Losun gróðurhúsalofts á Íslandi er að langstærstum hluta (72%) frá framræstu votlendi, samkvæmt opinberum ráðuneytistölum sem fram komu á Alþingi á síðasta ári. Samt virðast þessi staðreynd vera eitthvert tabú sem ekki má tala um. Það virðist alltaf vera horft eitthvert annað þegar rætt er um að minnka losun gróðurhúsalofts, nú síðast í nýútkominni skýrslu HÍ. Venjulegt fólk skilur ekki hvers vegna. Ef mönnum er alvara með náttúruvernd og minnkun losunar, hvers vegna má ekki að byrja þarna á langstærsta losunarvaldinum? Er svona flókið að moka ofan í skurði? Talan 72% af losun CO2 er svo yfirgnæfandi að það hlýtur að skipta langmestu máli – hvort sem hlutfallið er hárnákvæmt eða gróft metið.
Við endurheimt votlendis endurheimtist náttúra Íslands með vaðfugli og sundfugli og öðrum dýrum. Rætur mýragróðursins halda jarðveginum saman og vatnið nærir og elur smádýralíf sem dregur svo aftur til sín fugla. Mýrarnar, sem stundum eru kallaðar öndunarfæri landsins, eru nú víða horfnar af stórum svæðum. Þessi svæði gegna í flestum tilfellum engu hlutverki í uppþornuðu ástandi öðru en því að halda áfram að losa gróðurhúsaloft – menga andrúmsloftið. Hið skrýtna er að það eru nefnilega ekki nema 15% af framræstu votlendi hér á landi notuð til landbúnaðar.
Árin 2009 til 2013 var stefna stjórnvalda að koma upp sem flestum kísilverum á landinu. Það var kannski skiljanlegt út af fyrir sig sem mótleikur gegn efnahagskreppu en fylgikvillinn er augljós. Kísilverin munu auka verulega losun frá iðnaði sem stendur nú fyrir um 12% losunar á landsvísu. Þessu verður líklega ekki breytt að svo komnu, við sitjum uppi með þá stöðu. Ekki mun heldur duga að rafvæða alla fólksbíla á landinu sem losa um 4% alls sem við losum, þó svo að það sé mjög skynsamlegt markmið og mjög af hinu góða. Landbúnaður, fyrir utan framræst votlendi, losar 4% og sjávarútveginn losar 3% af heildarlosun, þannig að þar er um tiltölulega lágar tölur að ræða af heildinni líkt og með farartækin.
Maður spyr sig hverra hagsmunum það þjóni að vilja ekki horfa til þessa mikla og auðsótta ávinnings sem felst í að sækja í endurheimt votlendis. Vera má að ekki sé talað um endurheimt votlendis í Parísarsáttmála eða öðrum slíkum sáttmálum sem ráðamenn horfa til en vandinn – og ávinningurinn – hlýtur að vera sá sami hvaðan sem losunin kemur. Eða erum við kannski að tala um hliðstæðan raunveruleika eins og nú er í tísku sums staðar? Spyr sá sem ekki veit.