Mig langar hér að draga upp mynd af því hvernig síðkapítalisminn hefur áhrif á málfar, hugsun og tilfinningar. Meðvitund um þetta efni er nauðsynleg ekki aðeins vegna þess að lýðræðið er í hættu heldur einnig velferðarkerfið og grundvallar mannréttindi. Mikilvægt er að taka fram að hér er ekki verið að gagnrýna kapítalisma – einungis nýfrjálsa fríverslunargerð hans eða síðkapítalisma sem veitir þessu efnahagskerfi einskonar alræði í mannlegu félagi og mun ganga þvert á allar frelsishugsjónir. Það er gjarna gengið út frá því að við séum frjáls og lifum í frjálsu samfélagi. Forsenda þess að geta kallast frjáls er að maður sé meðvitaður um sitt val eða það val sem aðrir taka fyrir okkar hönd. Lýðræðið sem við eigum að búa við gengur m.a. út á valfrelsi um hverjir og hvaða hugmyndafræði eigi að stjórna. Stjórnmálamenn hafa nú þann valkost að selja þetta valfrelsi þegna sinna og þar með lýðræðið – eða ekki. Umræða um sósíalisma á Íslandi upp á síðkastið er skýrt teikn um að fólk sé farið að skynja þessa hættu, og er það vel.
Til að taka dæmi hef ég af handahófi valið skýrslu fjármálafyrirtækisins GAMMA, Infrastructure Investment in Iceland (2016). Ég vísa í þetta plagg því þar kemur sá andi einna skýrast fram sem hér er til umfjöllunar. Skýrslan er á ensku þó hún fjalli um íslenskar ríkisstofnanir. Ætla má að skýrslunni sé ætlað að sverma fyrir erlendum stórfyrirtækjum jafnt sem íslenskum ráðamönnum.
***
Áróður sá er litar skýrsluna er sá sami og nýlíberalista (nýfrjálshyggjupostula) almennt. Hann byggir á inngróinni tvennd um að skynsemi og tilfinningar séu aðskildar kategóríur. Í orðræðu þessari er algengt að finna hugtök eins og skynsemi, rökvit og lógík er kemur að þeirra stjórn. Ávöxtur slíkrar stjórnunar er svokallaður hagvöxtur og stöðugleiki í efnahagsmálum, framfarir, þróun og vöxtur eru hér nefnd með, á meðan andstæðingar skapa glundroða og eyðileggja. Andstæðingarnir eru tilfinningahrærðir og óvísindalegir, að láta slíkum í té stjórnvölinn boðar óreiðu í efnahagsmálum, atvinnuleysi. Hægriöflin styðjast síðan gjarna við auglýsingaheimspeki er kemur að útbreiðslu erindisins: segðu það nógu oft. Ágætt dæmi er sá hagvaxtaráróður sem kyrjaður er kringum allt umtal um fríverslunarsamninga. Staðreyndin er að slíkir samningar munu skila minni hagvexti en við búum við og auka atvinnuleysi og ýmsan samfélagsvanda. Sem dæmi má nefna að Bretland, Þýskaland og Bandaríkin sköpuðu mestan hagvöxt bak við tollamúra (Ha-Joon Ghang 2017).
Nefna má að vísindin sjálf hafa grafið undan tvennd skynsemi og tilfinninga fyrir allnokkru síðan. Antonio Damasio (Descartes‘ Error, 2005) og fleiri heila -og taugasálfræðingar hafa sýnt hvernig mannsheilanum er einmitt öfugt farið. Rökhugsun byggir á tilfinningu; heilaskaði á tilfinningastöðvar rænir fólk getunni til að hugsa rökrétt. Rökhugsun er ekki það sem gamla tvenndin gekk út á. Þeir sem fyrstir námu land á Íslandi trúðu því að maðurinn hugsaði með hjartanu. Vísindi síðustu ára hafa sýnt að þeir höfðu rétt fyrir sér.
