Frumvarp Brynjars Nielssonar o.fl. um tálmun á umgengni er til umræðu á þingi. Hér er um mikilvægt frumvarp að ræða á réttindum barna. Málið ætti að renna í gegn án nokkurra mótmæla beri þingmenn hag barna, sem fá ekki að hitta annað foreldrið sitt, fyrir brjósti. Vilji þingmenn að farið sé eftir barnalögunum þá tefja þeir ekki málið. Pólitískar skotgrafir eiga ekki við í þessum málaflokki.
Nokkrir þingmenn hafa sagt skoðun sína á hluta frumvarpsins og þar sýnist mörgum mæðrahyggjan ráði för. Þingmenn hafa áhyggjur að foreldri verði refsað hafi það hundsað öll úrræði barnaverndarnefndar, sýslumanns og fagaðila sem mæli með því sem barninu er fyrir bestu, að umgangast báða foreldra sína. Foreldrið hundsar jafnvel dóm án þess að nokkuð gerist. Hluti þingmanna hafa áhyggjur af mæðrum sem brjóta á rétti barna. Þingmenn VG ættu að kynna sér gang tálmunarmála áður en þeir verja mæður fram í rauðan dauðann, sem og þingmenn Pírata. Með öðrum orðum, þingmenn virðast tilbúnir að samþykkja andlegt ofbeldi gagnvart barni til að verja ofbeldisforeldrið þrátt fyrir skýr ákvæði í barnalögunum.
Í 1. grein barnalaga segir t.d.: „Óheimilt er að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.“ Í þeirri 20.: „Foreldrum ber að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum.“ Sú 46. er afdráttarlaus: Barn á rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Með umgengni er átt við samveru og önnur samskipti. Þegar foreldrar búa ekki saman hvílir sú skylda á þeim báðum að grípa til þeirra ráðstafana sem við verður komið til að tryggja að þessi réttur barnsins sé virtur. Foreldri sem barn býr ekki hjá á í senn rétt og ber skylda til að rækja umgengni við barn sitt. Foreldri sem barn býr hjá er skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema hún sé andstæð hag og þörfum barns að mati dómara eða lögmælts stjórnvalds.“
Á ég að trúa því árið 2017 sé mæðrahyggjan þingmönnum svo töm að börn eru látin gjalda þess? Loks þegar þingmenn hafa dug og þor til að taka á málaflokknum þá eru nokkrir þingmenn áhyggjufullir vegna mæðra sem brjóta gróflega á börnum sínum og hundsa allt frá opinberum aðilum. Og þessar áhyggjur koma í veg fyrir að börn njóti þeirra sjálfsögðu réttinda sem kveður á um í 1. gr. barnalaganna.
Ég trúi ekki fyrr en á reynir að þingmenn bregðist börnum samfélagsins á þennan hátt. Munum að margt og mikið hefur gengið á áður en foreldri er kært fyrir tálmun m.a. ráðgjöf mismunandi fræðinga (félags, fjölskyldu, sálfræðinga), úrskurður sýslumanns og dómara og jafnvel forsjármál fyrir dómstólum. Öll úrræði sem yfirvald hefur yfir að ráða eru nýtt í tálmunarmálum. Í dag eru engin úrræði sem virka hundsi foreldrið allar lausnir frá ráðgjöfum og opinberum aðilum, barn býr áfram við ofbeldi.
Í umræðum á Alþingi segja menn, þeir foreldrar sem fá ekki að hitta börn sín geta farið í forsjármál beiti hitt foreldrið tálmun, jafnvel mörgum sinnum. Hvílík skammsýni og þvílíkt þekkingarleysi á málaflokknum. Það tekur MJÖG langan tíma að fara í gegnum forsjármál og það kostar sækjanda máls töluverðar fjárhæðir. Að þingmenn láti slík út úr sér er með ólíkindum, hvetja til dómsmála þar sem viðkvæmar barnssálir eru annars vegar. Hvers vegna hugsa þingmenn ekki um hag barna sem vilja ekkert frekar en að umgangast báða foreldra sína. Þau vilja ekki vera það vopn sem annað foreldrið notar þau til, til að ná fram hefndum og sýna hver ræður för. Í flestum tilfellum er um slíkt að ræða.