Þann 14. júní birtist í Kjarnanum grein eftir Þorstein Pálsson, fyrrv. formann Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, um samstarf núverandi stjórnarflokka en Þorsteinn er nú einn af leiðtogum flokksins Viðreisnar. Þar segir hann meðal annars:
„Að svo komnu hafa Viðreisn og Björt framtíð því átt erindi í þetta stjórnarsamstarf. Mesta hættan fyrir þessa tvo flokka í framhaldinu er sú að í því breiða samtali sem lagt hefur verið upp með á nokkrum sviðum nái Sjálfstæðisflokkurinn saman með þeim tveimur flokkum í minnihlutanum sem mest eru á móti breytingum. Á næstu mánuðum eða misserum komast þeir flokkar tæpast hjá því að svara hvert hugur þeirra stefnir í þeim efnum."
Þverpólitísk sátt
Þegar greinin er lesin nánar kemur betur í ljós hvað Þorsteinn á við er hann segir: „En að öðru leyti hafa VG og Framsókn staðið fast eða jafnvel fastar gegn kerfisbreytingum en Sjálfstæðisflokkurinn.“ Í greininni kemur hins vegar ekki fram hvar VG hefur sýnt meiri andstöðu við kerfisbreytingar en einhver annar flokkur. Væri æskilegt að greinarhöfundur útskýrði það við tækifæri.Nú vill svo til að greinarhöfundurinn er nú orðið einn af forystumönnum stjórnmálaflokksins Viðreisnar og sem slíkur er hann formaður þeirrar nefndar sem á að leita að sátt um fiskveiðiauðlindina og ég sit sem fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni. Nefndin heitir „nefnd um framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni.“ Í frétt um skipun nefndarinnar á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins segir meðal annars „Markmiðið er að tillögur nefndarinnar geti orðið grundvöllur að þverpólitískri og víðtækri sátt í samfélaginu um sjávarútveginn og þar með grunnur að auknum stöðugleika í starfsumhverfi hans og tengdra greina til framtíðar.“
Nefndin hefur notið sérþekkingar sérfræðings sem liggur fyrir að situr í flokksstjórn Viðreisnar. Þannig hefur flokkur sjávarútvegsráðherra þrjá fulltrúa á fundum sem koma að verkefnum nefndarinnar. Á þeim fundum hafa ekki komið fram neinar tillögur um annað en vinnulag frá formanni nefndarinnar og fundunum að mestu verið varið í að fara yfir hugtök, útreikninga og forsendur.
Leikrit sem Viðreisn semur?
Sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hef ég lagt mig fram um að sinna störfum í nefndinni samviskusamlega og hið sama má segja um nefndarmenn annarra flokka. En þegar formaður nefndarinnar veitist að þeim stjórnmálaflokkum sem aðild eiga að nefndinni í grein þá er ljóst að eitthvað allt annað en samstaða vakir fyrir honum. Svona er nefnilega ekki unnið að því að skapa grundvöll að „þverpólitískri og víðtækri sátt í samfélaginu um sjávarútveginn“. Þvert á móti vekja skrif formanns nefndarinnar á Kjarnanum grunsemdir um að tilgangurinn með nefndinni sé einmitt ekki sá að skapa sátt heldur að ætlunin sé að skapa forsendur fyrir sundrungu um greinina sem verði flokknum Viðreisn engu að síður álitsauki. Er tilgangur nefndarinnar kannski sá að skerpa línur í átökum Viðreisnar við Sjálfstæðisflokkinn? Er ætlun formanns nefndarinnar og ráðherra Viðreisnar að við hin í nefndinni séum þar í aukahlutverkum í leikriti sem Viðreisn semur?Raunverulegar kerfisbreytingar
Nú er það svo að formaður nefndarinnar hefur aldrei lagt fram eina einustu tillögu í nefndinni. Þar gætu tillögur um eftirfarandi kerfisbreytingar skipt mestu máli til umræðu:- Stóraukinn og öruggur hlutur á framlagi sjávarútvegsins til samneyslunnar á komandi árum og sátt um starfsemi greinarinnar sérstaklega í sjávarútvegsbyggðum í landinu.
- Tillögur um ákvæði í stjórnarskrá um ótvíræðan yfirráða- og eignarrétt þjóðarinnar á þeirri auðlind sem fiskimiðin eru.
Engar tillögur hafa sést. Nú væri það þakkarvert ef formaðurinn opinberlega birti tillögur sínar því þær hljóta að liggja fyrir fyrst hann veit að einhverjir eru á móti þeim.
Svo mikið er víst að árásargreinar á aðra stjórnarflokka leysa ekki þann pólitíska vanda sem sjávarútvegurinn á við að glíma.
Höfundur er þingflokksformaður Vinstri grænna.