Enn fremur slyppu borgarbúar við þá sóun og sjónmengun sem felst í hálfkláruðum steypukumböldum. Sem standa tómir heilu og hálfu áratugina í borgarlandinu.
Ef tap lífeyrissjóða af svipuðum byggingaframkvæmdum er talið saman, og umbreytt í litlar íbúðir, eru þá ekki komin þau auka Breiðholtshverfi sem vantar í húsnæðisjöfnu höfuðborgarsvæðisins?
Húsnæði er lífsnauðsyn og ætti að vera áhættulítil fjárfesting til langframa fyrir lífeyrissjóði. Erlendis er vel þekkt að lífeyrissjóðir eigi og reki leiguíbúðir fyrir þegna sína.
Af hverju ekki á Íslandi?
Ef lífeyrissjóðir geta byggt 20 hæða fjölbýlishús (hótel) fyrir útlendinga á 18 mánuðum, geta þeir þá ekki líka byggt 5 til 10 hæða blokkaríbúðir fyrir eigendur sína?
Er það ósanngjörn krafa?