Ferðaþjónustan hefur aukist með ógnarhraða á Ísland á síðustu árum og líklega er þetta mesta aukning ferðamanna í prósentum talið í allri Evrópu, þótt fjöldinn sé kannski ekki mikill á alþjóðlegan kvarða.
Hvað er það svo sem veldur þessu, já það er spurningin? Eflaust eru þetta nokkrir samverkandi þættir sem hafa átt þátt í þessu. Ef við hverfum aftur til ársins 2008, þá var gengi íslensku krónunnar fellt um hvorki meira en 52% í október það ár, vegna þess hve efnahagsástand heimsins kom illa niður á Íslandi og hinir þrír einkareknu bankar fóru allir á hausinn. Þetta varð til þess að útlendingar fengu meira fyrir peningana sína hér á landi en áður. Í öðru lagi þá kom gosið í Eyjafjallajökli í apríl 2010 Íslandi „á kortið“ ef svo mætti segja, því hundruð þúsunda ferðamanna urðu strandaglópar víða um veröld, og orðið Ísland hljómaði í öllum stærri fjölmiðlum í heiminum. Í kjölfarið gripu stjórnvöld og ferðaþjónustan á Íslandi til þess ráðs að efna til auglýsingaherferðar sem nefnd var „Inspired by Iceland“, því þau óttuðust að ferðaþjónustan yrði illa úti í kjölfar gossins. Þessi herferð virðist hafa gefið góða raun, þótt sumir hefðu efasemdir um hana. Augu fjölmargra útlendinga opnuðust við þetta, og flugfélög og ferðaskrifstofur víða um heim tóku við sér. En það er ekki bara hrunið og Eyjafjallajökull sem eiga sinn þá í vextinum. Auðvitað er það íslensk náttúra, saga okkar og menning sem er aðal aðdráttaraflið. Án þess kæmu engir hingað, því ekki koma menn til að sleikja sólina, heldur til að njóta íslenskrar náttúru og þar með eru talin norðurljósin.
Innviðirnir út undan
Vöxturinn á undanförnum árum hefur verið gífurlegur, sem sést á því að á síðasta ári komu hingað til lands 1,8 milljónir ferðamanna, og þá verður að hafa í huga að íbúatala landsins er aðeins 338 þúsund manns, og þar af búa tveir þriðju eða þar um bil á höfuðborgarsvæðinu. Það virðist sem þessi aukning ætli engan enda að taka, því í nýliðnum janúar komu hingað til lands meira en 75% fleiri erlendir ferðamenn en á sama tíma 2016 eða meira en 135 þúsund manns. Þetta er 100 þúsund fleiri ferðamenn í janúar en í sama mánuði 2013 .Í ár má búast við meira en tveimur milljónum ferðamanna hingað til lands. Stöðugt fjölgar þeim erlendu flugfélögum sem fljúga hingað, og er gert ráð fyrir að þau verði alls 24 þegar mest verður um að vera í sumar. Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir á Keflavíkurflugvelli á undanförnum misserum til að taka á móti þessari miklu aukningu.
Ég hef gagnrýnt það á opinberum vettvangi að það sé í raun byrjað á öfugum enda í þessum efnum, því innviðirnir hafa hvergi nærri haldið í við þessa miklu aukningu ferðamanna. Hóteleigendur hafa reynt að halda halda uppi merkinu, en stjórnvöld hafa hvergi nærri staðið sig sem skyldi, og á ég þá við samgöngumál á landi, löggæslu, heilbrigðismál og hvað eina sem snýr að innviðum í landinu. Ef við tölum bara um heilsugæsluna, þá hefur þessi mikli fjöldi erlendra ferðamanna lagst mjög þungt á hana, og hún hefur hvergi nærri verið undir þetta búin. Það er ekki aðeins út frá læknisfræðilegu eða heilsufræðisjónarmiði, heldur fylgir þessum útlendingum aukin þjónusta svo sem varðandi tungumál og túlkun í sumum tilfellum.
Leiðsögumenn og regluverk
Einkageirinn hefur staðið hefur staðið sig mun betur en stjórnvöld vegna þessarar miklu aukningar erlendra ferðamanna. Stjórnvöld hafa hvergi nærri fylgt þessu eftir eins og sést á skorti á innviðum, en það skortir líka alla laga og reglugerðaumgjörð um þessa atvinnustarfsemi. Sem dæmi um það, þá getur hver sem er stokkið upp í rútu eða komið með fjölda ferðahópa hingað á hverju ári og titlað sig sem leiðsögumann. Þótt við séum hluti af EES samningnum og í Evrópu séu ákveðnir staðlar varðandi leiðsögumenn og menntun þeirra, er ekkert slíkt til hér á landi. Í raun og veru þyrftu að vera mun strangari reglur um þetta hér á landi vegna t.d. veðurfars, landslags, hverasvæða, sterkra úthafsalda Atlantshafsins, jöklaferða og annarra utanaðkomandi aðstæðna, en þrátt fyrir það virðast stjórnvöld algjörlega meðvitundarlaus varðandi þessa hluti. Þau hafa gert fálmkenndar tilraunir til að að koma einhverju skikki á þessi mál, sem lítið hefur orðið úr fram til þessa. Það er fyrst nú að bryddar á einhverjum verulegum áhuga og áherslum varðandi þessa ört vaxandi grein hjá ríkisvaldinu, og lítil skref lofa góðu.
