Flest getum við verið sammála um að ef konur og karlar eru jafnfær, þá ætti að öðru jöfnu að greiða þeim sambærileg laun og þau ættu að hafa jafna möguleika á þeim stöðuhækkunum sem þau sækjast eftir. En því miður er veröldin er ekki svona einföld. Án þess að við gerum okkur grein fyrir því, þá metum við færni karla og kvenna á mismunandi hátt. Þetta kallast „unconcious bias“ sem hægt væri að þýða sem óafvitandi fordómar. Af þessum sökum er nauðsynlegt að horfa sérstaklega til kyns við launaákvarðanir og skipun í stöður.
Almennt er erfitt að meta hvort við dæmum konur á annan hátt en karla, en það er hægt í tilraunaumhverfi og á undanförnum árum hefur hver rannsóknin á fætur annarri sýnt að kyn ræður miklu við mat á færni. Það er nefnilega svo að karlar eru að jafnaði metnir hæfari en konurnar, jafnvel þótt ekkert sé til staðar sem styðji það álit. Þvert á móti er þess gætt í þessum rannsóknum að ekki muni öðru en því að annar aðilinn heitir kvennafni og hinn karlnafni. Í þessum rannsóknum eru það bæði konur og karlar sem dæma konur harðar en karlana, svo þetta er ekki eitthvað sem konur geta kennt körlum um.
Frægasta dæmi þessa eru hæfnisprófanir hjá sinfóníuhljómsveitum. Árið 1970 var hlutur kvenna í fimm frægustu sinfóníuhljómsveitum Bandaríkjanna einungis 5%. Þá var ráðningarferlinu breytt í þá átt að áheyrnarprufur fór fram á bak við tjald, svo dómarar sáu ekki kyn þess sem spilaði. Við þessa einföldu breytingu jukust líkur á því að konur kæmust áfram í næstu umferð í ráðningarferlinu um 50%. Í dag er hlutur kvenna í þessum sinfóníuhljómsveitum um fjórðungur (Goldin and Rouse, 1997).
Einhverjir gætu talið að þeir sem starfa í æðstu menntastofnunum myndu ekki gera sig seka um mismunun vegna kynferðis, en það er ekki svo. Í rannsókn sem gerð var á umsóknum um starf í háskóla (Moss-Racusin og fl., 2012) áttu akademískir starfsmenn í vísindum að gefa umsögn um umsókn nemanda í starf aðstoðarmanns á rannsóknarstofu. Þeir sem mátu umsóknirnar töldu karlkyns umsækjandann mun hæfari en kvenkyns umsækjandann, jafnvel þótt umsækjendur væru í raun alveg eins fyrir utan kyn þeirra. Þátttakendur voru líka tilbúnir að greiða karlkyns umsækjendum hærri laun og að veita þeim meiri leiðbeiningu (e. mentoring). Enn fremur kom í ljós að kyn þeirra sem mátu upplýsingarnar skipti ekki máli, bæði konur og karlar mátu karlinn betri en konuna.
Í háskólaumhverfinu eru háskólakennarar meðal annars dæmdir eftir kennslumati nemenda, þar sem nemendur lýsa reynslu sinni og gefa kennurum sínum einkunn. Sums staðar er slíkt mat eitt af því sem lagt er til grundvallar við framgang í starfi. Erfitt er að meta hvort um er að ræða kynjamun í kennslumati, en í fjarnámi í háskóla í Bandaríkjunum var gerð tilraun sem bendir til þess að kvenkyns kennarar séu dæmdir harðar af nemendum en karlkyns vinnufélagar þeirra.
Rannsókn þessi var gerð meðal nemenda í fjarnámi á sumarönn. Einu tengsl nemenda við kennara voru í gegnum tölvupóst og í gegnum kennslukerfi þar sem fram fóru umræður líkt og á samfélagsmiðlum. Nemendum var skipt í fjóra hópa sem voru í umsjá tveggja aðstoðarkennara. Hlutverk kennaranna var að stýra umræðum í kennslukerfinu og fara yfir verkefni. Aðstoðarkennararnir tveir, karl og kona, höfðu víðtækt samráð um flest er við kom kennslu þeirra. Þeir kynntu sig fyrir nemendum á sambærilegan hátt sem sýndi mjög líkan bakgrunn. Þeir sinntu nemendum sínum á sambærilegan hátt og einkunnagjöf fyrir alla hópana var samræmd.
Hvor kennari hafði umsjón með tveimur hópum. Tilraunin fólst í því að tveimur hópum var sagt rétt til um hver væri kennari þeirra, þ.e. einum hóp hjá karlkyns kennara og einum hjá kvenkyns kennara. Hinum tveimur hópunum var sagt rangt til, þ.e. sá hópur sem hafði karlkyns kennara var sagt að kennarinn væri kvenkyns og öfugt með hinn hópinn.
Í kennslumati að námskeiði loknu kom í ljós marktækur munur á einkunnum kennaranna tveggja. Marktækur kynjamunur reyndist vera ef horft var út frá þeim kennara sem nemendur töldu sig hafa. Af 12 mælikvörðum í kennslumatinu mældist kvenkyns kennarinn lægri á sex þeirra. Aftur á móti ef horft var út frá því hvort það var raunverulega karl eða kona sem kenndi hópnum, þá var enginn kynjamunur. Sami kennari fékk þannig mismunandi einkunn eftir því hvort nemendur töldu hann kvenkyns eða karlkyns. Sem dæmi má nefna að ef kennari birti einkunnir eftir tvo daga sem karlkyns kennari fékk hann einkunnina 4,35 af fimm mögulegum, en ef kennari birti einkunnir eftir tvo daga sem kvenkyns kennari var henni einungis gefin einkunnin 3,55 af fimm mögulegum.
