Það er ekki orðum aukið að skipun dómara við Landsrétt hafi orðið að pólitísku hitamáli. Mikilsvirtir álitsgjafar hafa látið stór orð falla – ásakanir um valdníðslu, pólítíska spillingu og gerræði hafa flogið. Af því tilefni langar mig til að benda á nokkur atriði.
Í febrúar var til umræðu á Alþingi lagabreyting þess efnis að fela dómnefnd um hæfi umsækjanda um dómaraembætti að meta hæfi umsækjenda um embætti landsréttardómara. Þar sem fyrri álit þessarar nefndar hafa á stundum sætt gagnrýni, einkum vegna þess að hallað hefur þótt á kvenumsækjendur, sköpuðust nokkrar umræður á Alþingi um málið. Var þar lögð fram breytingartillaga af hálfu minnihlutans þess efnis að áréttað skyldi í lögunum að dómnefnd bæri að fara að jafnréttislögum. Meirihlutinn taldi þessa breytingu óþarfa þar sem jafnréttislög giltu um starf nefndarinnar sem og aðrar stjórnsýslunefndir hér á landi. Allir þingmenn minnihlutans sem tóku til máls í umræðunni lýstu því yfir, að ef dómnefndin myndi ekki skila af sér lista sem uppfyllti sjónarmið um jafnræði kynja, yrði ráðherra að grípa inn í. Þingmenn Viðreisnar voru því sammála. Í reynd var því þegar í febrúar búið að senda ráðherra sterk skilaboð um að þingið myndi ekki sætta sig við lista þar sem hallaði verulega á annað kynið.
Dómnefnd skilaði áliti sínu um hæfi umsækjenda um miðbik maímánaðar. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að 10 karlar og 5 konur væru hæfust til að gegna embætti landsréttardómara en um 15 lausar stöður var að ræða. Í þennan hóp raðaði dómnefndin svo 5 aðilum úr fræðastörfum og stjórnsýslu, 5 úr lögmennsku og 5 úr röðum dómara. Það var því ljóst að ráðherra var nokkur vandi á höndum enda sá dómnefndin ekki ástæðu til þess að veita ráðherra nokkurt svigrúm til að líta til sjónarmiða eins og kynjahlutfalla. Hins vegar gat ráðherra gert ráð fyrir því að erfitt myndi reynast að fá staðfestingu Alþingis á lista þar sem svo verulega hallaði á annað kynið. Það var t.d. ekki fyrirséð að þingflokkur VG myndi skipta um skoðun hvað þetta varðar, enda hefur flokkurinn almennt lagt ríka áherslu á jafnrétti í sinni pólitík. Eins og áður sagði höfðu þingmenn Viðreisnar einnig lagt ríka áherslu á að gætt yrði að kynjahlutföllum við skipan Landsréttar.
Í þetta sinn ákvað dómnefndin að notast við kvarða við mat sitt á hæfi umsækjanda þar sem hverjum matsþætti var veitt ákveðið vægi. Athygli vekur að í þetta sinn ákvað dómnefnd að meta að jöfnu reynslu af dómarastörfum, lögmannsstörfum og störfum í stjórnsýslu. Í öðrum málum hefur nefndin nefnilega talið reynslu af dómarastörfum vega þyngra. Þá vekur einnig athygli að allir umsækjendur voru lagðir að jöfnu að því er varðaði matsþættina stjórnun þinghalda og ritun dóma. Reynsla af starfi héraðsdómara, sem augljóslega felur í sér stjórnun þinghalda og ritun dóma að staðaldri, var þannig ekki talin skipta máli í þessu sambandi. Ljóst er að þessi afstaða dómnefndarinnar kom einkum niður á kvenkyns umsækjendum enda meirihluti þeirra héraðsdómarar.
Dómsmálaráðherra lagði fram tillögu á Alþingi um breyttan lista þar sem tilnefndar voru 7 konur og 8 karlar. Tillögu sína rökstuddi ráðherra meðal annars með vísan til þess að ekki hefði verið með nægjanlegum hætti litið til dómarareynslu. Eins og áður segir varð þessi nálgun dómnefndar til þess að frekar hallaði á kvenumsækjendur í hæfismati.
Það vekur athygli að gagnrýni á tillögu ráðherra hefur einkum snúist um tvennt. Í fyrsta lagi að þar sem um sé að ræða ráðherra sem hefur áður lýst sig mótfallna því að líta til kynjasjónarmiða, þá sé það ekki trúverðugt að ráðherrann hafi litið til kynjasjónamiða enda hafi hún ekki rökstutt það sérstaklega. Er þá alfarið litið fram hjá því að miðað við umræðu á Alþingi um störf dómnefndar í febrúar mátti ráðherra ganga að því vísu að Alþingi myndi hafna því að staðfesta lista dómnefndarinnar óbreyttan. Þingmenn Viðreisnar hefðu til að mynda ekki fallist á að halla myndi á konur í Landsrétti frá upphafi. Þessi afstaða Viðreisnar lá fyrir þegar í umræðum um málið í febrúar. Það er því ekki um eftiráskýringu að ræða eins og haldið hefur verið fram.