Efnahagsáhrifin eru mikil
Þegar talað er um þennan mikla fjölda erlendra ferðamanna til Íslands megum við ekki gleyma efnahagslegum áhrifunum. Þau eru gífurleg. Ferðaþjónustan er nú orðin sú atvinnugrein sem skapar mestar tekjur í erlendri mynt, og hefur haft mikil og góð áhrif á endurreisn efnahags landsins eftir hrunið 2008. Ferðaþjónustan hefur skapað þúsundir nýrra starfa, og nú er svo komið að við Íslendingar verðum að flytja inn hundruð ef ekki þúsundir erlendra starfskrafta, ekki aðeins til að vinna í greininni sjálfri, heldur líka til að að vinna við byggingu nýrra hótela á höfuðborgarsvæðinu og úti um land, og í allskonar afleiddum greinum vegna uppgangs ferðaþjónustunnar.
Þá megum við heldur ekki gleyma því að vegna tilkomu ferðamannanna búum við við auðugra mannlíf hér, fleiri veitingahús, meiri möguleika á að ferðast ódýrt til útlanda vegna tíðra flugferða og fleira í þeim dúr. Þá eru meiri afþreyingarmöguleikar eins og t.d. „Airwaves“ og auðveldara er að fá heimsfræga listamenn til landsins, og þá líka vegna tilkomu Hörpu, tónlistar og ráðstefnuhússins í miðborginni.
En talandi um hana, þá er ýmislegt um okkar kæra miðbæ að segja. Þegar maður gengur nú orðið niður Laugaveginn, er þar jafnan margt um manninn, en það er stundum tilviljun ein sem ræður því hvort maður heyrir mælt á íslensku. Þarna er mikil flóra mannlífsins, margir að kíkja á matseðlana á veitingahúsunum, að fara inn og út úr hinum fjölmörgu ferðamannaverslunum og svo auðvitað að taka myndir af sér og sínum auk hinna fjölmörgu mótífa sem ferðamaðurinn sér fyrir sér á göngu sinni um miðborgina. Við heyrum líka af íbúum þessa bæjarhluta sem eru að gefast upp á því að búa þar. Töskudragandi ferðamenn halda fyrir þeim vöku, litlar og stórar rútur eru þar nótt sem nýtan dag, og allt þetta veldur ónæði.
Nýlega gekk dómur þar sem bannað er að leigja út íbúðir í fjölbýli án þess að allir aðrir íbúar samþykki. Þá hefur íbúðaverð í miðbænum rokið upp og erfitt fyrir einstaklinga að keppa við húsaleigufyrirtæki um kaup og leigu á íbúðum þar. Hins vegar hafa margir notað tækifærið og leigja út íbúðir sínar á vinsælum stöðum, þannig að fjöldi fólks hefur af því góðar tekjur.
Salernismálin – hið eilífa vandamál
Ef við færum okkur út fyrir höfuðborgarsvæðið, þá hafa ferðamennirnir sett sinn svip á landsbyggðina, ekki síður en Reykjavík og nágrenni. Að koma á Hakið á Þingvöllum þegar morgunferðir hinna fjölmörgu ferðaskrifstofa eru þar á sama tíma, er eins og að koma á fjölmenna útihátíð. Allt fullt af fólki og iðandi mannlíf. Ef hins vegar menn leggja leið sína þangað um hádegisbil, áður en síðdegisumferðin byrjar, þá getur verið rólegt um að litast. Að ekki sé nú talað um síðari hluta dags þegar dagsbirtu nýtur við á vorin og fyrri part sumars, þá getur verið dásamleg kyrrð á Þingvöllum og reyndar víðar á „Gullna hringnum“.