Nýlíberalistar vita að manneskjan er tilfinningavera. Ef manneskjan væri rökvera myndu hvorki auglýsingar né áróður virka. Skilaboðin hér eru einföld, að það er í ljósi þessa sem auðvaldið hefur völd yfir fólki, og leiðin út hlýtur að felast í meðvitund um þetta vald kerfisins yfir tilfinningunum. Í anda tvöfeldninnar, eða dobbelmóralsins, er aftur á móti stöðugt vísað til hagmennisins svokallaða úr fórum Adams Smith, homo oeconomicus. Manninum er stillt upp sem fullkomlega röklegri veru sem gerir aðeins það sem er honum sjálfum fyrir bestu, kaupir aðeins það sem er honum sjálfum fyrir bestu og hugsar af skynsemi um sjálfan sig og eigin hag. Þetta eru vitanlega góð rök fyrir einkaframtakið til að fría sig samfélagsábyrgð. Atli Harðarson gagnrýnir að í Örlagaborginni eftir Einar Má Jónsson (2012) sé þessi manneskjusýn tekin of bókstaflega, hagmennið sé bara „líkan af einni hlið tilverunnar“ og enginn sé að segja að maðurinn hafi ekki aðrar hliðar líka (Þjóðmál 2012, 8:81 ). Hugsanaskekkja Atla birtist í því að ákvarðanir um stöðugt fleiri þætti mannlegs félags eru teknar á grundvelli þessarar manneskjusýnar. Því verður að taka henni af alvöru.
Nú að skýrslu GAMMA. Vísað er til sögulegra raka fyrir einkaframtakinu. Á dögum Rómarveldisins hafi einkaframtakið blómstrað er kom til dæmis að vegagerð. Í öðru lagi er Margaret Thatcher hampað sem miklum bjargvætti bresks efnahags (bls. 22). Hér er sögulegt samhengi virt að vettugi, aðstæður og stjórnarfar meðal Rómverja voru sjálfsagt allt önnur en í hnattrænu markaðskerfi nútímans. Thatcher muna menn enn eftir, hún sagði „There is no such thing as society“, hún hefur verið kölluð „mest hataði stjórnmálamaður í sögu Englands“. Mér sýnist kjarninn skína hér strax í gegn; GAMMA vill verða eins og Rómarveldi – aðferðarfræðin er Thatcherísk.
Skýrsla GAMMA er byggð upp eins og akademísk ritgerð við fyrstu sýn og í löngu máli rætt um skínandi efnahag Íslands til að lokka erlenda fjárfesta. Mikilvægustu rökin fyrir aukinni aðkomu einkafyrirtækja að opinberum stofnunum er í fyrsta lagi sú að hér sé um að ræða „trend, on a world wide scale“ (bls. 20), og að „governments are constantly seeking out new ways of financing infrastructure...a common practise is to turn to market solutions“ (bls. 22). Þetta er mikilvægur retórískur punktur sem höfðar til tilfinninga ráðamanna, um að Íslendingar megi ekki heltast úr lestinni, svona gera allir hinir, við verðum að fylgja tískunni.
Fyrsta skekkjan er að kalla tvö hundruð ára gamlan draug „trend“, og hér er staðreyndum hnikað á þann veg að ekki eru nefnd öll þau katastrófudæmi sem slík aðkoma eða yfirtaka einkafyrirtækja á ríkisstofnunum hefur haft á hin ýmsu ríki síðustu árhundruð og ekki síst síðustu áratugi. Nægir hér að nefna rit Noam Chomsky og Edward Herman hvað Ameríku varðar, Arundhati Roy varðandi Indland, Ha-Joon Chang hvað Asíu varðar, Bernt Sofus Tranøy, Asle Toje og Dag Østerberg um Norðurlöndin, og ekki síst áðurnefnda bók Einars Más Jónssonar, Örlagaborgina, frá 2012, hvað varðar Vesturlönd. Þá geri ég ráð fyrir að flestir muni enn haustið 2008.