Í öðru lagi hefur því verið hreyft að rökstuðningur ráðherra um að dómarareynslu hafi verið gefið aukið vægi haldi ekki með vísan til tiltekinna umsækjenda. Sú skoðun miðast þó bara við að bera saman umsækjendur út frá lista dómnefndar og út frá þeim kvörðum sem dómnefndin lagði til grundvallar. Það er því algerlega litið fram hjá því að það hlýtur að hafa áhrif á heildarröðun umsækjenda ef vægi matsþátta er breytt. Þannig getur vægi mismunandi matsþátta ýmist fært menn upp eða niður á umræddum lista. Ráðherra hefur þannig ekki borið því við að eingöngu hafi verið litið til dómarareynslu, heldur að henni hafi verið gefið aukið vægi. Allt að einu hefur þó enginn, nema kannski Lögmannafélagið, haldið því fram að það sé ekki málefnalegt sjónarmið að gefa dómarareynslu aukið vægi. Dómarafélagið hefur til dæmis bent á að framsetning nefndarinnar á matsþáttum leiði til þess að það halli á umsækjendur sem hafa átt sinn starfsferil innan héraðsdómstóla enda sé svigrúm dómara til að taka að sér aukastörf takmarkað. Þannig verður þessi framsetning matsþátta til þess að héraðsdómarar sem helgað hafa sinn starfsferil dómstörfum standa verr að vígi til að fá framgang á næsta dómstig. Skilaboðin eru þau að það borgi sig ekki að gera störf við dómstóla að ævistarfi.
Af þessu má ráða að gagnrýnin beinist frekar að persónu ráðherra, þ.e. að hún geti ekki borið fyrir sig kynjasjónarmiðum og að hún hafi breytt hæfisröðun í annarlegum tilgangi, heldur en að þau rök sem hún færði fram hafi verið málefnaleg. Því er litið fram hjá öðrum álitaefnum eins og t.d. hvort ráðherra hefði fengið lista dómnefndar staðfestan af Alþingi óbreyttan með tilheyrandi kynjahalla? Í öðru lagi hefur umræðan snúist um tvo nafngreinda umsækjendur einkum vegna maka þeirra. Samt sem áður má vera ljóst að þegar vægi dómarareynslu sem matsþáttar er aukið þá hlýtur það að hafa áhrif á stöðu umsækjenda sem búa yfir langri slíkri reynslu sem á við um báða þessa umsækjendur. Hefði ráðherra átt að útiloka þessa umsækjendur vegna maka þeirra? Væri það ekki til marks um pólitísk afskipti þar sem umræðan hefði kannski orðið ráðherra þægilegri ef þessir aðilar hefðu ekki verið á listanum? Loks má ekki gleyma að tveir aðrir nafngreindir umsækjendur sem voru tilnefndir af ráðherra hafa líka mátt sitja undir ásökunum um vanhæfi og pólitíska spillingu án þess að nokkur rök hafi verið færð fyrir slíkum fullyrðingum.
Það er vandasamt að eiga í rökræðu um forsendur hæfismats og hvern skipa skuli í embætti á hverjum tíma. Þar sem einstaklingar eiga í hlut er auðvelt að falla í þá gryfju að einblína á einstaka persónur í stað þess að skoða með hlutlægum hætti vægi matsþátta og hvaða sjónarmið eigi að ríkja við matið. Ég sakna þess að menn takist á í rökræðu um hvort og hvernig stilla eigi upp vægi einstakra matsþátta við mat á umsækjendum um dómaraembætti, frekar en detta í umræðu um hvort þessi sé betri en hinn. Ég sakna þess einnig að málefnaleg rökræða eigi sér stað um hvert hlutverk dómnefndar eigi að vera og hvert sé hlutverk ráðherra með tilliti til stjórnsýslulegrar ábyrgðar. Og hver á aðkoma Alþingis að vera? Er Alþingi aðeins eftirlitsaðili eða á þingið að fara að hlutast til um einstaka nöfn á lista eins og ráða mátti af ræðum sumra þingmanna? Er í lagi að úthrópa nafngreinda einstaklinga fyrir pólitíska spillingu úr ræðustól Alþingis og fara rangt með reynslu þeirra og starfsferil? Þá er ljóst að dýpri umræða þarf að fara fram um hvort kynjasjónamið eigi alltaf við eða hvort frá þeim megi víkja ef tilteknir aðilar eiga í hlut.
Það er sannarlega ekki auðvelt að sitja undir ásökunum um valdagræði, pólitíska spillingu og óheiðarleika þegar kona hefur sannfæringu fyrir því að taka afstöðu til máls eingöngu á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Í mínu tilviki réðu för í þessu máli mikilvægi þess að Landsréttur yrði frá upphafi skipaður með jöfn kynjahlutföll að leiðarljósi og ég gat að sama skapi fallist á það sem málefnaleg sjónarmið að þegar skipa ætti nýjan dómstól í fyrsta sinn ætti að líta frekar til dómarareynslu. En þetta er kannski bara náttúrulegur fylgifiskur þess að taka þátt í stjórnmálum og opinberri umræðu á Íslandi. Því þegar allt kemur til alls þá er bara svo miklu auðveldara að fara í manninn heldur en boltann.
Höfundur er lögmaður og varaþingmaður Viðreisnar.