Það er sem sé ekki sama á hvaða tíma dags og hvert menn fara hverju sinni. Það er mikið talað um að dreifa ferðamönnum um landið, og hingað til hefur reynst erfiðleikum bundið að fá flugfélög til að fljúga til staða eins og Egilsstaða og Akureyrar. Þá eru heilu landshlutarnir þar sem er ekki örtröð ferðamanna, og nægir þar að nefna Vestfirði og Austfirði . Þessi landsvæði þola miklu meira en þar vantar líka hótel og aðrar þjónustu fyrir ferðamenn, að ógleymdu vegakerfinu, sem er víða til háborinnar skammar. Margt fólk á landsbyggðinni hefur tekið þessum aukna ferðamannastraumi fegins hendi, og sett á stofn ferðaþjónustu með ýmiskonar afþreyingu svo sem hestaleigu og fleiru. Við höfum dæmi um fólk sem hefur hætt búskap að mestu og snúið sér að þessari ört vaxandi atvinnugrein.
Gallinn er bara sá víða úti á landi að þar vantar margt til að þjónusta ferðamanninn, og er þar ekki síst að nefna salerni og sæmileg bílastæði. Salernismálin hafa löngum verið mjög til umræðu innan ferðaþjónustunnar, ekki síst hjá okkur leiðsögumönnum og svo auðvitað á almennum vettvangi, en fram til þessa hefur þetta víða verið eins og hjá þriðja heims þjóðum. Það verður bara að segja það eins og það er. Nú hillir að vísu undir einhverjar úrbætur, og á Þingvöllum t.d. hafa orðið miklar framfarir í þessum efnum, en betur má ef duga skal víða um land.
Asíufólkið
Við verðum í auknum mæli vör við Asíufólk á ferðum okkar um landið, og það er gjarnan á bílaleigubílum. Okkur leiðsögumönnum sem sitjum gjarnan hægra megin fremst í rútunum, blöskrar oft aksturslagið á þessu fólki. Það virðist sumt hvert ekki hafa mikla æfingu í akstri, og þegar við bætast mjóir vegir í vetrarfærð er ekki von á góðu.
Samkvæmt yfirliti um umferðarslys hér á síðasta ári, þá lentu hlutfallslega mun fleiri Asíubúar og þá aðallega Kínverjar í umferðarslysum hér á landi en aðrir erlendir ferðamenn. Þá virðist manni sem þeim þykist leyfast allt, og umgengnisvenjur þeirra eru í sannleika sagt töluvert frábrugðnar okkar. Við heyrum stöðugt margskonar sögur af hegðun þeirra, og við erum víst ekki eina landið þar sem þessi mál koma til umræðu.
Höfum við náð toppnum?
Þegar spurt er hvort ferðamannabylgjan hafi ná hámarki á Íslandi, þá benda auknar flugsamgöngur til landsins í ár og næstu ár ekki til þess. Hins vegar er rétt að hafa í huga alþjóðlegar kenningar um nýja og eftirsótta ferðamannastaði. Þá er aukningin mjög hröð í fyrstu, síðan kemur tímabil þar sem aðsóknin er mikil en jöfn, áður en smám saman fer að draga úr aðsókninni, en þá mun hægar en aukningin var í upphafi.
Ísland verður því á næstu árum vinsæll áfangastaður, því þrátt fyrir mikla prósentuaukningu, eru hlutur okkar í evrópskri og alþjóðlegri ferðamennsku lítill, og nægir þar að líta til sumra Evrópulanda, og ekki síst landa við Miðjarðarhafið þar sem sól og sjór heillar milljónir ferðamanna.
Spor í náttúrunni
Það er engin vafi á því, að á sumum stöðum hér á landi og á ákveðnum tímum eru of margir ferðamenn. Þetta á bæði við um ákveðna tímapunkta á vinsælum ferðamannastöðum í byggð og líka á vinsælum gönguleiðum eins og Laugaveginum.
Niðurstaðan af framansögðu er því sú að ferðamannasprengjan hefur haft gífurleg áhrif á Íslandi. Hún hefur breytt lifi margra Íslendinga, valdið efnahagslegum framförum, gengið á hlut ýmissa einstaklinga hvað varðar búsetu og í leik og starfi og veitt öðrum tækifæri á sama vettvangi, skilið eftir sig áþreifanleg spor víða í viðkvæmri náttúru landsins, skotið rótum undir fjölmörg fyrirtæki, og komið Íslandi endanlega á ferðamannakort heimsins.
Ferðamennirnir hafa heldur ekki farið erindisleysu og með depurð í huga þegar þeir yfirgáfu landið, því samkvæmt nýjustu könnun Ferðamálastofu stóðst Íslandsferðin væntingar rúmlega 95 af hundraði þeirra, sem lokið höfðu ferð sinni hingað, og 82 af hundraði töldu líklegt að þeir myndu koma aftur, sem hljóta að vera góð meðmæli með Íslandsdvölinni.
Höfundur er leiðsögumaður og fyrrverandi fréttamaður.