GAMMA tekur sem dæmi velheppnuð verkefni þar sem einkafyrirtæki hafa haft aðkomu að ríkisverkefnum. Þeir lista upp svokölluð PPP-Project (Public Private Partnership). Þessi verkefni eru skýrð svo: „public-private partnerships, a form of joint investment that gives a privately run firm the right to provide a public service in exchange for an initial investment“ [skál. mín].
Tekið er dæmi um PPP-verkefni innan vegagerðar í Noregi: „Grimstad-Kristianstad [sic] road in Norway“ (bls. 23). Hér er átt við vegagerð milli Grimstad og Kristiansand. Þetta eina dæmi verður að nægja fyrir stutta grein, annað í skýrslunni er í sama dúr. Eftir að hafa rakið slík verkefni skrifar GAMMA:
„Most infrastructure companies in Iceland are publicly held, but with a wider debate taking place and with successful involvement of private entities in other ventures, the sale of shares held by public bodies would be a logical next step“(bls. 43)
Hér má í fyrsta lagi sjá retóríkina byggða á tvenndinni gömlu, það er talað um „logical next step“, hið lógíska skapar hér hugrenningatengsl við rökvit og vísindi. Hið sama kemur fram í ummælum höfðum eftir GAMMA í Fréttatímanum: „lógískt að Ísland selji ríkisfyrirtæki“. Þetta á að fá okkur til að trúa og treysta því að þarna séu vísindalega þenkjandi menn á ferð, og ekki menn frumstæðra tilfinninga.
Retórísk brögð eru einn hlutur, alvarlegri er skekkjan í röksemdafærslunni. Þar segir að velheppnuð PPP verkefni eins og í Noregi ættu að verða til þess að menn selji ríkisfyrirtæki til einkaaðila: „the sale of shares held by public bodies“.
Þegar nánar er að gáð ganga PPP-verkefni út á allt annað en að selja ríkisstofnanir. Í þessu tilfelli ættu þá Norðmenn að hafa selt umræddan veg eða Vegagerð ríkisins til einkaaðila. Það sem þetta og önnur slík verkefni snúast um er að norska ríkið, undir merkjum Statens veivesen, hefur auglýst tilboð í ákveðið verk fyrir einkaaðila. Verkið felst í að byggja og viðhalda ákveðnum vegarspottum á E18, samningar taka til 20-30 ára. Þarna er gerður ítarlegur samningur við einkafyrirtækið, sem fær greitt frá Ríkinu fyrir hvert ár samnings. Um leið og viðhald á veginum minnkar eða er ófullnægjandi – minnkar að sama skapi greiðsla ríkisins til einkaaðilans. Honum má segja upp ef hann stendur sig ekki í stykkinu.
Aðspurð segir verkefnisstjóri slíkra verkefna hjá Vegagerð Noregs, Bettina Sandvin, að það hafi aldrei komið til greina að viðkomandi einkaaðili fái að kaupa sig inn í Statens veivesen eða eiga veginn sem þeir byggja. Vegspottinn og vegagerðin er og verður 100 % í eigu hins norska ríkis, annað hefur einfaldlega ekki verið til umræðu. Einkaaðilinn er stranglega bundinn af reglum Vegagerðarinnar, það kalla menn nauðsynlegt aðhald. Með því að selja ríkiseignir verður slíku að sjálfsögðu ekki við komið. Bettina segir að ekki sé komin nægileg reynsla á það hvort slíkir samningar séu hagstæðir.