Í bók sinni Lean In segir höfundurinn Sheryl Sandberg að því meiri velgengi sem karlmaður nýtur þeim mun betur líkar fólki við hann. Aftur á móti líki fólki síður við konur sem njóta velgengni. Hún vísar til rannsóknar sem var gerð við bandarískan háskóla árið 2003 af Frank Flynn og Cameron Anderson. Þeir létu stúdenta meta hæfni stjórnanda út frá gefnum upplýsingum. Allir fengu sömu upplýsingar, en helmingurinn fékk þær með kvennafninu Heidi og hinn helmingurinn með karlmannsnafninu Howard.
Ekki var munur á hvernig þátttakendur mátu hæfni Heidi og Howards. Á hinn bóginn líkaði þeim ekki við Heidi en voru hrifin af Howard. Þau vildu hvorki vinna fyrir né ráða Heidi en öðru máli gilti um Howard. Tarje Gaustad og Ketil Raknes (2015) endurtóku þessa rannsókn á norskum háskólastúdentum. Nöfn frumkvöðlanna í þeirri rannsókn voru Hanna og Hans. Nemendum líkaði verr við Hönnu en Hans og töldu hana vera verri stjórnanda þrátt fyrir að eini munurinn á þeim væri nafnið. Þá kom einnig fram að það var kynjamunur á áliti nemendanna. Lítill munur var á mati kvenna á Hönnu og Hans, en karlmenn voru mun neikvæðari gagnvart Hönnu.
Þær rannsóknir sem ég hef rætt hér eru allar erlendar rannsóknir og því er rétt að spyrja hvort búast megi við því sama hérlendis. Ísland er jú efst á listum ríkja þar sem mest jafnrétti ríkir. Í rannsókn Þorláks Karlssonar, Margrétar Jónsdóttur og Hólmfríðar Vilhjálmsdóttur (2007) var leitast við að svara spurningunni hvort körlum væru boðin hærri laun en konum að öðru óbreyttu. Einnig var kannað hvort mismunun vegna kynferðis kæmi líka fram í ráðleggingum til kvenna og karla um hvaða laun þau ættu að fara fram á. Notaðar voru paraðar starfsumsóknir sem voru alveg eins að undanskildu kyni umsækjenda. Þátttakendur voru bæði starfsmenn fyrirtækja og háskólanemendur og tilviljun réði því hvort þátttakandi fékk kven- eða karlumsækjanda til að ráða og hvort frænka eða frændi bað um ráð hjá viðkomandi.
Rannsóknin sýndi fram á að munur á launum var alltaf í sömu átt. Konum voru boðin lægri laun, talið var að þær myndu sætta sig við lægri laun og þeim var ráðlagt að biðja um og sætta sig við lægri laun heldur en karlar. Kona fékk að meðaltali 10-12% lægri laun en karl í öllum mælingum. Körlum voru boðin hærri laun en konum, óháð því hvort þátttakandi var karl eða kona.
Hér hafa eingöngu verið nefnd örfá dæmi, en rannsóknir þessar eru fjölmargar og undantekning ef niðurstaða þeirra sýnir að ekki sé munur á því hvernig konur og karlar eru metin. Því er nauðsynlegt að taka tillit til þess að jafnvel þótt við teljum okkur geta lagt hlutlægt mat á færni karla og kvenna, þá benda rannsóknir til þess að það sé ekki svo. Túlkun á mati á kynbundnum launamun verður því að meta í þessu ljósi og þegar skipað er í stöður jafnt hjá hinu opinbera og á almennum markaði þarf að hafa í huga að líklegast erum við að meta karlinn hæfari en hann er og konuna minna hæfa en hún í rauninni er.
Greinin er að hluta byggð á ritinu Staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði: Staðreyndir og staða þekkingar sem kom út í maí 2015.Höfundur er lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.
Heimildir:
Goldin, C. og Rouse, C. (1997). Orchestrating impartiality: The impact of blind auditions on female musicians, NBER Working Paper no. 5903. Sótt af http://www.nber.org/papers/w5903.pdf.
Moss-Racusin, C.A., Dovidio, J.F., Brescoll, V.L, Graham, M.J. og Handelsman, J. (2012). Science faculty‘s subtle gender biases favor male students. Proceedings of the National Adacemy of Sciences of the United States of America, vol. 109, no. 41.
Gaustad, T. og Raknes, K. (2015). Menn som ikke liker karrierekvinner. Hovedresultater fra en eksperimentell undersøkelse. Sótt af http://www.tankesmienagenda.no/wp-content/uploads/Tankesmien-Agenda-Rapport-Menn-som-ikke-liker-karrierekvinner.pdf
Katrín Ólafsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir (2015). Staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði: Staðreyndir og staða þekkingar. Velferðarráðuneytið. Sótt af https://www.velferdarraduneyti.is/media/rit-og-skyrslur-2015/Stada_karla_og_kvenna_29052015.pdf
Sandberg, S. (2013). Lean in: Women, work and the will to lead. New York : Alfred A. Knopf.
Þorlákur Karlsson, Margrét Jónsdóttir og Hólmfríður Vilhjálmsdóttir (2007). Kvennafn lækkar launin: Tilraun á mögulegum skýringum á óútskýrðum launamuni karla og kvenna. Reykjavík: Háskólinn í Reykjavík. Sótt af https://rafhladan.is/bitstream/handle/10802/6597/Kvennanafn-laekkar-launin_2007.pdf?sequence=1