Donald J. Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti fyrr í dag, við Hvíta húsið í Washington DC, að hann hefði ákveðið að draga Bandaríkin út úr Parísarsáttmálanum um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum.
Ákvörðun hans tekur gildi strax í dag, en Trump sagði að samningurinn væri slæmur fyrir bandaríska hagsmuni; bæði vinnumarkað og aðra hagsmuni. Hann sagðist tilbúinn að semja aftur. „Við munum samt hafa hreint loft og hreint vatn,“ sagði hann.
Frumkvöðullinn Elon Musk, stofnandi rafbílaframleiðands Tesla Motors, sagði sig strax úr ráðgjafaráði Trumps eftir ákvörðunin varð ljós.
Xi Jinping, forseti Kína, og leiðtogar Evrópusambandsríkja hafa lýst því yfir að ákvörðun Bandaríkjanna hafi ekki áhrif á aðild þeirra að samkomulaginu, en Ísland er meðal þeirra ríkja sem á aðild að því. Það skuldbindur þjóðir heimsins til að draga úr mengun af mannavöldum.
Rex Tillerson utanríkisráðherra, og fyrrverandi forstjóri olíurisans Exxon Mobile, hafði ráðlagt Trump að styðja Parísarsamkomulagið.
Fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa undanfarna daga flutt fréttir af því, að Trump hafi ætlað sér að fara út úr samkomulaginu, þar sem hann hafi talið það slæmt fyrir Bandaríkin, svo tíðindin voru ekki óvænt.