Slík vinnubrögð, sem finna má víðar í skýrslunni, kallast sóðaskapur innan akademíunnar. Sem BA-ritgerð við háskóla hefði skýrslan fengið falleinkunn. Þar sem kemur fram að sumir höfundanna eru með háskólagráður og jafnvel einn þeirra prófessor, þá er ljóst að hér er ekki um leti og slóðaskap að ræða, heldur meðvitaðar lygar. Þær lygar sem hér um ræðir eru gjarna kallaðar tvítal eða „doublespeak“ á fagmáli, og er skilgreint svo af Edward S. Herman:
„The ability to lie, whether knowingly or unconsciously, and to get away with it; and the ability to use lies and choose and shape facts selectively, blocking out those that don’t fit an agenda or program“ (Beyond Hypocrisy 1992, 3).
Hér gildir einu hvort kallað sé lygar eða hnikun staðreynda í nafni áróðurs. Verk ríkis og sveitarfélaga boðin út á almennum markaði í nágrannalöndunum eru notuð sem röksemdarfærsla fyrir „lógískum“ rétti einkaaðila til að kaupa upp ríkisfyrirtæki. En vitanlega strandar aðeins á einu áður en GAMMA getur tekið yfir ríkisfyrirtækin:
„In some cases legislation changes would need to be made in order for private investors to become shareholders“ (bls. 43) eða „an amendment in law“ (bls. 45).
Aftur að valfrelsi og lýðræði til að skilja hvað í þessu felst. Þeir stjórnmálaleiðtogar sem ekki sporna við slíkum ágangi með löggjöf, munu ekki aðeins selja Ísland undan sér og lýðræði þegnanna heldur líka sín eigin völd. Efst á blaði yfir mikilvæga kúnna GAMMA er skrifstofa forsætisráðherra, það segir nokkuð um alvarleika stöðunnar. Ef við höldum okkur við vegagerðardæmið, þá myndi GAMMA ekki vilja koma að því öðruvísi en svo að þeir vilja eignast vegina sem væru byggðir eða Vegagerðina, eins og aðrar ríkisstofnanir. Ef þeir eignast vegina mun enginn geta skipað þeim fyrir verkum, gagnrýnt, beitt fyrir sig reglugerðum eða vísað til sómasamlegs vegakerfis. Það mun ekki duga á hrópa á þingmann sinn. Það skiptir ekki máli hvað þú kýst. Það gildir einu hvað þú kvartar. Þá mun hinn heilagi eignaréttur ganga að lýðræðinu dauðu. Auðvelt er að sjá fyrir sér vegtolla á þjóðvegum landsins fylgja sömu kúrfu og landsmenn hafa séð rísa innan húsnæðismarkaðar – nokkuð sem GAMMA og önnur fjárfestingarfyrirtæki eiga sök á. „Eigendur“ veganna munu sjálfráðir um viðhald og byggingu. Næsta öruggt er að það yrði ekki í samræmi við kröfur vegfarenda. Samkvæmt skýrslunni vill GAMMA og vinir þeirra í Global Konsern & co. þannig kaupa upp Keflavíkurflugvöll, Nýja Landspítalann, Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, byggja rafleiðara til Bretlands osfrv. osfrv.
Það hefur komið í ljós að undir „lógísku“ og röklegu yfirborði GAMMA kraumar tilfinning sem heitir græðgi. Dæmið var valið af handahófi, en hið sama gildir vitanlega um önnur fyrirtæki með sömu áform, og ekki síst gildir þetta ef ráðamenn skrifa undir fríverslunarsamninga eins og TiSA eða TTiP – munurinn er að þá er við hnattlæg stórfyrirtæki að eiga. Hingað til hafa íslenskir ráðamenn sagt já og amen við slíkum samningum og flúið alla umræðu.
Það er enn möguleiki fyrir almenna borgara á Íslandi að hafa áhrif á veruleika sinn, en „sútandtæ“ mennirnir vinna nótt sem dag að sínu. En þá er komið að kjarna máls, sem kallar á aðra grein: Það mun varla gerast svo lengi sem kerfið hefur stjórn á tilfinningaveruleika kjósenda.
Þetta er fyrri grein Bergsteins af tveimur um síðkapítalismann. Sú síðari birtist á Kjarnanum á morgun.