Listmeðferð er meðferðarform sem á sér rúmlega 35 ára sögu hér á íslandi og hafa listmeðferðarfræðingar unnið á ýmsum deildum Landspítalans s.s. geðdeildum, Hvítabandinu, barnadeild og á líknardeild. Einnig hafa listmeðferðarfræðingar starfað í skólum, leikskólum og á öldrunarsviði hér á landi svo fátt eitt sé nefnt. Fræðin á bak við listmeðferð byggja á sálfræðilegum kenningum, þar sem margskonar myndsköpun er notuð til tjáningar og úrvinnslu á upplifunum og áföllum undir umsjón listmeðferðarfræðings. Meðferðin er fjölþætt, margbreytileg og einstaklingsbundin, þannig mótast hún út frá þörfum hvers skjólstæðings fyrir sig. Grundvallar markmið er þó að öðlast traust skjólstæðings og veita viðkomandi öruggt umhverfi til að tjá tilfinningar og lífsreynslu með tvívíðri eða þrívíðri myndsköpun.
Listmeðferð hefur staðið börnum og unglingum á meðferðardeild Stuðla til boða síðan haustið 2012. Hún hefur reynst mikilvægur valkostur fyrir skjólstæðinga, sem oft á tíðum eru tortryggnir og í mótþróa við hefðbundin meðferðarúrræði og inngrip. Það getur gert það að verkum að þeir eigi erfitt með að treysta meðferðaraðilum. Stuðlar eru greiningar- og meðferðarstöð fyrir börn og unglinga á aldrinum tólf til átján ára og hafa verið starfræktir síðan 1996. Skjólstæðingar Stuðla glíma flestir, m.a. við hegðunarvanda og/eða vímuefnavanda en greiningar skjólstæðingahópsins hafa með tímanum orðið sífellt fjölbreyttari og margþættari. Meðaldvöl á meðferðardeildinni er átta til tólf vikur, en sumir skjólstæðingar dvelja skemur og aðrir lengur.
Þó að listmeðferð á Stuðlum sé einstaklingsbundin þá eru ákveðin atriði sem koma upp hjá nánast öllum unglingum, sem sækja þangað meðferð, svo sem slök sjálfsmynd, kvíði og áfallasaga af einhverju tagi. Skjólstæðingurinn fær frjálsar hendur við val á efnivið og viðfangi en mikilvægt er að listmeðferðarfræðingur meti aðstæður hverju sinni varðandi inngrip og uppástungur. Algengt er að þau óttist að standast ekki samanburð og eigin væntingar þegar kemur að listsköpun og dæma sig sjálf úr leik af þeim sökum. Í listmeðferð er aðaláherslan aftur á móti lögð á sköpunarferlið, en ekki á lokaútkomuna eða hefðbundin fegurðargildi. Þannig er það hlutverk listmeðferðarfræðingsins að aðstoða, bregðast við og fylgjast með tilfinningalegum viðbrögðum, hegðun og líkamstjáningu skjólstæðings. Einnig skiptir upplifun skjólstæðingsins, vinnulag, innihald verksins og hvað viðkomandi hefur að segja um sköpunarverk sitt máli.
Vinnan sjálf getur einnig verið slakandi og tengist núvitund að því leyti að athygli er vakin á áferð, lykt, viðnámi og fleiru sem tengist efniviðnum og sköpunarferlinu. Þá eru unglingarnir hvattir til að staldra við og taka eftir þessum atriðum ásamt áhrifum vinnunnar á eigin líðan og meðvitund um líkamsbeitingu við vinnuna. Abstrakt eða óhlutbundin vinna getur verið mjög mikilvæg í þessu ferli, því þegar unnið er á óhlutbundinn hátt hverfur óttinn við útkomuna. Þ.e.a.s. það er ekkert rétt eða rangt í því hvernig þú velur, dreifir eða slettir litum, svo dæmi séu tekin. Slík vinna getur einnig gagnast við að koma einstakling í betri tengsl við umhverfi sitt og virkað sem ákveðin jarðtenging t.d. eftir mikla neyslu og rótleysi. Vinnuferlið getur í sjálfu sér einnig verið styrkjandi fyrir sjálfsmynd barnanna. Með listsköpuninni er markvisst unnið með skilyrðislausri viðurkenningu, stuðningi og hvatningu gegn neikvæðum hugmyndum, sem börnin hafa mögulega mótað um sig sjálf.
Þannig getur listmeðferð veitt skjólstæðingum vettvang til að tjá sig um erfið málefni með öðrum leiðum heldur en með orðum. Sköpunin sjálf veitir líka mögulega losun og vinnuferlið eitt og sér getur verið gefandi og veitt vellíðan ásamt því að trú á eigin getu eykst. Með því að aðstoða einstaklinginn við að spegla sjálfan sig í þessu samhengi eykst sjálfsþekking og sjálfstraust.
Höfundur er listmeðferðarfræðingur.